Óbeinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 885/1998

21.10.1998

Kennsla við Sjávarútvegsskóla

21. október 1998
G-Ákv. 98-885

Vísað er til bréfs yðar, dags. 23. september 1998, þar sem þér óskið staðfestingar á þeirri túlkun yðar, að kennsla verktaka við skólann sé undanþegin virðisaukaskatti.

Í bréfi yðar segir um skólann:

" Sjávarútvegsskóli Háskóla Sameinuðu þjóðanna tók til starfa fyrr á þessu ári, skv. samningi milli ríkisstjórnar Íslands og Háskóla Sameinuðu þjóðanna. Starfsemin fer fram innan Hafrannsóknarstofnunarinnar og í samvinnu við Háskóla Íslands, Háskólann á Akureyri, rannsóknarstofnun Fiskiðnaðarins og fleiri aðila. Starfsemin er fjármögnuð með sérstakri fjárveitingu frá utanríkisráðuneytinu, auk þess sem Háskóli S.Þ. ber hluta kostnaðar."

Til svars erindinu skal tekið fram að skv. 3.tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, er rekstur skóla og menntastofnana undanþegin virðisaukaskatti. Í greinargerð með frumvarpi til laganna kemur fram að með orðalaginu "rekstur skóla og menntastofnana" sé átt við alla venjulega skóla- og háskólakennslu, faglega menntun, endurmenntun og aðra kennslu- og menntastarfsemi sem unnið hefur sér fastan og almennan sess í skólakerfinu. Sérstaklega skal bent á að fagleg menntun og endurmenntun er undanþegin virðisaukaskatti ef kennslan miðar að því að viðhalda eða auka þekkingu vegna atvinnu eða menntunar þátttakenda.

Með tilliti til ofanritaðs er það mat ríkisskattstjóra að kennsla við Sjávarútvegsskólann sé undanþegin virðisaukaskatti.

Ríkisskattstjóri

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum