Óbeinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 864/1998

29.9.1998

Virðisaukaskattur - sala blaða og tímarita - endursala eða dreifing

29. september 1998
G-Ákv. 98-864/G-Ákv. 067

Að gefnu tilefni þykir rétt að ítreka þann mun sem er á framkvæmd virðisaukaskatts hjá útgefendum og seljendum blaða og tímarita eftir því hvort seljandi er umsýslu­maður eða dreifingaraðili.

Endursala (umsýsla) blaða og tímarita:

Þegar um er að ræða sölu blaða og tímarita, t.d. í verslunum og söluturnum, fer sú sala oftast fram í umsýslusölu. Útgefandi afhendir tiltekinn fjölda eintaka blaða eða tímarita til söluaðila sem síðan skilar óseldum eintökum, en söluaðili fær ákveðinn hundraðs­hluta af útsöluverði seldra eintaka í sölulaun. Salan fer fram á áhættu útgefanda en í nafni söluaðila (endurseljanda/umsýslumanns). Við uppgjör gefur útgefandi út reikning til endurseljanda, sbr. 4. mgr. 13. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með 14% skatti, og endurseljandi gefur út reikning í eigin nafni til kaupanda blaðs eða tímarits með 14% skatti eða skráir söluna í sjóðvél í 14% þrepi. Starfsemi beggja aðila í þessu tilviki er fólgin í sölu blaða eða tímarita og fellur því undir 5. tölul. 2. mgr. 14. gr. laganna.

Dreifingarþjónusta (verktaka):

Þegar um er að ræða dreifingu blaða eða tímarita er dreifingaraðili að veita útgefanda þjónustu án þess að sala blaðs eða tímarits fari fram í nafni dreifingaraðila, heldur fer hún fram í nafni útgefanda. Dreifingaraðilinn er þá ýmist verktaki, uppfylli hann skilyrði þar um, eða launamaður hjá útgefanda. Sé hann verktaki ber honum að gera útgefanda reikning fyrir þjónustu sinni og innheimta 24,5% virðisaukaskatt, sbr. 2. mgr. 2. gr. og 1. mgr. 14. gr. virðisaukaskattslaga. Ekki skiptir máli þótt verktakinn annist í þessu tilviki dreifingu á vöru sem ber 14% virðisaukaskatt við sölu, enda er dreifingaraðilinn ekki endur­seljandi. Útgefandi gefur hins vegar út reikning (eða kvittun úr rukkunarhefti) til kaupanda blaðs eða tímarits með 14% skatti. Tekið skal fram að börn og unglingar undir 18 ára aldri (þ.e.a.s. þeir sem ekki eru lögráða vegna aldurs) geta ekki verið verktakar.

Að öðru leyti vísast til hjálagðra leiðbeininga um virðisaukaskatt vegna sölu blaða og tímarita frá 14. október 1993. Jafnframt er minnt á þau meginatriði sem koma fram í leiðbeiningum um tekjuskráningu vegna blaða og tímarita frá 23. júní 1993.

Ríkisskattstjóri

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum