Óbeinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 888/1998

27.10.1998

Fjáröflun – góðgerðarstarfsemi – bygging á meðferðardeild fyrir ungt fólk

27. október 1998
G-Ákv. 98-888

Vísað er til bréfs yðar, dags. 22. október sl., þar sem óskað er eftir staðfestingu ríkisskattstjóra á því að fjáröflun X vegna byggingar á meðferðardeild fyrir ungt fólk sé undanþegin virðisaukaskatti auk þess sem beðið er um upplýsingar hvernig verslunum og öðrum sem taka á móti styrktarfé beri að meðhöndla greiðslur í bókhald.

Í bréfinu kemur fram að X mun efna til fjáröflunar dagana 29. október til og með 8. nóvember nk. Fjáröflunin verður með þeim hætti að gegn greiðslu 300 kr. fær styrkveitandi afhent svokallað X-kort. Sú fjárhæð sem safnað verður með þessum hætti rennur síðan óskipt til styrktar byggingu á meðferðardeild fyrir ungt fólk á sjúkrahúsinu A. Verslanir og bensínstöðvar um land allt munu taka við styrkjum gegn afhendingu kortsins án sölulauna.

Það er álit ríkisskattstjóra að slík góðgerðarstarfsemi sem fjallað er um hér að framan sé undanþegin skattskyldu skv. 5. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, enda virðast skilyrði um ráðstöfun fjárhæðar auk annarra skilyrða  uppfyllt að öllu leyti.

Að lokum skal tekið fram að í þessum tilvikum skal ávallt sækja um staðfestingu skattstjóra um að skilyrði ákvæðisins séu uppfyllt og er slík staðfesting skattstjórans í Reykjavík væntanleg í dag.

Hvað varðar utanumhald “söluaðila” í bókhaldi þá ber þeim að aðgreina styrkgreiðslur sérstaklega í söluskráningarkerfi þannig að ef t.d. notuð er sjóðvél til tekjuskráningar þá skal koma sérstaklega fram á kassakvittun að salan sé án virðisaukaskatts. Þar sem hér er  ekki um að ræða greiðslur vegna skattskyldrar sölu þá ber ekki að tilgreina þær með neinum hætti á virðisaukaskattsskýrslu.

Ríkisskattstjóri

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum