Óbeinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 915/1999

7.7.1999

Virðisaukaskattur - fjallskil - dagsverk

7. júlí 1999
G-Ákv. 99-915

Vísað er til bréfs yðar dags. 29. desember sl. þar sem óskað er eftir áliti ríkisskattstjóra á að virðisaukaskattur sé lagður á unnið dagsverk sem ákveðið er af fjall­skila­nefnd samkvæmt fjallskilareglugerð. Með bréfinu fylgir samþykkt fjall­skila­nefndar A og B dags. 26. ágúst sl. þar sem fram kemur að dagsverkið reiknast á kr. 5.000. Einnig hefur verið lögð fram fjallskilareglugerð fyrir C austan vatna, sbr. símbréf dags. 17. desember sl.

Til svars við erindi yðar skal eftirfarandi tekið fram:

Meðal lögboðinna verkefna sveitarstjórna er að annast stjórn og framkvæmd fjallskila, sbr. 1. mgr. 7. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 og V. kafla laga nr. 6/1986, um afréttamálefni, fjallskil o.fl. Verkefni sveitarstjórnar er lúta að fjallskilum eru opinber starfsemi sem ekki verður talin rekin í samkeppni við atvinnufyrirtæki, sbr. 6. gr. reglugerðar nr. 248/1990, um virðisaukaskatt af skattskyldri starfsemi opinberra aðila. Sem slík eru verkefnin ekki virðisaukaskattsskyld, sbr. 4. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Ákvörðuð framlög fjallskilaskyldra aðila, hvort heldur þau eru innt af hendi með vinnuframlagi eða með greiðslu fjár í fjallskilasjóð, bera því ekki virðisaukaskatt.

Rétt þykir að taka fram að sveitarstjórn skal greiða virðisaukaskatt samkvæmt almennum reglum af aðföngum við rækslu hinna lögboðnu verkefna við fjallskil og á ekki rétt til endurgreiðslu þess skatts.

Beðist er velvirðingar á þeirri töf sem orðið hefur á að svara fyrirspurn yðar.

Ríkisskattstjóri

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum