Ákvarðandi bréf nr. 891/1998
Innskattur vegna sameiginlegra innkaupa tveggja eða fleiri
24. nóvember 1998
G-Ákv. 98-891
Vísað er til bréfs yðar, dags. 29. október 1998, þar sem þér óskið álits embættisins á því hvernig húsfélag geti útbúið fylgiskjöl í hendur einstakra eigenda þannig að þeir geti nýtt sér innskattinn í sínum rekstri.
Í bréfi yðar kemur fram að um er að ræða svokallað blandað húsnæði þ.e.a.s. að bæði eru íbúðir og atvinnurekstur í húsnæðinu. Hlutverk húsfélagsins er m.a. að jafna niður og innheimta vegna sameiginlegs kostnaðar.
Í 2. mgr. 15. gr. reglugerðar nr. 50/1993, um bókhald og tekjuskráningu virðisaukaskattsskyldra aðila, segir að vegna sameiginlegra innkaupa tveggja eða fleiri rekstraraðila, sem einn sölureikningur er gefinn út fyrir, megi færsla á innskatti byggjast á sameiginlegri greinargerð þar sem fram komi nafn og kennitala allra kaupenda, svo og skipting verðs og virðisaukaskatts. Árita skal á frumrit sölu-reiknings hver varðveitir það. Ljósrit sölureiknings skal liggja fyrir í bókhaldi allra aðila ásamt greinargerð ef hún er gerð á sérstöku skjali.
Ríkisskattstjóri getur fallist á að þessi aðferð sé viðhöfð ef reikningar sem um ræðir eru stílaðir á einhvern hinna virðisaukaskattsskyldu rekstraraðila, jafnvel þó sumir greiðendanna séu íbúðareigendur.
Ríkisskattstjóri