Óbeinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 859/1998

26.6.1998

Endurgreiðsla virðisaukaskatts - opinberir aðilar - lífeyrissjóður

26. júní 1998
G-Ákv. 98-859

Vísað er til bréfs yðar, dags. 11. mars 1998, ásamt ítrekun á því bréfi frá 14. apríl 1998 þar sem óskað er eftir áliti ríkisskattstjóra á því hvort LSR eigi rétt á endurgreiðslu virðisaukaskatts af sérfræðiþjónustu og annarri þjónustu á grundvelli 3. mgr. 42. gr. laga nr. 50/1988 samanber 12. gr. reglugerðar nr. 248/1990 um virðisaukaskatt af skattskyldri starfsemi opinberra aðila.

Til svars bréfi yðar skal tekið fram að samkvæmt 3. mgr.42. gr. laga 50/1988 skal endurgreiða ríki, sveitarfélögum og stofnunum þeirra virðisaukaskatt sem þau greiða við kaup á tilteknum aðföngum eftir því sem nánar greinir í ákvæðinu. Endurgreiðsluheimildin tekur einnig til stofnana í samrekstri opinberra aðila. Hún tekur hinsvegar ekki til stofnanna sem að hluta eða öllu leyti eru í eigu annarra aðila, þótt starfsemi þeirra falli undir sambærilegt svið.

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 1/1997, um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, er hlutverk sjóðsins að tryggja sjóðsfélögum, eftirlifandi mökum þeirra og börnum þeirra lífeyri. Sjóðfélagar eru skv. 2. gr. þeir einstaklingar sem greiða iðgjald til sjóðsins, þeir sem njóta elli-eða örorkulífeyris úr sjóðnum og þeir einstaklingar sem með iðgjaldagreiðslum hafa áunnið sér rétt í sjóðnum en greiða ekki lengur iðgjald og hafa ekki hafið töku lífeyris úr sjóðnum. Samkvæmt lögunum styðst sjóðurinn að mestu leyti við sjóðsmyndun þó að ábyrgð launagreiðanda sé á hluta lífeyrisgreiðslna og skiptir ekki máli að launagreiðandi er ríkissjóður. Því er ljóst að Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins er ekki opinber aðili og á því ekki rétt á endurgreiðslu samkvæmt 3. mgr. 42. gr. laga 50/1988.

Ríkisskattstjóri vill sérstaklega koma því á framfæri að Tryggingastofnun ríkisins var óheimilt að sækja um endurgreiðslu í sínu nafni fyrir hönd sjóðsins með vísan til 3. mgr. 42. gr. laga nr. 50/1988, enda var sjóðurinn hvorki þá né nú opinber aðili.

Beðist er velvirðingar á þeirri töf sem orðið hefur á að svara fyrirspurn yðar.

Ríkisskattstjóri

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum