Óbeinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 893/1998

30.11.1998

Lögfræðiþjónusta veitt erlendum banka – nýtt erlendis

30. nóvember 1998
G-Ákv. 98-893

Vísað er til bréfs yðar, dags. 1. september sl., þar sem óskað er eftir áliti ríkisskattstjóra á því hvort sala lögfræðiþjónustu til erlendra lánastofnana vegna lánastarfsemi þeirra erlendis sé virðisaukaskattsskyld.

Í bréfi yðar er viðskiptum yðar við hina erlendu lánveitendur lýst svo:

“Í stuttu máli er aðdragandinn sá, að íslenskar fjármálastofnanir semja við erlendar fjármálastofnanir um lántöku. Skjalagerð öll er unnin erlendis og lánsskjöl fara eftir erlendum lögum. Eitt af skilyrðum fyrir lánveitingum til hinna íslensku aðila er að fyrir liggi lögfræðiálit frá íslenskum lögfræðingum, þess efnis að lántakinn sé bundinn af þeim lánasamningi sem hann hefur gert við hinn erlenda lánveitanda.”

Samkvæmt 10. tölul. 1. mgr. 12. gr. virðisaukaskattslaga, nr. 50/1988, sbr. lög nr. 115/1997, þá er sala á þjónustu til erlendra aðila sem hvorki hafi búsetu né starfsstöð hér á landi undanþegin skattskyldri veltu í þeim tilvikum sem þjónustan er að öllu leyti nýtt erlendis eða kaupandi gæti, ef starfsemi hans væri skráningarskyld hér á landi, talið virðisaukaskatt vegna kaupa þjónustunnar til innskatts, sbr. 15. og 16. gr. laganna.

Þjónusta sem er í tengslum við starfsemi, eignir, réttindi eða hagsmunagæslu erlends aðila telst nýtt hér á landi og fellur því ekki undir ákvæði 10. tölul. 1. mgr. 12. gr. laganna.

Til dæmis um þjónustu sem telja má að nýtt sé að hluta eða öllu leyti hér á landi má almennt nefna vinnu sem varðar viðskiptahagsmuni hins erlenda kaupanda hér á landi, svo og aðstoð vegna fyrirhugaðra kaupa eða stofnunar fyrirtækis hér á landi. Einnig, t.d. málflutningsstörf fyrir íslenskum dómstólum, innheimtumál gegn íslenskum skuldurum, milligöngu um einkaleyfa-, mynstur- eða vörumerkjaskráningu, gæslu hagsmuna erlendra erfingja sem kalla til arfs í íslensku dánarbúi og álitsgerðir um íslenskar réttarreglur vegna viðskiptahagsmuna hér á landi.

Til dæmis um skilsmuninn má nefna lögfræðilega greinargerð unna af íslenskum lögmanni fyrir erlendan aðila. Greinargerðin er send úr landi og nýtt í dómsmáli þar. Þessi þjónusta telst nýtt erlendis og því undanþegin skattskyldri veltu. Lögfræðileg greinargerð sama lögmanns fyrir sama aðila nýtt í dómsmáli hérlendis telst á hinn bóginn til þjónustu nýttrar hér og landi og því til skattskyldrar veltu.

Með vísan til þess sem að framan greinir er það álit ríkisskattstjóra að lögfræðiþjónusta sem veitt er erlendum lánveitendum vegna væntanlegra útlána (viðskipta) til innlendra aðila sé nýtt hér á landi, þ.e. vinnan varðar viðskiptahagsmuni hinna erlendu lánveitenda  hér á landi. Af þessari ástæðu er ljóst að innheimta ber virðisaukaskatt af framangreindri þjónustu. Jafnframt er ljóst að hinn erlendi lánveitandi getur ekki fengið endurgreiddan þann virðisaukaskatt sem hann hefur greitt hérlendis vegna umræddrar þjónustu þar sem lánastarfsemi er ekki virðisaukaskattsskyld starfsemi hérlendis.

Beðist er velvirðingar á þeim töfum sem orðið hafa á því að svara fyrirspurn yðar.

Ríkisskattstjóri

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum