Óbeinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 855/1998

27.5.1998

Óhefðbundnar lækningar / eiginleg heilbrigðisþjónusta hjúkrunarfræðings

27. maí 1998
G-Ákv. 98-855

Vísað er til bréfs yðar, mótt. 27. febrúar sl., þar sem spurst er fyrir um hvort yður beri að innheimta og standa skil á virðisaukaskatti af þjónustu yðar sem felst í höfuðbeina- og spjaldhryggsmeðferð.

Í bréfi yðar kemur fram að þér séuð hjúkrunarfræðingur að mennt með B.Sc. próf í hjúkrunarfræði og MPH (master of public health) gráðu í heilbrigðisfræðum. Jafnframt kemur fram að þér veitið þjónustu sem sé fólgin í höfuðbeina- og spjaldhryggsmeðferð en það sé meðferð sem sett sé í flokk með óhefðbundnum lækningum, þ.e. meðferðin hefur ekki verið formlega viðurkennd af heilbrigðis-yfirvöldum hér á landi. Enn fremur kemur fram að þér munið nýta mjög vel þekkingu yðar og reynslu sem hjúkrunarfræðingur við ráðgjöf og mat á heilsufarsástandi skjólstæðinga yðar.

Ýmis heilbrigðisþjónusta er undanþegin virðisaukaskatti, sbr. 1. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Beinlínis er tekið fram að lækningar og tannlækningar séu undanþegnar virðisaukaskatti, en jafnframt er “önnur eiginleg heilbrigðisþjónusta” undanþegin. Við ákvörðun um hvort tiltekin þjónusta falli undir undanþáguákvæðið verður starfsemin að mati ríkisskattstjóra að uppfylla eftirtalin skilyrði:

  1. Um sé að ræða þjónustu heilbrigðisstéttar sem fellur undir lög nr. 24/1985, um starfsheiti og starfsréttindi heilbrigðisstétta, eða sérlög um heilbrigðismál.
  2. Að þjónusta þessara aðila felist í meðferð á líkama sjúklings til lækninga eða hjúkrunar eða sambærilegrar meðferðar.

Hjúkrunarfræðingar eru heilbrigðisstétt skv. lögum nr. 24/1985 og er því fyrra skilyrðið uppfyllt. Hvað síðara skilyrðið varðar er það mat ríkisskattstjóra að þau störf er þér hyggist stunda, falli ekki undir skilyrðið þar sem um er að ræða meðferð sem er ekki viðurkennd af heilbrigðisyfirvöldum.

Starfsemi yðar sem lýst er fyrr í þessu bréfi, telst því ekki til eiginlegrar heilbrigðisþjónustu og er því skattskyld til virðisaukaskatts, sbr. 2. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum.

Að lokum skal tekið fram að ef heilbrigðisyfirvöld viðurkenna umrædda meðferð sem heilbrigðisþjónustu er það álit ríkisskattstjóra að þér uppfyllið skilyrðin fyrir því að teljast stunda eiginlega heilbrigðisþjónustu sem væri þá undanþegin virðisaukaskatti skv. 1. tölul. 3., mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988.

Beðist er velvirðingar á þeirri töf sem orðið hefur á að svara fyrirspurn yðar.

Ríkisskattstjóri

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum