Óbeinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 847/1998

2.4.1998

Virðisaukaskattur - ógild virðisaukaskattsnúmer - innskattur óheimill

2. apríl 1998
G-Ákv. 98-847

Af gefnu tilefni vill ríkisskattstjóri koma á framfæri því áliti að skattstjórum sé heimilt að neita skráðum aðila um frádrátt virðisaukaskatts sem fram kemur á sölureikningi frá óskráðum aðila. 

Gildir þá einu þótt sölureikningur uppfylli að öðru leyti form- og efnisskilyrði 4. gr. reglugerðar 50/1993 ef hann er gefinn út af aðila sem annað hvort hefur ekki verið á virðisaukaskattsskrá eða hefur tilkynnt sig af skrá. Í því sambandi skal tekið fram að meginreglan um form og efni sölureikninga er í 20. gr laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Frekari skilyrði um form og efni sölureikninga er síðan að finna í  reglugerð um bókhald og tekjuskráningu virðisaukaskatts-skyldra aðila nr. 50/1993 (áður reglugerð nr. 501/1989, sbr. reglugerð nr. 156/1990).

Í athugasemdum við frumvarp til virðisaukaskattslaga um 6. mgr. 20. gr. segir m.a.

“Mjög mikilvægt er að unnt sé að rekja viðskipti milli skráðra aðila í virðisaukaskatti, m.a. vegna heimildar kaupanda til frádráttar innskatts.”

Samkvæmt framansögðu og með vísan í úrskurð YSKN. nr. 443/1996 (þar sem hafnað var endurgreiðslu virðisaukaskatts samkvæmt reikningi frá óskráðum aðila) er það álit ríkisskattstjóra að skattstjóra sé heimilt að hafna innskattsfrádrætti vegna sölureikninga frá óskráðum aðilum jafnvel þó að form- og efnisskilyrði sölureiknings séu uppfyllt. Á sömu forsendum er skattstjóra heimilt að hafna endurgreiðslu virðisaukaskatts  samkvæmt reglugerð nr. 248/1990, um virðisaukaskatt af starfsemi opinberra aðila, reglugerð nr. 449/1990, um endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu manna við íbúðarhúsnæði, og reglugerð nr. 288/1995, um endurgreiðslu virðisaukaskatts til erlendra fyrirtækja.     

Að lokum skal bent á að hver sem er getur aflað upplýsinga um það frá skattyfirvöldum hvort tiltekinn aðili sé á skrá yfir virðisaukaskattsskylda aðila.

Ríkisskattstjóri

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum