Ákvarðandi bréf nr. 959/2000
Virðisaukaskattur - rafrænn afsláttur
27. september 2000
G-Ákv. 00-959
Með tölvupósti, dags. 15. september 2000, spyrjist þér fyrir um frá hvaða tímabili þér megið draga rafrænan afslátt frá skattverði.
Til svars við fyrirspurn yðar skal eftirfarandi tekið fram:
Þann 1. júlí 2000 tóku gildi lög nr. 105/2000, um breyting á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. M.a. var gerð sú breyting á 5. tl. 2. mgr. 7. gr. að fyrirtækjum (seljendum) sem skrá sölu sína í sjóðvél og veita viðskiptavinum sínum svokallaðan rafrænan afslátt er nú heimilt að draga slíkan afslátt frá skattverði þegar uppgjör seljanda við greiðslukortafyrirtæki hefur farið fram.
Að mati ríkisskattstjóra þykir verða að skýra ákvæðið svo, enda kemur ekki annað fram í athugasemdum með frumvarpi því er varð að lögum nr. 105/2000, að miða verði gildistöku heimildarinnar við fyrsta uppgjör greiðslukortafyrirtækja eftir gildistöku laganna, þ.e. uppgjör í júlí 2000 sem mun vera vegna kortatímabilsins 18. maí - 17. júní 2000. Því má seljandi, sem veitt hefur rafrænan afslátt á því tímabili, draga hann frá skattskyldri veltu í samræmi við júlíuppgjör við kortafyrirtæki á virðisaukaskattstímabilinu júlí - ágúst en gjalddagi virðisaukaskatts vegna þess tímabils er 5. október.
Ríkisskattstjóri