Óbeinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 892/1998

30.11.1998

Rekstur bændaskóla - skattaleg meðferð styrkja – innskattsfrádráttur

30. nóvember 1998
G-Ákv. 98-892

Vísað er til bréfs ráðuneytisins, dags. 3. nóv. sl., þar sem óskað er eftir áliti ríkisskattstjóra á skattalegri meðferð erlendra rannsóknarstyrkja til skólans. Auk þess hvort skólinn ætti rétt á svokölluðum hlutafrádrætti innskatts.

Til svars bréfi yðar skal fyrst tekið fram að styrkir sem veittir eru án nokkurs endurgjalds eða skilyrða eru ekki greiðslur fyrir virðisaukaskattsskylda vöru eða þjónustu. Hins vegar ber að skila virðisaukaskatti af styrkgreiðslu ef í raun er eitthvert endurgjald fyrir styrkinn. Rannsóknarstyrkir geta verið með þessum hætti eins og aðrir styrkir. Ef um er að ræða greiðslur vegna rannsóknarverkefnis sem skólinn er þátttakandi í ber ekki að innheimta virðisaukaskatt af slíkum styrkjum enda eru þeir veittir án sérstaks endurgjalds. Ef skólinn hins vegar fær styrkgreiðslur fyrir rannsóknir sem verða eign styrkveitenda að einhverju eða öllu leyti er ljóst að slíkar greiðslur eru endurgjald fyrir veitta þjónustu og ber að innheimta virðisaukaskatt af þeirri þjónustu. Ekki skiptir máli í þessu sambandi hvort styrkveitandinn/kaupandinn er erlendur aðili eða ekki. Jafnframt skal tekið fram að þótt seljandi sé opinber aðili þá er hann virðisaukaskattsskyldur að svo miklu leyti sem hann selur vörur eða skattskylda þjónustu í samkeppni við atvinnufyrirtæki, sbr. 4. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.

Hvað hitt atriðið varðar þá er ljóst samkvæmt ákvæði 4. mgr. 16. gr. virðisaukaskattslaga, sbr. 10. gr. reglugerðar nr. 192/1993, um innskatt, að ríki, bæjar- og sveitarfélögum og stofnunum þeirra er einungis heimilt að telja til innskatts virðisaukaskatt af þeim aðföngum sem eingöngu varða sölu á skattskyldri vöru eða þjónustu, sbr. 4. tölul. 1. mgr. 3. gr. laganna. Samkvæmt framansögðu þá er hlutafrádráttur slíkra aðila ekki tækur.

Það skal hins vegar tekið fram að heimilt er að telja til innskatts virðisaukaskatt af þeim aðföngum sem eru eingöngu notuð til rannsókna í þeim hluta starfseminnar sem er skattskyldur og gildir þá einu hvort styrkir til slíkra rannsókna eru gegn endurgjaldi eða ekki.

Á það skal minnt að starfsemi verður að uppfylla skilyrði 5. mgr. 5. gr. virðisaukaskattslaga til að teljast virðisaukaskattsskyld.

Ríkisskattstjóri

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum