Óbeinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 944/2000

11.5.2000

Virðisaukaskattur - rannsóknarstörf - skattskylda - innskattur - reikningsútgáfa.

11. maí 2000
G-Ákv. 00-944

Í bréfi A dagsettu 7. mars 2000 er frá því greint að rannsóknarstofa félagsins og tiltekið hlutafélag hafi gert með sér samstarfssamning um rannsóknarverkefni.  Gjaldtaka A fyrir þjónustu rannsóknarstofunnar muni ráðast af launakostnaði starfsmanna og útlögðum efniskostnaði. Gert er ráð fyrir að hlutafélagið inni mánaðarlega af hendi þóknun til A fyrir rannsóknarstarfið. Spurt er hvort A beri að innheimta virðisaukaskatt af þóknuninni. Jafnframt er spurt hvort A beri að innheimta virðisaukaskatt við sölu dulkóðaðra gagna úr skrám sínum og af vinnu sem tengist úrvinnslu þeirra gagna. Ennfremur er spurt um innskattsrétt A vegna umræddrar starfsemi. Í bréfinu er tekið fram að A sé ekki virðisaukaskattsskylt af annarri starfsemi sinni þar sem hún sé á heilbrigðissviði.

Til svars fyrirspurninni skal eftirfarandi tekið fram.

Skattskyldusvið virðisaukaskatts er skilgreint mjög víðtækt í 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt með síðari breytingum.  Tekur það til allra vara og verðmæta, nýrra og notaðra og allrar vinnu og þjónustu, hverju nafni sem nefnist, sem ekki er sérstaklega lýst undanþegin í lögunum. Í 1. tl. 3. mgr. umræddrar 2. gr. er kveðið á um að undanþegin virðisaukaskatti sé þjónusta sjúkrahúsa, fæðingarstofnana, heilsuhæla og annarra hliðstæðra stofnana, svo og lækningar, tannlækningar og önnur eiginleg heilbrigðisþjónusta. Í skattframkvæmd hefur hugtakið eiginleg heilbrigðisþjónusta verðið skýrt svo að það taki til þjónustu þeirra er falla undir lög nr. 24/1985, um starfsheiti og starfsréttindi heilbrigðisstétta, eða sérlög um heilbrigðismál, að því er varðar þjónustu sem felst í meðferð á líkama sjúklings til lækninga, hjúkrunar eða sambærilegrar meðferðar. Litið hefur verið svo á að rannsóknarstörf séu undanþegin virðisaukaskatti á grundvelli umrædds ákvæðis að því leyti sem störfin eru óaðgreinanlegur hluti af starfsemi heilbrigðisstofnana sbr. framangreinda tilgreiningu þeirra. 

Af fyrirliggjandi upplýsingum er ljóst að hlutafélag það er A selur umrædda þjónustu sína stundar virðisaukaskattsskylda starfsemi, þ.e. er á skrá yfir virðisaukaskattsskylda aðila. Af því má ráða að umrædd rannsóknarstörf, sem unnin eru í þess þágu, séu ekki liður í starfsemi heilbrigðisstofnunar og falli ekki undir umrætt undanþáguákvæði. Þjónustan fellur því undir skattskyldusvið virðisaukaskatts.

Skylda til að innheimta virðisaukaskatt og standa skil á honum í ríkissjóð hvílir m.a. á félögum og stofnunum, enda þótt þau séu undanþegin skattskyldu skv. lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, að því leyti sem þau selja vörur eða skattskylda þjónustu í samkeppni við atvinnufyrirtæki. Ríkisskattstjóri lítur svo á að umrædd rannsóknarstörf A séu innt af hendi í samkeppni við atvinnufyrirtæki enda þótt þau kunni að meira eða minna leyti að byggjast á gögnum og upplýsingum sem atvinnufyrirtæki búa ekki yfir. Til staðar eru atvinnufyrirtæki sem sinna viðlíka rannsóknum og gætu innt rannsóknarstörfin af hendi fengju þau til þess nauðsynlegar upplýsingar. Sala upplýsinga sem byggja á slíkum rannsóknarstörfum er jafnframt virðisaukaskattsskyld. Hins vegar lítur ríkisskattstjóri svo á að sala upplýsinga og gagna, sem verða til sem liður í eiginlegri heilbrigðisþjónustu, sé ekki í samkeppni við atvinnufyrirtæki og því undanþegin virðisaukaskatti, enda ekki á færi atvinnufyrirtækja að veita slíkar upplýsingar.

Almennt er starfsemi ekki skráningarskyld til virðisaukaskatts nemi tekjur af henni að jafnaði lægri fjárhæð en kostnaður við aðföng sem keypt eru með virðisaukaskatti til starfseminnar, sbr. 5. mgr. 5. gr. laga nr. 50/1988. Þeim sem ekki er skráningarskyldur ber hvorki að innheimta virðisaukaskatt við sölu, né á hann rétt til innskatts af aðföngum. Miðað við þær forsendur gjaldtöku sem tilgreindar eru í fyrirspurnarbréfi verður ekki annað ráðið en að A sé skráningarskylt vegna umræddra rannsóknarstarfa og beri því að innheimta virðisaukaskatt af þóknun fyrir þau. Þeim innheimta virðisaukaskatti ber félaginu að skila í ríkissjóð að frádregnum innskatti. Til innskatts telst virðisaukaskattur af vörum og þjónustu sem félagið kaupir eingöngu til nota í hinum virðisaukaskattsskylda þætti starfsemi sinnar. Óheimilt er að telja til innskatts virðisaukaskatt af aðföngum er að öllu leyti varða þann þátt í starfseminni sem undanþeginn er virðisaukaskatti.  Jafnframt er A, sem aðila undanþegnum skattskyldu skv. lögum um tekju- og eignarskatt, óheimilt að telja til innskatts virðisaukaskatt af aðföngum er varða hvort tveggja hinn virðisaukaskattsskylda þátt starfseminnar og þann þátt hennar sem undanþeginn er virðisaukaskatti. Þá er almennt óheimilt að telja til innskatts virðisaukaskatt vegna kaupa er varða hlunnindi til starfsfólks.

Sölureikning ber að gefa út við sérhverja afhendingu á skattskyldri vöru eða þjónustu, hvort heldur selt er gegn staðgreiðslu eða greiðslufresti. Þó er þjónustusölum heimilt að gefa út í lok hvers mánaðar sölureikning vegna þeirrar þjónustu sem innt er af hendi í viðkomandi mánuði. Skilaskylda virðisaukaskatts miðast á sama hátt við afhendingartíma, þ.e. sala telst til skattskyldrar veltu á því uppgjörstímabili sem stendur yfir þegar afhending hins selda fer fram. Sé sölureikningur gefinn út fyrir afhendingu miðast skilaskyldan þó við útgáfudag reiknings. Fyrirframgreiðslur teljast til skattskyldrar veltu yfirstandandi uppgjörstímabils þegar þær eru inntar af hendi.

Ríkisskattstjóri

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum