Óbeinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 844/1998

4.3.1998

Frjáls skráning – sérstakt virðisaukaskattsnúmer

4. mars 1998
G-Ákv. 98-844

Vísað er til bréfs yðar, dags. 9. janúar 1998, þar sem spurst er fyrir um hvort velta vegna frjálsrar skráningar verði að vera á sérstöku virðisaukaskattsnúmeri.

Í bréfi yðar kemur fram að tvö fyrirtæki sameinuðust. Starfsemi annars félagsins (A) var fólgin í útleigu atvinnuhúsnæðis og var það með frjálsa skráningu. Starfsemi hins (B) var fólgin í hljómplötusölu. Við sameininguna var öðru virðisaukaskattsnúmerinu lokað (VSK-númer A) og reksturinn sameinaður undir virðisaukaskattsnúmeri B. Skattstjóri gerði síðan athugasemd við þessa framkvæmd og spyrjið þér um réttmæti þess.

Þegar skattstjóri veitir heimild til frjálsrar skráningar úthlutar hann alltaf sérstöku virðisaukaskattsnúmeri vegna hennar sbr. 5. mgr. 24. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt (skattstjóri getur þó heimilað að skrá fleiri en eina fasteign undir sama númeri). Það að vera skráður frjálsri skráningu er annars konar skráning en þegar skráð er vegna annarra viðskipta s.s. smásölu. Þegar VSK-númeri A var lokað var því frjálsri skráningu fasteignarinnar lokið. Frá þeim tíma mátti hvorki innheimta virðisaukaskatt af fasteignaleigunni, né telja til innskatts virðisaukaskatt vegna rekstrar fasteignarinnar. Þá varð leiðréttingarskylda vegna innskatts jafnframt virk., sbr. 1. mgr. 8. gr., reglugerðar nr. 577/1989, um frjálsa og sérstaka skráningu vegna leigu eða sölu á fasteign. En þar segir að verði breyting á notkun eignar sem frjáls skráning tekur til þannig að skilyrði fyrir skráningunni sé ekki lengur fyrir hendi skuli leiðrétta fenginn innskatt í samræmi við ákvæði 2. mgr. 16. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Ákvæði um leiðréttingu er að finna í IV kafla reglugerðar nr. 192/1993, um innskatt. Einkahlutafélagið (B) hafði aldrei sótt um heimild til frjálsrar skráningar og því ekki fengið hana.

Um leið og félögin sameinuðust bar hinu nýja félagi að sækja um heimild til frjálsrar skráningar á fasteign þeirri sem um ræðir ef það er vilji eigendanna að hafa hana skráða frjálsri skráningu. Enginn innskattsfrádráttur er vegna fasteignarinnar hvorki hjá leigusala né leigutaka sbr. 3. mgr. 15. gr. laga nr. 50/1988 og 7. gr. reglugerðar nr. 192/1993.

Ríkisskattstjóri

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum