Óbeinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 894/1998

1.12.1998

Álag skv. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.

1. desember 1998
G-Ákv. 98-894

Vísað er til bréfa ríkisskattstjóra til allra skattstjóra dags. 6. sept. 1991 (tilv. 339/91) og 26. júní 1997 (tilv. 73/97 og 804/97) um sama efni. 

Að gefnu tilefni hefur ríkisskattstjóri nú fallist á ákveðið frávik frá þeirri verklagsreglu, um álagsbeitingu við skattbreytingu, að inneign virðisaukaskatts á einu uppgjörstímabili gangi upp í elstu skuld á fyrra tímabili innan sama árs. Þetta frávik á við í því tilviki sem skýrt er með eftirfarandi dæmi:

Gjaldandi skuldar virðisaukaskatt á uppgjörstímabilinu jan.-feb. Síðar á sama ári er ákveðin innskattsfjárhæð færð ranglega á tímabilið júlí-ágúst en hefði átt að færast á tímabilið maí-júní. Þetta er svo leiðrétt á þann hátt að innskattur er hækkaður fyrir maí- júní en lækkaður fyrir júlí- ágúst um sömu fjárhæð. Samkvæmt meginreglunni ætti hækkunin á innskattinum fyrir maí-júní að ganga upp í skuldina fyrir jan.-feb. en ríkisskattstjóri telur að í þessum tilvikum sé rétt að láta inneignina ganga upp í lækkun innskatts fyrir júlí-ágúst.

Í bréfi ríkisskattstjóra, dags. 6. sept. 1998, er fjallað um það tilvik að gjaldandi eigi inni virðisaukaskatt á fyrra uppgjörstímabili en skuldi virðisaukaskatt á síðara tímabili. Þá skal draga frá skuldinni (álagsstofninum) inneign hans ef hvort tveggja myndast við sömu skattbreytingu. Í þessu tilviki er inneignin elst.

Ríkisskattstjóri

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum