Óbeinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 945/2000

17.5.2000

Viðskipti við fiskiskip sem skráð eru erlendis-hentifánaskip.

17. maí 2000
G-Ákv. 00-945

Vísað er til fyrirspurnar yðar sem barst ríkisskattstjóra þann 8. mars sl. með tölvupósti. Í fyrirspurninni er spurt um það hvort leggja beri virðisaukaskatt á sölu á vörum um borð í skip sem skráð eru erlendis. Tekið er sem dæmi skip sem er í eigu félags A, sem skráð er erlendis, en það félag er dótturfélag annars félags B sem hefur lögheimili og aðsetur á Íslandi. Skipið er gert út frá Íslandi og með íslenskri áhöfn a.m.k. að hluta. Aflanum er landað á Íslandi og bókhald og launaútreikningur vegna félags A fer fram á skrifstofu félags B á Íslandi.  

Um virðisaukaskatt af vörum til erlendra skipa er fjallað í bréfi ríkisskattstjóra frá 3. nóvember 1993 (tilv. 567/1993). Í því kemur fram að ef um sölu á vörum er að ræða um borð í fiskiskip eða önnur skip sem ekki falla undir 5. tl. 1. mgr. 12. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt þá getur slík sala fallið undir 1. tl. 1. mgr. 12. gr. sömu laga ef varan er afhent um borð í erlent skip eða loftfar til nota utan íslenskrar tollalögsögu og ef ákveðin skilyrði eru uppfyllt um sönnun sölu úr landi. Íslensk tollalögsaga afmarkast af 12 sjómílna landhelgi Íslands og með erlendu skipi er átt við skip sem skráð er erlendis. Þau skilyrði sem uppfylla þarf eru að seljandi hafi í bókhaldi sínu eða bókhaldsgögnum eftirtalin gögn:

  1. Afrit sölureiknings vegna hinnar útfluttu vöru.
  2. Afrit útflutningsskýrslu í því formi sem ákveðið er samkvæmt tollalögum nr. 55/1987, áritaða af tollyfirvöldum um útflutning, svo og kvittun flutningsaðila fyrir móttöku sendingar til flutnings úr landi. Sé ekki krafist útflutningsskýrslu vegna sölu úr landi, t.d. þegar vara er send með pósti, nægir kvittun fyrir móttöku sendingar flutnings úr landi.

Auk framangreindra gagna skal seljandi varðveita í bókhaldsgögnum sínum skriflega pöntun frá kaupanda og önnur viðskiptabréf varðandi söluna.

Sala á vörum um borð í erlent fiskiskip er því undanþegin virðisaukaskatti, skv. 12. gr. laga nr. 50/1988, ef ofangreind skilyrði eru uppfyllt.

Að gefnu tilefni verður einnig fjallað um í þessu bréfi hvort leggja beri virðisaukaskatt á selda þjónustu vegna vinnu við lausan búnað um borð í erlendum fiskiskipum.

Að áliti ríkisskattstjóra ber almennt að innheimta virðisaukaskatt af þeim viðskiptum sem fara fram innan lögsögu íslenska ríkisins, þ.e. innan 12 sjómílna lögsögu. Frá þessu eru þó undantekningar og ein slík er í 7. tl. 1. mgr. 12. laga nr. 50/1988 en skv. því ákvæði er skipasmíði og viðgerðar- og viðhaldsvinna við skip og loftför og fastan útbúnað þeirra, svo og efni og vörur sem það fyrirtæki sem annast viðgerðina nota og lætur af hendi við þá vinnu, undanþegin virðisaukaskatti. Undanþágan nær þó ekki til skipa sem eru undir 6 metrum að lengd, skemmtibáta og einkaloftfara. Vinna við lausan búnað fiskiskips sem skráð er erlendis er því virðisaukaskattsskyld. Með lausum búnaði er átt við almennt lausafé s.s. veiðarfæri, toghlera og fiskkassa. Með föstum útbúnaði er hins vegar átt við búnað sem er nagl- eða skrúffastur við skip og einnig björgunarbáta og annan öryggisbúnað. Um heimildir til endurgreiðslu virðisaukaskatts vísast til reglugerðar nr. 288/1995, um endurgreiðslu virðisaukaskatts til erlendra fyrirtækja.

Ríkisskattstjóri

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum