Óbeinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 871/1998

6.8.1998

Fyrirspurn vegna kröfu um greiðslu á virðisaukaskatti

6. ágúst 1998
G-Ákv. 98-871

Vísað er til bréfs yðar, dags. 12. maí 1998, þar sem óskað er álits ríkisskattstjóra á því hvort Ríkisspítölum sé skylt að greiða kvikmyndagerðarmanni virðisaukaskatt vegna vinnu hans við gerð kynningarmynda þar sem virðisaukaskattur var ekki innheimtur við sölu.

Kvikmyndagerðarmaðurinn innheimti ekki virðisaukaskatt nema af hluta þeirrar þjónustu sem Ríkisspítalar greiddu fyrir vegna kvikmyndagerðarinnar. Samkvæmt úrskurði yfirskattanefndar, nr. 55/1998, bar honum að telja umrætt verkefni til skattskyldrar veltu og innheimta af því virðisaukaskatt. Ríkisskattstjóri tekur ekki afstöðu til þess hvort Ríkisspítölum beri að greiða seljanda virðisaukaskattinn eftir á. Það er forsvarsmanna Ríkisspítala að taka ákvörðun um það með hliðsjón af samningum aðila.

Greiði Ríkisspítalar kvikmyndagerðarmanninum virðisaukaskatt af umræddri þjónustu ásamt því að leiðrétta áður útgefna reikninga, þarf að taka afstöðu til þess hvort þeir eigi rétt á endurgreiðslu þess virðisaukaskatts skv. 5. tölul. 12. gr. reglugerðar nr. 248/1990, um virðisaukaskatt af skattskyldri starfsemi opinberra aðila. Við mat á því þarf að liggja fyrir til hvaða nota myndirnar eru ætlaðar.  Ef um auglýsingamyndir er að ræða er endurgreiðsluréttur fyrir hendi sbr. úrskurð yfirskattanefndar nr. 443/1996. Ef myndirnar eru hugsaðar sem heimildar- eða fræðslumyndir er það álit ríkisskattstjóra, að 5. tölul. 12. gr. reglugerðar nr. 248/1990 verði ekki túlkaður svo rúmt að endurgreiðsluréttur sé fyrir hendi.

Ríkisskattstjóri

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum