Áreiðanleikakönnun
Hvenær framkvæma skal áreiðanleikakönnun
Tilkynningarskyldum aðilum er skylt að framkvæma áreiðanleikakönnun á viðskiptamönnum sínum. Með áreiðanleikakönnun á viðskiptamönnum er annars vegar átt við að tilkynningarskyldir aðilar skulu afla viðeigandi upplýsinga og gagna um hvern og einn viðskiptamann, einstakling eða lögaðila, í því skyni að draga úr áhættu á peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka og hins vegar að þær upplýsingar og gögn sem er aflað er séu sannreyndar með fullnægjandi hætti.
Tilkynningarskyldir aðilar skulu framkvæma áreiðanleikakönnun á viðskiptamönnum sínum áður en stofnað er til viðvarandi viðskiptasambands eða áður en einskiptis viðskipti, sem nema tilgreindum fjárhæðarmörkum, eru framkvæmd.
Í 8. gr. pþl. eru tiltekin þau tilvik sem krefjast þess að áreiðanleikakönnun sé framkvæmd. Þau eru:
- Við upphaf samningssambands
- Vegna
einstakra viðskipta að fjárhæð 15.000 evrur eða meira
Miðað er við opinbert viðmiðunargengi eins og það er skráð hverju sinni, hvort sem viðskiptin fara fram í einni færslu eða fleiri sem virðast tengjast hver annarri, - Við
millifærslu fjármuna sbr. 10. tölul. 3. gr. pþl., þegar um einstök viðskipti
er að ræða
Sama er hvort sem um er að ræða færslu fjármuna innan lands eða yfir landamæri, að fjárhæð 1.000 evrur eða meira miðað við opinbert viðmiðunargengi eins og það er skráð hverju sinni,
Millifærsla fjármuna, sbr. 10. tölul. 3. gr. pþl.: „Hvers konar færsla fjármuna með rafrænum hætti í gegnum greiðslukerfi aðila skv. a- og d–g-lið 1. mgr. 2. gr., innan lands eða yfir landamæri, sem framkvæmd er af greiðanda sem getur verið einstaklingur eða lögaðili og ætlað er að veita viðtakanda aðgang að fjármunum. Viðtakandi getur verið sá sami og greiðandi.“ - Við viðskipti með vöru eða
þjónustu sem greitt er fyrir með reiðufé.
Sama er hvort sem viðskiptin fara fram í einni greiðslu eða fleiri sem virðast tengjast hver annarri, að fjárhæð 10.000 evrur eða meira miðað við opinbert viðmiðunargengi eins og það er skráð hverju sinni, - Við
útgreiðslu vinninga hjá tilkynningarskyldum aðilum skv. t-lið 1. mgr. 2. gr. að
fjárhæð 2.000 evrur eða meira
Miðað er við opinbert viðmiðunargengi eins og það er skráð hverju sinni, hvort sem greiðslurnar fara fram í einni færslu eða fleiri sem virðast tengjast hver annarri,
Undir t-lið 1. mgr. 2. gr. pþl. falla einstaklingar eða lögaðilar sem hafa hlotið starfsleyfi á grundvelli laga um happdrætti eða til reksturs fjársafnana og happdrætta á grundvelli sérlaga, - Þegar grunur leikur á um peningaþvætti eða
fjármögnun hryðjuverka
Án tillits til hvers konar undanþága eða takmarkana, - Þegar vafi leikur á því að fyrirliggjandi upplýsingar um viðskiptamann eða raunverulegan eiganda séu réttar eða nægilega áreiðanlegar.
- Vegna
einstakra viðskipta með sýndareignir að fjárhæð 1.000 evrur eða meira
Miðað er við opinbert viðmiðunargengi eins og það er skráð hverju sinni, hvort sem viðskiptin fara fram í einni færslu eða fleiri sem virðast tengjast hver annarri, - Við
millifærslu sýndareigna
Sama er þegar um einstök viðskipti er að ræða, hvort sem um er að ræða færslu fjármuna innan lands eða yfir landamæri, að fjárhæð 1.000 evrur eða meira miðað við opinbert viðmiðunargengi eins og það er skráð hverju sinni.
Framkvæmd áreiðanleikakönnunar
Áreiðanleikakönnun skal framkvæmd áður en samningssambandi er komið á eða áður en viðskipti eiga sér stað. Tilkynningarskyldur aðili skal gera kröfu um eftirfarandi í tilviki viðskipta og samningssambanda við:
Einstakling
- Sanni á sér deili með framvísun viðurkenndra
persónuskilríkja.
Til viðurkenndra persónuskilríkja teljast gild persónuskilríki sem gefin eru út af stjórnvöldum eða eru viðurkennd af stjórnvöldum, þ. á m. vegabréf, ökuskírteini og nafnskírteini gefin út af Þjóðskrá Íslands eða samsvarandi erlendum stjórnvöldum og rafræn skilríki sem innihalda fullgild rafræn vottorð sem varðveitt eru á fullgildum undirskriftarbúnaði. - Komi einhver fram fyrir hönd einstaklings gagnvart tilkynningarskyldum aðila skal gera kröfu um að viðkomandi sýni fram á heimild til þess, s.s. með umboði, og sanni á sér deili með framvísun viðurkenndra persónuskilríkja.
Lögaðila
- Sanni á sér deili með upplýsingum úr
fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra
eða sambærilegri opinberri skrá með heiti, heimilisfangi og kennitölu eða sambærilegum upplýsingum. - Einstaklingur sem kemur fram fyrir hönd lögaðila
skal sýna fram á að hafa heimild til þess
og sanna á sér deili með viðurkenndum persónuskilríkjum. - Afla þarf fullnægjandi upplýsinga um
raunverulegan eiganda og sannreyna þær.
Meta skal með sjálfstæðum hætti hvort upplýsingar um hinn raunverulega eiganda séu réttar og fullnægjandi og að hann skilji eignarhald, starfsemi og stjórnskipulag þeirra viðskiptavina.
Sé ekki ljóst af framlögðum gögnum hver raunverulegur eigandi er skal krefjast frekari upplýsinga.
Ef ekki er mögulegt að finna raunverulegan eiganda, t.d. vegna svo dreifðs eignarhalds að engir einstaklingar eiga eða stýra viðskiptamanni í skilningi laga þessara, skal tilkynningarskyldur aðili grípa til réttmætra ráðstafana til að afla fullnægjandi upplýsinga um einstaklinga sem í raun stjórna starfsemi viðskiptamanns.
Varðveita skal gögn sem sýna fram á þær ráðstafanir sem gerðar eru til að auðkenna einstaklinga sem í raun stjórna starfsemi viðskiptamanns og þau vandkvæði sem upp kunna að koma við slíka auðkenningu.
Í einstökum viðskiptum og samningssamböndum skulu tilkynningaskyldir aðilar:
- leggja mat á, eða ef við á afla viðeigandi upplýsinga um, tilgang og eðli fyrirhugaðra viðskipta,
- afla fullnægjandi upplýsinga um viðskipti sem fara fram á samningstímanum til að tryggja að viðskipti þeirra séu í samræmi við fyrirliggjandi upplýsingar og áhættumat,
- staðfesta eftir því sem við á uppruna þeirra fjármuna sem notaðir eru í viðskiptum,
- grípa til réttmætra ráðstafana til að staðreyna viðeigandi upplýsingar,
- meta hvort viðskipti fari fram í þágu þriðja aðila og hafi þeir vitneskju um að svo sé, eða ástæðu til að ætla það, ber þeim að sannreyna hver sá þriðji aðili er.
Í samningssamböndum skulu tilkynningaskyldir aðilar:
- hafa reglubundið eftirlit með samningssambandi við viðskiptamenn,
- uppfæra upplýsingar um viðskiptamenn reglulega og afla frekari upplýsinga í samræmi við lög þessi eftir því sem þörf krefur.
Tilkynningarskyldur aðili skal varðveita upplýsingar og gögn vegna áreiðanleikakönnunar í að lágmarki fimm ár frá því að samningssambandi lýkur eða einstök viðskipti hafa átt sér stað. Skylt er að varðveita allar upplýsingar og öll gögn sem aflað er vegna áreiðanleikakönnunar. Dæmi um gögn sem skal varðveita er afrit af persónuskilríkjum, vottorð úr fyrirtækjaskrá og upplýsingar um raunverulega eigendur. Séu gögn eða upplýsingar endurnýjuð er skylt að varðveita áfram eldri gögn eða upplýsingar til viðbótar við hin nýju. Upplýsingar og gögn eiga að vera samtímagögn og bera með sér hvenær þeirra var aflað.
Eftir að áreiðanleikakönnun hefur verið framkvæmd skal tilkynningarskyldur aðili viðhafa reglubundið eftirlit með viðskiptasambandinu og uppfæra upplýsingar með reglubundnum hætti, s.s. þegar breytingar verða á högum viðskiptamanns. Í því samhengi geta breytingar á högum viðskiptamanns til dæmis verið breytingar á stjórn, prókúruhafa, starfsemi eða tengsl við áhættusamt ríki.
Tilkynningarskyldum aðilum er óheimilt að stunda viðskipti við aðila sem ekki hefur verið framkvæmd áreiðanleikakönnun á, ef um er að ræða tilvik þar sem skylt er að framkvæma áreiðanleikakönnun. Í því samhengi skiptir ekki máli hvort stofnað var til viðskiptasambandsins fyrir eða eftir gildistöku peningaþvættislaganna. Neiti viðskiptavinur að veita nauðsynlegar og viðeigandi upplýsingar og/eða gögn sem tilkynningarskyldur aðili þarf til að framkvæma áreiðanleikakönnun, eða af annarri ástæðu er ógerlegt að framkvæma áreiðanleikakönnun, skal hafna viðskiptum eða eftir atvikum binda enda á viðskiptasamband við hlutaðeigandi viðskiptamann. Í slíkum tilvikum skal meta hvort tilkynna eigi til skrifstofu fjármálagreininga lögreglu í samræmi við tilkynningarskyldu laganna.
Framkvæmd áreiðanleikakönnunar byggir á 10. gr. pþl. Ákvæðið er útfært nánar í reglugerð nr. 745/2019 um áreiðanleikakönnun vegna aðgerða gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.
Einstaklingar í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla
Samkvæmt 17. gr. pþl. skulu tilkynningarskyldir aðilar hafa viðeigandi kerfi, ferla og aðferðir til að meta hvort viðskiptamaður hans, eða raunverulegur eigandi viðskiptamanns, sé í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla.
Með einstaklingum í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla er átt við innlenda eða erlenda aðila sem eru eða hafa verið háttsettir í opinberri þjónustu, nánasta fjölskylda þeirra og einstaklingar sem vitað er að eru nánir samstarfsmenn þeirra. Skilgreiningu á því hverjir teljast til þessa hóps má finna í 6. tölul. 1. mgr. 3. gr. pþl.
Einstaklingar í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla
Einstaklingar, innlendir og erlendir, sem eru eða hafa verið háttsettir í opinberri þjónustu, ásamt nánustu fjölskyldu þeirra og nánum samstarfsmönnum:
Til háttsettra einstaklinga í opinberri þjónustu teljast:
- Þjóðhöfðingjar, ráðherrar og staðgenglar ráðherra eða aðstoðarráðherrar
- Þingmenn
- Einstaklingar í stjórnum stjórnmálaflokka
- Hæstaréttardómarar, dómarar við stjórnlagadómstóla eða aðrir háttsettir dómarar við dómstóla þaðan sem niðurstöðu er ekki hægt að áfrýja nema í undantekningartilvikum
- Ríkisendurskoðandi og hæstráðendur seðlabanka
- Sendiherrar, staðgenglar sendiherra og háttsettir yfirmenn herja
- Fulltrúar í stjórn, framkvæmdastjórn eða eftirlitsstjórn fyrirtækja í eigu ríkis
- Framkvæmdastjórar, aðstoðarframkvæmdastjórar og stjórnarmenn alþjóðasamtaka og alþjóðastofnana
Þessi störf eiga ekki við um millistjórnendur.
Til nánustu fjölskyldu teljast:
- maki
- sambúðarmaki í skráðri sambúð, börn, stjúpbörn og makar þeirra eða sambúðarmakar í skráðri sambúð,
- foreldrar
Til náinna samstarfsmanna teljast:
- einstaklingar sem vitað er að hafi verið raunverulegir eigendur lögaðila með einstaklingi sem er eða hefur verið háttsettur og gegnt opinberri þjónustu eða aðrir þekktir samstarfsmenn,
- einstaklingar sem hafa átt náin viðskiptatengsl við einstakling sem er eða hefur verið háttsettur og gegnt opinberri þjónustu,
- einstaklingur sem er einn raunverulegur eigandi lögaðila sem vitað er að var stofnaður til hagsbóta fyrir einstakling sem er eða hefur verið háttsettur og gegnt opinberri þjónustu.
Sjá nánar reglugerð nr. 1420/2020 um einstaklinga í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla með tilliti til aðgerða gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.
Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands gefur út lista yfir þau starfsheiti sem teljast til háttsettra opinberra starfa.
Óstaðreynd svör viðskiptamanns eða raunverulegs eiganda um að viðkomandi sé ekki í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla geta ein og sér ekki talist viðeigandi athugun á því hvort einstaklingur sé í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla.
Sé viðskiptamaður eða raunverulegur eigandi í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla skal tilkynningarskyldur aðili framkvæma aukna áreiðanleikakönnun í samræmi við 13. gr. og 2. mgr. 17. gr. pþl.
Einfölduð áreiðanleikakönnun
Í þeim tilvikum þar sem áhættumat ríkislögreglustjóra eða áhættumat tilkynningarskylds aðila sýnir fram á litla áhættu á peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka er tilkynningarskyldum aðilum heimilt að framkvæma einfaldaða áreiðanleikakönnun í samræmi við áhættumatið og reglugerð um áreiðanleikakönnun, sbr. 1. mgr. 12. gr. pþl. Tilkynningarskyldir aðilar eru hvattir til að framkvæma einfaldaða áreiðanleikakönnun í þeim tilvikum þar sem þá á við.
Við framkvæmd einfaldaðrar áreiðanleikakönnunar skal tilkynningarskyldur aðili afla upplýsinga um og staðfesta þá þætti sem nefndir eru í 1. mgr. 10. gr. laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, en heimilt er að aðlaga umfang eða tíðni þessara þátta að niðurstöðum áhættumats. Einnig er heimilt að aðlaga tímasetningu framkvæmdar áreiðanleikakönnunar, t.d. með því að fresta tímabundið staðfestingu tiltekinna upplýsinga þegar nauðsynlegt er að trufla ekki eðlilegan framgang viðskipta. Þá má beita vægari kröfum til þess hvaðan upplýsingar stafa sem notaðar eru til að sanna eða staðfesta deili á viðskiptamanni eða raunverulegum eiganda.
Tilkynningarskyldur aðili skal afla upplýsinga sem gera honum kleift að staðfesta með áreiðanlegum hætti að mat hans á því að um litla áhættu sé að ræða sé réttmætt. Hann skal jafnframt afla viðeigandi upplýsinga um eðli samningssambandsins svo unnt sé að greina óvenjulegar eða grunsamlegar færslur.
Óheimilt er að framkvæma einfaldaða áreiðanleikakönnun ef vísbendingar eru um að áhætta sé ekki lítil, t.d. ef grunur eða efasemdir eru um sannleiksgildi þeirra upplýsinga sem aflað hefur verið. Þá skal ávallt framkvæma aukna áreiðanleikakönnun í þeim tilvikum þar sem einstaklingur er í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla eða viðskipti tengjast áhættusömu eða ósamvinnuþýðu ríki.
Í IV. Kafla reglugerðar nr. 745/2019 um áreiðanleikakönnun vegna aðgerða gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka er nánar fjallað um einfaldaða áreiðanleikakönnun.
Aukin áreiðanleikakönnun
Í 13. gr. pþl. eru tilgreind þau tilvik þegar tilkynningarskyldum aðilum er skylt að framkvæma aukna áreiðanleikakönnun. Aukin áreiðanleikakönnun felur í sér að afla skal aukinna upplýsinga um viðskiptamenn og viðskiptasambönd til viðbótar við hinar hefðbundnu ófrávíkjanlegu skyldur 10. gr. pþl. Beita skal aukinni áreiðanleikakönnun þegar um er að ræða:
- viðskipti við aðila sem tengist áhættusömu eða ósamvinnuþýðu ríki.
- viðskipti við aðila í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla.
- þegar áhættumat tilkynningarskylds aðila gefur til kynna meiri áhættu.
- tilvik þar sem áhætta telst að öðru leyti meiri.
Þessu til viðbótar ber tilkynningarskyldum aðilum að rannsaka, eins og unnt er, bakgrunn og tilgang allra færslna sem eru flóknar eða óvenjulega háar, óvenjuleg viðskiptamynstur eða virðast hvorki hafa efnahagslegan né löglegan tilgang.
Framkvæmd aukinnar áreiðanleikakönnunar á grundvelli áhættumats felur í sér að afla skal viðbótarupplýsinga samhliða ófrávíkjanlegum þáttum 10. gr. pþl. í samræmi við þá áhættu sem af viðskiptasambandinu leiðir.
Í 10. gr. reglugerðar nr. 745/2019 um áreiðanleikakönnun vegna aðgerða gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka er fjallað um öflun aukinna upplýsinga við framkvæmd aukinnar áreiðanleikakönnunar. Þar er m.a. nefnt að tilkynningarskyldir aðilar geti aflað eftirfarandi upplýsinga:
- upplýsinga um fjölskyldumeðlimi og nána samstarfsmenn,
- upplýsingar um núverandi eða fyrri viðskipti viðskiptamanns eða raunverulegs eiganda, eða
- neikvæð fjölmiðlaumfjöllun.
Í 11. gr. reglugerðarinnar er fjallað um aukin gæði upplýsinga sem aflað er við framkvæmd aukinnar áreiðanleikakönnunar. Þar er m.a. nefnt að tilkynningarskyldur aðili geti gripið til eftirfarandi aðgerða:
- fyrsta greiðsla skuli vera innt af hendi í nafni viðskiptamanns og af reikningi hans í fjármálafyrirtæki sem lýtur sambærilegum kröfum og tilkynningarskyldir aðilar samkvæmt peningaþvættislögum.
- staðfesta að auður viðskiptamanns og fjármunir sem notaðir eru í viðskiptunum séu ekki ágóði refsiverðrar háttsemi og séu í samræmi við vitneskju tilkynningarskylda aðilans um viðskiptamanninn, m.a. með því að fá upplýsingar úr virðisaukaskattsskýrslum, skattaskýrslum, ársreikningum eða launaseðlum.
Áhættusamt eða ósamvinnuþýtt ríki
Í 14. gr. pþl. er kveðið á um hvaða viðbótarupplýsinga skal að lágmarki afla við framkvæmd aukinnar áreiðanleikakönnunar á viðskiptamönnum sem tengjast áhættusömu eða ósamvinnuþýðu ríki. Þær eru:
- auknar upplýsingar um viðskiptamann og raunverulegan eiganda,
- fyrirhugað eðli samningssambands,
- uppruna fjármuna og auðs viðskiptamanns og raunverulegs eiganda,
- tilgang viðskipta.
Einnig þarf að:
- afla samþykkis yfirstjórnar
- viðhafa aukið reglubundið eftirlit með samningssambandinu
- krefjast þess að fyrsta greiðsla verði innt af hendi í nafni viðskiptamanns og af reikningi hans í fjármálafyrirtæki sem lýtur sambærilegum kröfum og tilkynningarskyldir aðilar samkvæmt peningaþvættislögum.
- Viðbótarþáttum vegna aukinnar áreiðanleikakönnunar, sem tilkynningarskyldur aðili hefur sjálfur ákvarðað hverjir skuli vera, á grundvelli áhættumats,
- Hafa aukið eða kerfisbundið eftirlit með framkvæmd viðskipta,
- Draga úr eða takmarka samningssamband eða viðskipti við einstaklinga, lögaðila eða aðra sambærilega aðila frá áhættusömum ríkjum.
Einstaklingar í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla
Í 17. gr. pþl. er kveðið á um hvaða aðgerða skuli grípa til við framkvæmd aukinnar áreiðanleikakönnun á viðskiptamönnum sem eru í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla. Í slíkum tilvikum þarf að:
- afla samþykkis yfirstjórnar,
- kanna uppruna fjármuna og auðs með viðeigandi ráðstöfunum,
- viðhafa aukið reglubundið eftirlit.
Ef staða viðskiptamanns breytist á samningstímabilinu með eftirfarandi hætti:
- Teljist í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra
tengsla skal:
Framkvæma aukna áreiðanleikakönnun í samræmi við framangreint og afla samþykkis yfirstjórnar fyrir áframhaldandi samningssambandi. - Teljist ekki lengur í áhættuhópi vegna
stjórnmálalegra tengsla skal:
Viðkomandi skal sæta auknu eftirliti í samræmi við framangreint að lágmarki næstu 12 mánuði og þar til áhætta sem stafar af fyrri störfum telst ekki lengur til staðar.
Fræðsluefni frá stýrihópi um varnir gegn peningaþvætti o.fl.
Almannaheillafélög - góðir starfshætti
Ítarefni
Skammstafanir
Lög nr. 140/2018 um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka (pþl.)
Lög
nr. 68/2023 um framkvæmd alþjóðlegra þvingunaraðgerða og frystingu fjármuna
(þfl.)
Financial Action Task Force (FATF)
Tilkynningarskyldir aðilar (TA)
Skrifstofa fjármálagreiningar lögreglu (SFL)
Ríkisskattstjóri (RSK)
Fjármálaeftirlitið (FME)
Ríkislögreglustjóri (RLS)
Fræðsluefni fyrir tilkynningarskylda aðila
m-liður 1. mgr. 2. gr. pþl. Lögmenn, í vissum tilvikum. http://www.fatf-gafi.org/media/fatf/documents/reports/ML%20and%20TF%20vulnerabilities%20legal%20professionals.pdf
https://www.lawsociety.org.uk/support-services/documents/iba-aml-typologies-report/
https://www.anti-moneylaundering.org
n- og o-liðir 1. mgr. 2. gr. pþl. Fasteigna- fyrirtækja- og skipasalar og jafnframt leigumiðlarar
s-liður 1. mgr. 2. gr. pþl. Einstaklingar og lögaðilar sem í atvinnuskyni eiga viðskipti í reiðufé yfir 10.000 evrur.
Eðalsteinar: http://www.fatf-gafi.org/media/fatf/documents/reports/ML-TF-through-trade-in-diamonds.pdf
t-liður 1. mgr. 2. gr. pþl. Happdrætti og fjársafnanir
https://youtu.be/flEZyBtif7U" target="_blank" title="Fyrirlestur starfsmanna RSK um peningaþvætti 28. maí 2019 (Opnast í nýjum vafraglugga)">Fyrirlestur starfsmanna RSK um peningaþvætti 28. maí 2019 (Opnast á youtube.com)
Almennt efni um peningaþvætti
Tilmæli FATF - International standards on combating money laundering and the financing of terrorism & proliferation
