Óbeinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 872/1998

12.8.1998

Endurgreiðsla virðisaukaskatts af þrifum vegna brunatjóns – rg. 449/1990

12. ágúst 1998
G-Ákv. 98-872

Vísað er til bréfs yðar, dags. 18. maí sl., þar sem óskað er eftir áliti ríkisskattstjóra á því hvort þrif á húsnæði í kjölfar brunatjóns teljist ræsting eða regluleg umhirða í skilningi 5. tölul. 4. gr. reglugerðar nr. 449/1990, um endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu manna við íbúðarhúsnæði.

Samkvæmt. 1. mgr. 3.gr. reglugerðar nr. 449/1990 þá tekur endurgreiðsla samkvæmt reglugerðinni til allrar vinnu manna við endurbætur eða viðhald íbúðarhúsnæðis. Í 4. gr. reglugerðarinnar er síðan að finna upptalningu á þeirri vinnu sem endurgreiðsla tekur ekki til og er þar m.a. talin upp vinna við ræstingu, garðslátt, skordýraeyðingu og aðra reglulega umhirðu íbúðarhúsnæðis sem ekki verður talin viðhald eignar.

Fyrirspurn yðar lýtur að því hvort vinna við þrif íbúðarhúsnæðis í kjölfar brunatjóns geti talist til reglulegar umhirðu íbúðarhúsnæðis skv. 5. tölul. 4. gr. reglugerðar nr. 449/1990 og sé því ekki endurgreiðsluhæf. Ljóst þykir að vinna við slík þrif getur ekki talist til reglulegrar umhirðu íbúðarhúsnæðis enda í raun nauðsynlegur þáttur í því að gera við íbúðarhúsnæði sem hefur orðið fyrir brunatjóni.

Með vísan til þess sem að framan greinir er það álit ríkisskattstjóra að umrædd vinna falli undir endurgreiðsluákvæði reglugerðar nr. 449/1990. 

Ríkisskattstjóri

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum