Óbeinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 862/1998

30.6.1998

Sveitaheimsóknir barna með tilliti til virðisaukaskatts.

30. júní 1998
G-Ákv. 98-862

Vísað er til bréfs yðar, dags. 11. apríl 1998, þar sem koma fram fyrirspurnir vegna sveitaheimsókna barna með tilliti til virðisaukaskatts.

 Í meðfylgjandi bréfi frá forstöðumanni U, er eftirfarandi lýsing á sveitaheimsóknum skólabarna:

“Upplýsingaþjónustan hefur samið við ábúendur nokkurra bæja um að taka á móti börnum í skipulögðum ferðum á vegum skóla og foreldrafélaga og fræða þau um íslenskan landbúnað og sér um að kynna skólunum það sem þeim stendur til boða. U greiðir ábúendum kr. 110 fyrir hvert grunnskólabarn og kr. 50 fyrir hvert leikskólabarn sem kemur í þessar heimsóknir. Auk þess er gert ráð fyrir að bændurnir innheimti kr. 100 af hverjum gesti.

Lögð er áhersla á að á öllum þeim bæjum sem taka þátt í þessu starfi sé rekinn hefðbundinn búskapur með algengustu búfjártegundum okkar því sérstök áhersla er lögð á að börnin kynnist þeim auk þess sem á öllum bæjunum hefur verið sett upp kynningarefni s.s. veggspjöld  með húsdýramyndum.”

Fyrirspurnunum verður svarað í sömu röð og þær eru settar fram í bréfi yðar. 

 1. Ber viðkomandi bændum að leggja virðisaukaskatt ofan á þá fjárhæð sem þeir innheimta af hverjum gesti?
  Svar:
  Sveitaheimsóknir eru orðnar fastur liður í starfi margra grunn- og leikskóla.  Meginmarkmið með heimsóknunum er að fræða gesti um hefðbundinn íslenskan búskap og gefa þeim færi á að kynnast algengustu búfjártegundunum í sínu eðlilega umhverfi. Í  3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, er tæmandi upptalning á þeirri vinnu og þjónustu sem undanþegin er virðisaukaskattsskyldu. Ekki verður séð að umrædd þjónusta falli undir fyrrgreint ákvæði og er hún því virðisaukaskattsskyld.
 2. Er heimilt að líta þannig á að styrkur frá U, sem er ákveðin fjárhæð á barn, sé undanþegin virðisaukaskatti hjá viðtakanda?Svar:
  Styrkþegi skal innheimta virðisaukaskatt af styrkjum ef styrkveitandi krefst þjónustu eða einhvers endurgjalds fyrir styrkinn. Samkvæmt samþykktum U er tilgangur félagsins að annast á breiðum grundvelli, kynningar og fræðastarf um landbúnaðinn og framleiðsluvörur hans og efla með því jákvæða ímynd bændastéttarinnar í huga þjóðarinnar. Til að uppfylla þennan tilgang, kaupir félagið meðal annars umrædda þjónustu af bændum og ber því að innheimta virðisaukaskatt af þeirri sölu.
 3. Skiptir máli í þessu sambandi hvort gestgjafarnir leggi stund á ferðaþjónustu auk hefðbundins búskapar?
  Svar:
  Nei, ekki skiptir máli í hvaða annarri starfsemi aðili er.

Ríkisskattstjóri

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum