Óbeinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 857/1998

11.6.1998

Endurgreiðslur til opinberra aðila - sérfræðiþjónusta.

11. júní 1998
G-Ákv. 98-857

Vísað er til bréfs yðar, dags. 3. apríl 1998, varðandi endurgreiðslur til opinberra aðila vegna kaupa á mælingum og útreikningum á ákvæðisvinnu við ræstingar.

Samkvæmt 5. tl. 12. gr. reglugerðar nr. 248/1990 um virðisaukaskatt af skattskyldri starfssemi opinberra aðila, ásamt síðari breytingum, skal endurgreiða ríki, sveitarfélögum og stofnunum þeirra virðisaukaskatt sem þau greiða við kaup á þjónustu verkfræðinga, tæknifræðinga, arkitekta, lögfræðinga, löggiltra endurskoðenda og annarra sérfræðinga er almennt þjóna atvinnulífinu og lokið hafa háskólanámi eða sambærilegu langskólanámi eða starfa sannanlega á sviði fyrrgreindra aðila og veita sambærilega þjónustu.

Ákvæðið tekur til þeirrar vinnu sem sérfræðingar inna af hendi vegna sérfræðikunnáttu sinnar. Með sérfræðingum er átt við sérfræðinga sem lokið hafa háskólanámi eða sambærilegu langskólanámi, eða aðila sem sannanlega starfa á sviði framangreindra sérfræðinga.

Ekki er nægilegt til að um endurgreiðsluhæfan kostnað sé að ræða skv. 5. tl. 12. gr. reglugerðarinnar, að um sé að ræða verktaka er almennt þjóna atvinnulífinu heldur verður skilyrði ákvæðisins um sérfræðiþekkingu einnig að vera uppfyllt. Ekki verður talið að aðilar sem mæla og reikna út tímamælda ákvæðisvinnu við ræstingar uppfylli skilyrði ákvæðisins um sérfræðiþekkingu og er því ekki um endurgreiðsluhæfan kostnað að ræða.

Ríkisskattstjóri

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum