Óbeinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 886/1998

23.10.1998

Virðisaukaskattur af námskeiðum

23. október 1998
G-Ákv. 98-886

Vísað er til bréfs yðar, dags. 21. september 1998, þar sem spurst er fyrir um, hvort innheimta beri virðisaukaskatt af námskeiðum sem fyrirtækið hyggst bjóða upp á.

Í bréfi yðar kemur fram að námskeiðin sem verða undir faglegri umsjón Dr. Z. G, sálfræðings eru ætluð foreldrum og er efni þeirra uppeldisráðgjöf.

Samkvæmt 3. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, er rekstur skóla og menntastofnana undanþegin virðisaukaskatti. Í athugasemdum við frumvarp til virðisaukaskattslaga kemur fram að til reksturs skóla og menntastofnana teljist öll venjuleg skóla og háskólakennsla, fagleg menntun, endurmenntun og önnur kennslu- og menntastarfsemi. Jafnframt kemur fram að við mat á því hvort nám teljist skattfrjálst er eðlilegt að hafa hliðsjón af því hvort boðið er upp á það í hinu almenna skólakerfi eða ekki. Hafi námsgreinin t.d. unnið sér fastan og sess í hinu almenna skólakerfi ber samkvæmt framansögðu að líta svo á að skóla- og námskeiðsgjöld séu undanþegin virðisaukaskatti.

Að mati ríkisskattstjóra hefur nám í uppeldisfræðum unnið sér fastan sess í hinu íslenska skólakerfi og ber því ekki að innheimta virðisaukaskatt af þeim námskeiðum sem um er rætt í bréfi yðar.

Ríkisskattstjóri

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum