Óbeinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 917/1999

26.7.1999

Flutningsmiðlarar - greiðsluskjöl í tolli - útlagður kostnaður.

26. júlí 1999
G-Ákv. 99-917

Að gefnu tilefni þykir ríkisskattstjóra rétt að gera grein fyrir því hvernig haga skal uppgjöri milli miðlara og innflytjanda. 

Flutningsmiðlari fær greiðsluskjal í tolli þar sem fram kemur nafn innflytjanda og miðlara. Greiðsluskjalið er innskattsskjal innflytjanda en ekki flutningsmiðlara og þarf því að vera í bókhaldi innflytjandans. Flutningsmiðlarinn gerir upp við innflytjandann skv. 21. gr. reglugerðar nr. 50/1993, um bókhald og tekjuskráningu virðisaukaskattsskyldra aðila, þar sem um útlagðan kostnað er að ræða. Uppgjör aðila má ekki fara fram á sölureikningi, heldur á sérstöku skjali. Á uppgjörinu skal tilgreina fjárhæðir allra greiðsluskjala eða greiðsluskjals, ásamt tegundum kostnaðar og nöfnum seljanda. Frumrit uppgjörsins skal vera í bókhaldi innflytjanda en áritað samrit skal vera bókhaldsskjal flutningsmiðlarans.

Hins vegar innheimtir flutningsmiðlarinn virðisaukaskatt vegna þóknunar sinnar á sölureikningi, samkvæmt 20. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.

Ríkisskattstjóri

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum