Óbeinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 960/2000

13.10.2000

Útleiga á kennslustofu - rekstur skóla og menntastofnana.

13. október 2000
G-Ákv. 00-960

Ríkisskattstjóri hefur þann 27. september 2000 móttekið fyrirspurn yðar þar sem þér óskið eftir upplýsingum um það hvort tímabundin leiga á kennslustofu með kennslubúnaði til tölvukennslu sé virðisaukaskattsskyld.

Til svars við fyrirspurn yðar vill ríkisskattstjóri taka eftirfarandi fram:

Samkvæmt 3. tölulið 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, er rekstur skóla og menntastofnana undanþegin virðisaukaskatti. Í greinargerð frumvarps til virðisaukaskattslaga segir að til reksturs skóla og menntastofnana teljist öll venjulega skóla- og háskólakennsla, fagleg menntun, endurmenntun og önnur kennslu- og menntastarfsemi.

Undanþágur frá virðisaukaskattsskyldu ber að skýra þröngt og er það mat ríkisskattstjóra að leiga á kennslustofu geti ekki fallið undir undanþáguna enda verður ekki talið að í umræddri aðstöðuleigu felist rekstur á skóla- eða menntastofnun.

Ríkisskattstjóri

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum