Óbeinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 911/1999

26.3.1999

Virðisaukaskattur af ýmiss konar handiðnaði og handverki

26. mars 1999
G-Ákv. 99-911

Að gefnu tilefni þykir ríkisskattstjóra rétt að upplýsa framleiðendur og seljendur ýmiss konar handverks um að innheimta ber virðisaukaskatt af slíkri sölu.

Þess misskilnings virðist gæta meðal sumra seljenda á handverki og handiðnaði að sala þeirra sé undanþegin virðisaukaskatti. Vegna þessa skal tekið fram að skattskylda laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, nær til allra vara og verðmæta, sbr 1. mgr. 2. gr. laganna. Lögin hafa ekki að geyma sérstaka skilgreiningu á vöruhugtakinu en ljóst er að það er mjög víðtækt og getur náð til hvers konar efnislegra verðmæta. Ákvæðið slær því föstu að skattskyldan taki bæði til nýrrar vöru og notaðrar.

Þrátt fyrir framangreint eru listamenn undanþegnir skattskyldu, sbr. 2. tölul. 4. gr. vskl., að því er varðar sölu þeirra á eigin listaverkum sem falla undir vöruliði 9701 til 9703 í tollskrá. Eftirfarandi listaverk falla hér undir:

1.         Málverk, teikningar og pastelmyndir gerðar í höndum að öllu leyti, þó ekki:

(a)        uppdrættir og teikningar til notkunar í húsagerð, verkfræði, iðnaði, viðskiptum, landslagsfræði eða þess háttar handgerð frumverk;

            (b)       handskrifaður texti;

            (c)        ljósmyndir á ljósnæmum pappír;

            (d)       handmálaðir eða handskreyttir framleiddir hlutir.

2.         Klippimyndir og áþekkt veggskreytispjöld.

3.         Frumverk af stungum, þrykki og steinprenti, þ.e. myndir sem þrykktar eru beint í svörtu og hvítu eða í lit með einni eða fleiri plötum sem listamaðurinn hefur gert að öllu leyti í höndunum án tillits til þeirra aðferða eða efnis sem hann notar, þó ekki með neins konar vélrænum eða ljósvélrænum aðferðum.

4.         Frumverk af höggmyndum og myndastyttum úr hvers konar efni. Til þessa flokks teljast ekki fjöldaframleiddar endurgerðir af listaverkum eða venjulegar handiðnaðarvörur sem hafa einkenni verslunarvöru.

Rammar um málverk, teikningar, pastelmyndir, klippimyndir eða áþekk veggskreytispjöld, stungur, þrykk eða steinprent skoðast sem hluti af þessum vörum enda séu þeir að gerð og verðmæti í eðlilegu samræmi við þær.

Samkvæmt framansögðu þykir ljóst að sala á venjulegum handiðnaðarvörum sem hafa einkenni verslunarvöru er skattskyld til virðisaukaskatts. Skattskyldan nær því m.a. til skála, kertastjaka, vasa og annarra leirlistamuna, hvers konar tréskurðarhandverks, textílvara, s.s. púða, efna, fatnaðar o.fl. Hér skiptir engu máli að varan er gerð að öllu leyti í höndum eða að enginn hlutur er eins heldur nær undanþágan ekki til þessara vara. Í vafatilvikum er seljanda mögulegt að kanna hjá tollyfirvöldum til hvaða  tollskrárnúmera vara heyrir, sbr. reglur nr. 117/1994, um fyrirspurnir til tollstjóra um tollflokkun vara.

Ríkisskattstjóri

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum