Óbeinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 860/1998

29.6.1998

Virðisaukaskattur – dreifing símskeyta

29. júní 1998
G-Ákv. 98-860

Vísað er til bréfs yðar, mótt. 15. apríl sl., þar sem spurst er fyrir um hvort innheimta beri virðisaukaskatt af dreifingu á skeytum fyrir A.

Í bréfi yðar segir að samkvæmt samstarfssamningi sem gerður hafi verið við A. taki B. að sér dreifingu á skeytum utan höfuðborgarsvæðisins. Enn fremur kemur fram að hvert skeyti sé með utanáskrift og að þóknun félagsins sé ákveðið hlutfall tekna af hverju skeyti.

Samkvæmt 7. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum, er einkaleyfisbundin póstþjónusta undanþegin virðisaukaskatti. Undanþágan nær einnig til viðtöku og dreifingar á öðrum árituðum bréfapóstsendingum, þar með talin póstkort, blöð og tímarit, og til almennra dreifisendinga og opinna bréfa.

Ríkisskattstjóri telur að með dreifingu á árituðum bréfapóstsendingum sé einnig átt við dreifingu á skeytum með utanáskrift og er því sú þjónusta undanþegin virðisaukaskatti á grundvelli 7. tölul. 3. mgr. 2. gr. virðisaukaskattslaga. B ber því ekki að innheimta virðisaukaskatt af umræddri þjónustu. Hins vegar er þjónusta A sem fólgin er í móttöku og afhendingu símskeyta skattskyld til virðisaukaskatts samkvæmt almennum ákvæðum laganna, sbr. 2. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988.

Ríkisskattstjóri

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum