Óbeinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 865/1998

6.7.1998

Innskattur af eldsneytisreikningum vegna sölu fólksbifreiða.

6. júlí 1998
G-Ákv. 98-865

Vísað er til bréfs yðar dags. 8. júní 1998 varðandi innskatt af eldsneytisreikningum.

Í bréfi yðar kemur fram að umbjóðandi yðar er bílasali úti á landi. Hann  selur notaða og nýja bíla og er m.a. með umboð fyrir nýjar bifreiðar frá H.  Þegar hann selur nýjar bifreiðar, þá eru þær iðulega sendar til kaupanda með skipi og þá þarf undantekningarlaust að kaupa eldsneyti á þær til að  koma þeim á áfangastað. Bifreiðarnar eru í 99% tilvika fólksbifreiðar og þar af leiðandi ekki virðisaukaskattsbifreiðar. Umbjóðandi yðar sendir svo reikning til viðkomandi bílaumboðs þar sem fram kemur sérstakur liður “þrif og standsetning” og er það innheimt með virðisaukaskatti. Síðan er spurt hvort umbjóðanda yðar sé heimilt að innskatta umrædda eldsneytisreikninga. 

Starfsemi umbjóðanda yðar er virðisaukaskattsskyld skv. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988. Samkvæmt 6. tl. 3. mgr. 16. gr. laganna, er ekki heimilt að innskatta aðföng er varða öflun, rekstur og leigu fólksbifreiða. Þrátt fyrir þetta ákvæði er aðilum er hafa með höndum sölu eða leigu bifreiða heimilt að telja virðisaukaskatt af aðföngum vegna þeirra viðskipta til innskatts. Umræddur eldsneytiskostnaður umbjóðanda yðar telst til aðfanga vegna sölu bifreiða í skilningi greinarinnar og er því heimilt að telja virðisaukaskatt af honum til innskatts.

Ríkisskattstjóri

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum