Ákvarðandi bréf nr. 906/1999
Innskattsfrádráttur vegna tjóna hjá rekstraraðilum – efnisskilyrði sölureikninga
29. janúar 1999
G-Ákv. 99-906
Vísað er til bréfs yðar, dags. 20. nóvember 1998 og fund með yður dags. 12. janúar sl., þar sem óskað er eftir endurskoðun á áliti ríkisskattstjóra 12. mars 1998 (tilv. 845/98). Jafnframt er farið fram á að heimilað verði að halda áfram því verklagi sem lýst er í minnisblaði um vátryggingarstarfsemi dags. 17. janúar 1990 um meðferð og útgáfu sölureikninga vegna tjóna.
Til svars erindi yðar skal tekið fram að leiðbeiningar um uppgjör og útgáfu reikninga vegna tjóna koma fram í tveimur bréfum frá embættinu, annars vegar í bréfi dags. 17. janúar 1990 og hins vegar í bréfi dags. 12. mars 1998. Meginatriði er að auk tilgreiningar tryggingarfélags á reikningi komi fram lýsing viðkomandi eignar (t.d. fastnúmer ökutækis) og nafn eiganda (þess sem færir sölureikning til bókar) ásamt því að hann fái frumrit reiknings í hendur. Þess ber að geta að kennitölu eiganda skal ávallt tilgreina á reikningi.
Ríkisskattstjóri