Óbeinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 877/1998

4.9.1998

Virðisaukaskattur af viðskiptum varnarliðsins við innlenda aðila.

4. september 1998
G-Ákv. 98-877

Að gefnu tilefni hefur ríkisskattstjóri tekið til athugunar þær verklagsreglur sem  gilt hafa um framkvæmd 48. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt. Eftirfarandi er sent til viðeigandi meðferðar.

Sala til varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli telst sala úr landi í skilningi 1. tölul. 1. mgr. 12. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. 48. gr. sömu laga. Sala til umrædds aðila telst því ekki til skattskyldrar veltu.

Í bréfi ríkisskattstjóra, dags. 6. desember 1990 (tilvísun 177/90), segir eftirfarandi:

„Með heimild í 1. mgr. 18. gr. reglugerðar nr. 501/1989, um bókhald og tekjuskráningu virðisaukaskattsskyldra aðila, hefur ríkisskattstjóri ákveðið að til grundvallar í bókhaldi innlends seljanda skuli liggja pöntun frá innkaupaskrifstofu varnarliðsins eða áritun tollvarða á afrit sölureiknings um að vara hafi verið flutt inn á varnarsvæðið.”

Með heimild í 20. gr. reglugerðar nr. 50/1993, um bókhald og tekjuskráningu virðisaukaskattsskyldra aðila, hefur ríkisskattstjóri ákveðið að einnig sé heimilt að fyrir liggi í bókhaldi innlends seljanda ljósrit af strimli úr greiðslukortavél sem sýni að Bandaríkjaher hafi greitt fyrir vöru eða þjónustu með greiðslukorti á nafni hersins, þ.e. korti á nafni U.S. Navy, U.S. Airforce, U.S. Army, U.S. Marines eða U.S. Coastguard.

Þetta á einungis við um greiðslukort sem gefin eru út á nafn Bandaríkjahers.  Skráðum aðilum ber ætíð að innheimta virðisaukaskatt af sölu til einstakra varnarliðsmanna og aðila sem vinna í þágu varnarliðsins.

Ríkisskattstjóri

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum