Óbeinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 947/2000

26.5.2000

Virðisaukaskattur - fjallskil - fjallskilaskyldir aðilar.

26. maí 2000
G-Ákv. 00-947

Vísað er til bréfs yðar dags. 29. nóvember 1999 þar sem óskað er eftir áliti ríkisskattstjóra um virðisaukaskatt vegna smölunar samkvæmt fjallskilareglugerð. Í bréfi yðar er vísað til bréfs ríkisskattstjóra dagsett 7. júlí 1999, tilvísun 915/99 (Virðisaukaskattur - fjallskil - dagsverk) og óskað eftir nánari skilgreiningu ríkisskattstjóra á eftirfarandi setningu:

 „Ákvörðuð framlög fjallskilaskyldra aðila, hvort heldur þau eru innt af hendi með vinnuframlagi eða með greiðslu fjár í fjallskilasjóð, bera því ekki virðisaukaskatt.“

Í bréfi yðar kemur einnig fram að þeir sem fara á fjall eru ýmist fjallskilaskyldir aðilar eða aðrir aðilar sem ekki eru gjaldskyldir.  Aðilum þessum er greidd ákveðin fjárhæð á dag hvort sem þeir eru gjaldskyldir eða ekki. Óskað er eftir upplýsingum um það hvort þeir aðilar sem selja fjallskilasjóði þjónustu sína þurfi að leggja virðisaukaskatt á hana.

Eins og kom fram í bréfi ríkisskattstjóra dagsettu 7. júlí 1999, tilvísun 915/99, eru stjórn og framkvæmd fjallskila meðal lögboðinna verkefna sveitarstjórna, sbr. 1. mgr. 7. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 og V. kafla laga nr. 6/1986, um afréttamálefni, fjallskil o.fl.  Verkefni sveitarstjórnar er lúta að fjallskilum eru opinber starfsemi sem ekki verður talin rekin í samkeppni við atvinnufyrirtæki, sbr. 6. gr. reglugerðar nr. 248/1990, um virðisaukaskatt af skattskyldri starfsemi opinberra aðila. Sem slík eru verkefnin ekki virðisaukaskattsskyld, sbr. 4. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Ákvörðuð framlög fjallskilaskyldra aðila, hvort heldur þau eru innt af hendi með vinnuframlagi eða með greiðslu fjár í fjallskilasjóð, bera því ekki virðisaukaskatt.

Þeir aðilar sem vinna fyrir fjallskilasjóð, og ekki eru fjallskilaskyldir, eru hins vegar virðisaukaskattsskyldir enda sé skattskylduákvæðum II. kafla laga um virðisaukaskatt fullnægt. Starfsemi þeirra felst í sölu á vinnu sem er virðisaukaskattsskyld, sbr. 2. gr. laga um virðisaukaskatt, enda er vinna við að fara á fjall ekki sérstaklega undanþegin sbr. undanþágur frá virðisaukaskattsskyldu í 3. mgr. 2. gr.

Vinna fjallskilaskyldra aðila umfram álögð fjallskil er að sama skapi virðisaukaskattsskyld samkvæmt almennum reglum laga um virðisaukaskatt.

Beðist er velvirðingar á þeim töfum sem hafa orðið á afgreiðslu málsins.

Ríkisskattstjóri

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum