Óbeinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 956/2000

24.8.2000

Virðisaukaskattur - sálfræðiþjónusta - símaþjónusta.

24. ágúst 2000
G-Ákv. 00-956

Vísað er til bréfs yðar sem dagsett er 28. júní 2000. Í því segir m.a. að nýlega stofnuðu þér sálfræðiþjónustu, þ.e. sérfræðiþjónustu og ráðgjöf, sem fer fram í gegnum síma. Þjónustan fer þannig fram að fólk hringir í gjaldskylt símanúmer, svokallað 908 - númer, og greiðir visst gjald fyrir hverja mínútu sem töluð er. Fyrirspurn yðar lýtur að því hvort innheimta eigi virðisaukaskatt af þessari þjónustu.

Til svars við fyrirspurninni skal eftirfarandi tekið fram:

Sú þjónusta sálfræðinga sem leyfi hafa til að kalla sig sérfræðing skv. reglugerð nr. 158/1990, um sérfræðileyfi sálfræðinga, og innt er af hendi á grundvelli leyfisins, er ekki virðisaukaskattsskyld. Undanþága frá virðisaukaskattsskyldu slíkra leyfisbundinnar starfsemi sálfræðings helgast eftir atvikum af ákvæðum 1., 2., eða 3. töluliðar 3. mgr. 2. gr. laga um virðisaukaskatt, þ.e. telst til heilbrigðisþjónustu, félagsþjónustu eða starfsemi skóla, eftir því hvort um er að ræða klíníska sálfræði, fötlunarsálfræði, uppeldissálfræði og félags- og skipulagssálfræði.

Undanþágan tekur aðeins til þeirra þjónustu sálfræðinga sem leyfi hafa til að kalla sig sérfræðinga en ekki til annarra sálfræðinga.

Að áliti ríkisskattstjóra er ofangreind þjónusta sálfræðinga, sem hafa leyfi til að kalla sig sérfræðinga, undanþegin virðisaukaskatti þó svo hún fari fram í gegnum síma.

Ríkisskattstjóri

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum