Spurt og svarað

Hér að neðan hefur Skatturinn svarað helstu spurningum sem berast vegna laga nr. 140/2018 og laga nr. 64/2019. 

1. Hverjir eiga að framkvæma áreiðanleikakönnun á viðskiptamönnum sínum?

Tilkynningarskyldir aðilar eru skilgreindir í 1. mgr. 2. gr. laga nr. 140/2018 um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka (pþl.). Ríkisskattstjóri hefur eftirlit með þeim aðilum sem falla undir l.-u.-lið 1. mgr. 2. gr. pþl.

Tilkynningarskyldir aðilar skulu framkvæma áreiðanleikakönnun fyrir stofnun viðvarandi viðskiptasambands og þegar ákveðnum fjárhæðarmörkum er náð í einstökum viðskiptum. 

Lesa nánar um tilkynningarskylda aðila

2. Hvílir frystingarskylda á öllum tilkynningarskyldum aðilum?

Gildissvið laga nr. 68/2023 um framkvæmd alþjóðlegra þvingunaraðgerða og frystingu fjármuna tekur mið af gildissviði peningaþvættislaga. Samkvæmt frystingarlögum skulu tilkynningarskyldir aðilar, samkvæmt l–u-lið 1. mgr. 2. gr. pþl., innleiða ferla og aðferðir til að meta hvort viðskiptamenn þeirra séu á listum yfir þvingunaraðgerðir

3. Hvernig veit ég hvort viðskiptamaður sæti alþjóðlegum þvingunaraðgerðum?

Tilkynningarskyldum aðilum, samkvæmt l–u-lið 1. mgr. 2. gr. pþl., skulu kanna, fyrir stofnun viðskipta og með reglubundnum hætti á meðan samningssambandið varir, hvort viðskiptamenn þeirra sæti alþjóðlegum þvingunaraðgerðum. Varðveita skal afrit af gögnum og upplýsingum sem staðfesta að skimun hafi farið fram og að lagt hafi verið mat á niðurstöðu skimunar skv. 3. mgr. í að lágmarki fimm ár frá því að samningssambandi lýkur eða einstök viðskipti hafa átt sér stað.

Á vefsvæðinu EU Sanctions Map má finna allar þær þvingunaraðgerðir sem Ísland hefur innleitt.

4. Hvenær skal framkvæma aukna áreiðanleikakönnun?

Aukin áreiðanleikakönnun skal framkvæmd þegar:

a. stunduð eru viðskipti við aðila frá áhættusömu eða ósamvinnuþýðu ríki.

b. stunduð eru viðskipti við einstaklinga í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla.

c. áhættumat ríkislögreglustjóra eða eigin áhættumat gefur til kynna mikla áhættu.

Í reglugerð nr. 745/2019 er fjallað um framkvæmd aukinnar áreiðanleikakönnunar.

Listi yfir áhættusöm og ósamvinnuþýð ríki.

Listi Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands yfir þau starfsheiti sem teljast til háttsettra opinberra starfa og valda því að sá aðili sem því gegnir, ásamt nánustu fjölskyldu þeirra og nánum samstarfsmönnum, teljast hafa stjórnmálaleg tengsl.

Áhættumat ríkislögreglustjóra

5. Hversu ítarlegt þarf áhættumat vegna peningaþvættis og fjármögnunar hryðjuverka að vera?

Áhættumat og ferlar sem tilkynningarskyldur aðili setur sér í samræmi við ákvæði peningaþvættislaga skulu vera í samræmi við stærð, eðli og umfang á starfsemi tilkynningarskylds aðila og margbreytileika starfseminnar.

6. Af hverju fékk ég/reksturinn minn rafræna spurningakönnun varðandi peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka?

Aðilar sem eru taldir stunda tilkynningarskylda starfsemi samkvæmt gildissviði peningaþvættislaga nr. 140/2018, þ.e. tilkynningarskyldir aðilar, fá árlega spurningakönnun frá ríkisskattstjóra.

Frekari upplýsingar varðandi spurningakönnunina má nálgast hjá þjónustuveri Skattsins í síma 442-1000 eða á netfanginu pt@skatturinn.is.

7. Fellur endurskoðun, skattaráðgjöf og bókhaldsþjónusta undir lögin?

Samkvæmt l. lið 1. mgr. 2. gr. pþl. skulu endurskoðendafyrirtæki, endurskoðendur, skattaráðgjafar og aðilar sem færa bókhald eða sinna bókhaldsþjónustu fyrir þriðja aðila gegn endurgjaldi framkvæma áreiðanleikakönnun á viðskiptamönnum þegar stofnað er til viðvarandi viðskiptasambands eða viðskipti ná fjárhæðarmörkum 8. gr. pþl. sem og starfa samkvæmt öðrum ákvæðum laganna. Sjá nánar um gildissvið laganna.

8. Eiga bókarar og/eða endurskoðendur að framkvæma áreiðanleikakönnun á þeim sem óska eftir framtalsaðstoð?

Áhættumat tilkynningaskylda aðilans skal meta hvaða áhætta hlýst af framtalsaðstoð og haga verklagi í samræmi við það, þó með hliðsjón af 8. gr. pþl.

9. Falla lögmenn undir lögin?

Samkvæmt m. lið 1. mgr. 2. gr. pþl. falla lögmannsstofur, lögmenn og aðrir sérfræðingar undir peningaþvættislögin í eftirfarandi tilvikum:

  1. þegar þeir sjá um eða koma fram fyrir hönd umbjóðanda síns í hvers kyns fjármála- eða fasteignaviðskiptum,
  2. þegar þeir aðstoða við skipulagningu eða framkvæmd viðskipta fyrir umbjóðanda sinn hvað varðar kaup og sölu fasteigna eða fyrirtækja,
  3. þegar þeir sjá um umsýslu peninga, verðbréfa eða annarra eigna umbjóðanda síns,
  4. þegar þeir opna eða hafa umsjón með banka-, spari- eða verðbréfareikningum,
  5. þegar þeir koma að öflun, skipulagningu eða umsjón með framlögum til að stofna, reka eða stýra fyrirtækjum,
  6. þegar þeir aðstoða við stofnun, rekstur eða stjórnun fyrirtækja, fjárvörslusjóða eða annarra sambærilegra aðila.

Af framangreindu leiðir að lögmannsstofur, lögmenn og aðrir sérfræðingar (t.d. lögfræðingar) skulu framkvæma áreiðanleikakönnun á viðskiptamönnum þegar um er að ræða þá umsýslu og ráðgjöf sem fjallað er um í 1.-6. tölulið sem og starfa samkvæmt öðrum ákvæðum laganna. Sjá nánar um gildissvið laganna.

10. Falla viðskipti með fasteignir og skráningarskylda lausafjármuni undir lögin?

Samkvæmt n. lið 1. mgr. 2. gr. pþl. teljast fasteignasölur, bifreiðaumboð, fasteigna-, fyrirtækja-, skipa- og bifreiðasalar og fasteignafélög, hvort sem starfsemi snýst um beina leigu eða sölu þessara félaga á fasteignum, tilkynningarskyldir aðilar samkvæmt peningaþvættislögum og skulu starfa samkvæmt þeim.

11. Falla bílasölur/bílasalar undir lögin?

Sú breyting varð á lögunum árið 2020 að nú teljast bifreiðaumboð og bifreiðasalar tilkynningarskyldir aðilar óháð því hvort viðskipti fari fram með reiðufé og óháð öðrum fjárhæðarmörkum en talin eru í 8. gr. laganna. Sjá nánar um gildissvið laganna.

12. Falla leigumiðlarar undir lögin?

Samkvæmt o. lið 1. mgr. 2. gr. pþl. teljast leigumiðlarar tilkynningarskyldir aðilar þegar mánaðarlegar leigugreiðslur nema 10.000 evrum eða meira miðað við opinbert viðmiðunargengi eins og það er skráð hverju sinni. Ber þeim því að starfa í samræmi við ákvæði peningaþvættislaga. Sjá nánar um gildissvið laganna.

Með mánaðarlegum leigugreiðslum er átt við mánaðarlega heildarveltu aðilans af leigutekjum.

13. Falla viðskipti með listmuni undir lögin?

Samkvæmt p. lið 1. mgr. 2. gr. pþl. teljast listmunasalar eða listmunamiðlarar, þar á meðal listmunagallerí og uppboðshús, tilkynningarskyldir aðilar þegar um er að ræða viðskipti í einni greiðslu eða fleiri sem virðast tengjast hver annarri, að fjárhæð 10.000 evrum eða meira miðað við opinbert viðmiðunargengi eins og það er skráð hverju sinni. Ber framangreindum aðilum því að starfa í samræmi við ákvæði peningaþvættislaga, sjá nánar um tilkynningarskylda aðila.

Álitamál getur verið að hvaða marki aðili, sem fellur undir p. lið 1. mgr. 2. gr. pþl., teljist tilkynningarskyldur aðili þegar viðskipti, einstök eða fleiri, ná tilgreindum fjárhæðarmörkum. Miðað er við að þegar tilgreindum fjárhæðarmörkum hefur verið náð verði aðilinn tilkynningarskyldur í þeim viðskiptum sem eru yfir fjárhæðarmörkum en ekki í öðrum viðskiptum.

Aðilar sem taldir eru upp í p. lið 1. mgr. 2. gr. pþl. skulu því, ef fjárhæðarmörkum er náð, útbúa áhættumat á rekstri sínum og búa yfir þekkingu á þeim reglum sem gilda samkvæmt peningaþvættislögum svo þeim sé unnt að bregðast við með réttum hætti. Er þar sérstaklega bent á skyldu til að framkvæma áreiðanleikakönnun á þeim viðskiptamanni sem á í viðskiptum yfir fjárhæðarmörkum.

14. Falla viðskipti með skartgripi og gull undir lögin?

Samkvæmt q. lið 1. mgr. 2. gr. pþl. verða skartgripa- og gullsalar tilkynningarskyldir aðilar þegar um er að ræða viðskipti í einni greiðslu eða fleiri sem virðast tengjast hver annarri, að fjárhæð 10.000 evrum eða meira miðað við opinbert viðmiðunargengi eins og það er skráð hverju sinni.

Sú breyting varð á peningaþvættislögum árið 2020 að skartgripa- og gullsalar teljast tilkynningarskyldir þegar viðskipti ná tilgreindum fjárhæðarmörkum, óháð því hvort viðskipti eigi sér stað með greiðslu reiðufjár eða ekki.

Álitamál getur verið að hvaða marki aðili, sem fellur undir q. lið 1. mgr. 2. gr. pþl., teljist tilkynningarskyldur aðili þegar viðskipti, einstök eða fleiri, ná tilgreindum fjárhæðarmörkum. Miðað er við að þegar tilgreindum fjárhæðarmörkum hefur verið náð verði aðilinn tilkynningarskyldur í þeim viðskiptum sem eru yfir fjárhæðarmörkum en ekki í öðrum viðskiptum.

Skartgripa- og gullsalar skulu því, ef fjárhæðarmörkum er náð, framkvæma áreiðanleikakönnun á viðskiptamanni þar sem viðskipti ná fjárhæðarmörkum.

15. Hverjir teljast vera aðilar á sviði fjárvörslu og fyrirtækjaþjónustu?

Samkvæmt r. lið 1. mgr. 2. gr. pþl. teljast aðilar á sviði fjárvörslu og fyrirtækjaþjónustu tilkynningarskyldir aðilar samkvæmt peningaþvættislögum. Framangreindir aðilar eru skilgreindir með eftirfarandi hætti í 2. tl. 1. mgr. 3. gr. laganna:

Aðili á sviði fjárvörslu og fyrirtækjaþjónustu: Einstaklingur eða lögaðili sem veitir eftirfarandi þjónustu gegn gjaldi:

  1. aðstoðar við stofnun fyrirtækja eða annarra lögaðila,
  2. gegnir eða útvegar annan aðila til að gegna stöðu forstjóra eða framkvæmdastjóra fyrirtækis, stöðu meðeiganda í félagi eða sambærilegri stöðu hjá annarri tegund lögaðila,
  3. útvegar lögheimili eða annað skráð heimilisfang sem á svipaðan hátt er notað til að hafa samband við fyrirtækið eða aðra tengda þjónustu,
  4. starfar sem eða útvegar annan einstakling til að starfa sem fjárvörsluaðili sjóðs eða annars sambærilegs aðila,
  5. starfar sem eða fær annan einstakling til að starfa sem tilnefndur hluthafi fyrir annan aðila en fyrirtæki sem skráð er á skipulegum markaði.

Aðilar sem stunda framangreinda starfsemi skulu starfa í samræmi við ákvæði peningaþvættislaga, sjá nánar um tilkynningarskylda aðila.

Undir r. lið falla þeir aðilar sem stunda framangreind viðskipti og falla ekki undir aðra stafliði ákvæðisins.

16. Eru öll viðskipti tilkynningarskyld?

Nei, ekki öll viðskipti eru tilkynningarskyld. Gildissvið peningaþvættislaga er skilgreint í 2. mgr. 2. gr. laganna og er þar tæmandi talið hvaða aðilar það eru sem skulu starfa samkvæmt lögunum.

Í s. lið 1. mgr. 2. gr. pþl. er kveðið á um að önnur starfsemi, sem ekki er talin sérstaklega í öðrum stafliðum ákvæðisins, þar sem lögaðilar og einstaklingar sem í atvinnuskyni eiga viðskipti sem greitt er fyrir með reiðufé, hvort sem viðskiptin fara fram í einni greiðslu eða fleiri sem virðast tengjast hver annarri, að fjárhæð 10.000 evrum eða meira miðað við opinbert viðmiðunargengi eins og það er skráð hverju sinni, teljist tilkynningarskyldir aðilar.

Ákvæðinu er ætlað að ná til allra aðila, sem í atvinnuskyni, selja vöru eða þjónustu, sem greitt er fyrir með reiðufé sem nemur þeim fjárhæðarmörkum sem tilgreind eru í ákvæðinu.

Nánar má lesa um skyldur tilkynningarskyldra aðila.

Fram kemur í 5. gr. laganna, um áhættumat á eigin rekstri, að tilkynningarskyldum aðilum sé heimilt að aðlaga umfang áhættumats að stærð, eðli og umfangi starfseminnar.

Af framangreindu leiðir að allir aðilar, sem stunda atvinnurekstur þar sem greitt er fyrir með reiðufé, í einni færslu eða fleiri sem virðast tengjast hvorri annarri, teljast tilkynningarskyldir aðilar í þeim viðskiptum.

Í viðskiptum sem ná fjárhæðarmörkum ber að framkvæma áreiðanleikakönnun og starfa í samræmi við peningaþvættislög að öðru leyti.

17. Á að framkvæma áreiðanleikakönnun á þeim sem stunda happdrætti og veðmál?

Samkvæmt t. lið 1. mgr. 2. gr. pþl. skulu einstaklingar eða lögaðilar sem hafa hlotið starfsleyfi á grundvelli laga um happdrætti eða til reksturs fjársafnana og happdrætta á grundvelli sérlaga starfa samkvæmt peningaþvættislögum.

Nánar má lesa um skyldur tilkynningarskyldra aðila

18. Falla viðskipti á tollafgreiðslusvæðum undir peningaþvættislög?

Samkvæmt u. lið 1. mgr. 2. gr. pþl. teljast aðilar sem geyma eða eiga viðskipti með listmuni, sem eru geymdir á geymslusvæði fyrir ótollafgreiddar vörur skv. 1. mgr. 69. gr. tollalaga, nr. 88/2005, þegar um er að ræða viðskipti í einni greiðslu eða fleiri sem virðast tengjast hver annarri, að fjárhæð 10.000 evrum eða meira miðað við opinbert viðmiðunargengi eins og það er skráð hverju sinni, tilkynningarskyldir í slíkum viðskiptum.

Þegar tilgreindum fjárhæðarmörkum hefur verið náð verður aðilinn tilkynningarskyldur í þeim viðskiptum sem eru yfir fjárhæðarmörkum en ekki í öðrum viðskiptum.

Aðilar sem geyma eða eiga viðskipti með listmuni, sem eru geymdir á geymslusvæði fyrir ótollafgreiddar vörur (sbr. skilgreiningu að framan) skulu því útbúa áhættumat á rekstri sínum og búa yfir þekkingu á þeim reglum sem gilda samkvæmt peningaþvættislögum svo þeim sé unnt að bregðast við með réttum hætti.

19. Hvenær á að framkvæma áreiðanleikakönnun?

Áreiðanleikakönnun skal framkvæmd:

  • Við upphaf viðvarandi viðskiptasambands
  • Þegar einstök viðskipti nema 15.000 evrum eða meira hvort sem er í einni færslu eða fleirum sem virðast tengjast hver annarri
  • Þegar greitt er fyrir vöru eða þjónustu í reiðufé að fjárhæð 10.000 evrum eða meira hvort sem er í einni færslu eða fleiri sem virðast tengjast hver annarri
  • Við útgreiðslu vinnings að fjárhæð 2.000 evrum eða meira hvort sem er í einni færslu eða fleiri sem virðast tengjast hver annarri
  • Þegar grunur leikur á peningaþvætti eða fjármögnun hryðjuverka
  • Þegar vafi leikur á því hvort fyrirliggjandi upplýsingar um viðskiptamann séu réttar eða nægilega áreiðanlegar

Nánar má lesa um framkvæmd áreiðanleikakönnunar og skyldur tilkynningarskyldra aðila.

20. Hvenær á að tilkynna grunsamleg viðskipti?

Við tilkynningu grunsamlegra viðskipta skal miða við lægsta stig gruns. Með því er átt við að ekki þarf að liggja fyrir staðfesting eða sönnun þess að þeirra fjármuna sem notaðir eru í viðskiptunum hafi verið aflað með ólögmætum hætti.

Hafi tilkynningarskyldur aðili minnsta grun um að viðskiptamaður sé að stunda peningaþvætti skal tilkynna það til skrifstofu fjármálagreininga lögreglu.

Tilkynningarskyldum aðilum er einnig ávallt heimilt að leita til Skattsins, á netfangið pt@skatturinn.is, til frekari leiðsagnar.

Nánar má lesa um grunsamleg viðskipti

21. Hvernig hefur Skatturinn eftirlit með tilkynningarskyldum aðilum?

Peningaþvættiseftirlit ríkisskattstjóra hefur eftirlit með aðilum sem falla undir l. – u. lið 1. mgr. 2. gr. pþl. Nánar má lesa um gildissvið laganna.

Eftirlit felst í því að kanna hvort tilkynningarskyldir aðilar starfi í samræmi við skyldur sínar samkvæmt peningaþvættislögum og frystingarlögum.

Ríkisskattstjóra er heimilt að afla gagna og upplýsinga bæði skriflega sem og með því að framkvæma vettvangseftirlit á starfsstöð tilkynningarskylda aðilans.

22. Hvaða afleiðingar eru af því að starfa ekki í samræmi við peningaþvættislög?

Ríkisskattstjóri getur beitt úrbótakröfu, dagsektum og stjórnvaldssekt teljist aðili ekki starfa í samræmi við ákvæði peningaþvættislaga.

Ríkisskattstjóri beitir úrbótakröfu þegar brot hafa átt sér stað sem ekki teljast, að svo stöddu, varða við stjórnvaldssekt.

Dagsektir geta numið frá 10.000 kr. til 1 millj. kr. á dag. Við ákvörðun um fjárhæð dagsekta er heimilt að taka tillit til eðlis vanrækslu eða brots og fjárhagslegs styrkleika viðkomandi aðila. Ríkisskattstjóra er heimilt að beita dagsektum afhendi aðili ekki umbeðin gögn og til þess að þvinga fram úrbætur sem settar hafa verið fram.

Stjórnvaldssektir sem lagðar eru á tilkynningarskylda aðila skv. i.–u.-lið 1. mgr. 2. gr. geta numið frá 500 þús. kr. til 500 millj. kr. Stjórnvaldssektir sem lagðar eru á starfsmenn tilkynningarskyldra aðila geta numið frá 100 þús. kr. til 125 millj. kr.

Ríkisskattstjóra og aðila sem hefur gerst brotlegur við ákvæði peningaþvættislaga er heimilt að ljúka máli með sátt.

Ríkisskattstjóra er einnig heimilt að víkja stjórn og framkvæmdastjóra tilkynningarskylds aðila sem brotið hefur með alvarlegum, ítrekuðum eða kerfisbundnum hætti gegn ákvæðum peningaþvættislaganna.

23. Hvar má finna upplýsingar um skyldur tilkynningarskyldra aðila?

Á vef ríkisskattstjóra, www.skatturinn.is , má finna upplýsingar um þær skyldur sem hvíla á tilkynningarskyldum aðilum samkvæmt peningaþvættislögum og frystingarlögum. 

24. Víkur trúnaðar- og þagnarskylda lögmanna fyrir tilkynningar- og upplýsingaskyldu samkvæmt peningaþvættislögum?

Samkvæmt a. lið 1. mgr. 21. gr. pþl. er tilkynningarskyldum aðilum skylt að tilkynna um grunsamleg viðskipti og fjármuni sem grunur leikur á að rekja megi til refsiverðrar háttsemi til skrifstofu fjármálagreininga lögreglu. Samkvæmt 2. mgr. 20. gr. er einstaklingum, lögaðilum, opinberum aðilum, fjárvörslusjóðum og sambærilegum aðilum skylt að láta skrifstofu fjármálagreininga lögreglu í té án tafar allar upplýsingar og gögn sem hún telur nauðsynleg í tengslum við greiningu og athuganir mála. Tekið er fram í ákvæðinu að lagaákvæði um þagnarskyldu takmarka ekki skyldu til þess að veita upplýsingar og aðgang að gögnum með þeirri undantekningu þó að þetta gildi ekki um upplýsingar sem lögmaður öðlast við athugun á lagalegri stöðu skjólstæðings í tengslum við dómsmál, þ.m.t. þegar hann veitir ráðgjöf um hvort höfða eigi mál eða komast hjá máli, eða upplýsingar sem hann öðlast fyrir, á meðan eða eftir lok dómsmáls ef upplýsingarnar hafa bein tengsl við málið.

Samkvæmt 3. mgr. 38. gr. pþl. er tilkynningarskyldum aðilum skylt að láta eftirlitsaðila í té upplýsingar sem taldar eru nauðsynlegar í tengslum við eftirlit og athuganir mála. Í ákvæðinu er tekið fram að lagaákvæði um þagnarskyldu takmarka ekki skyldu til þess að veita upplýsingar eða aðgang að gögnum. Á því er þó gerð undantekning í tilviki lögmanna. Í 4. ml. 3. mgr. 38. gr. kemur fram að þetta gildi þó ekki um upplýsingar sem lögmaður öðlast við athugun á lagalegri stöðu skjólstæðings í tengslum við dómsmál, þ.m.t. þegar hann veitir ráðgjöf um hvort höfða eigi mál eða komast hjá máli, eða upplýsingar sem hann öðlast fyrir, á meðan eða eftir lok dómsmáls, ef upplýsingarnar hafa bein tengsl við málið.

Af framangreindu leiðir að peningaþvættislög ganga fyrir ákvæðum annarra laga sem kveða á um þagnarskyldu, þ.á.m. 1. mgr. 22. gr. lögmannalaga nr. 77/1998, að undanskildum upplýsingum sem aflað hefur verið við athugun á lagalegri stöðu skjólstæðings í tengslum við dómsmál, þ.m.t. þegar hann veitir ráðgjöf um hvort höfða eigi mál eða komast hjá máli, eða upplýsingar sem hann öðlast fyrir, á meðan eða eftir lok dómsmáls, ef upplýsingarnar hafa bein tengsl við málið.

Ákvæði peningaþvættislaga eru í samræmi við 2. mgr. 34. gr. fjórðu peningaþvættistilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2015/849 frá 20. maí 2015.

Þar segir:

„Member States shall not apply the obligations laid down in Article 33(1) to notaries, other independent legal professionals, auditors, external accountants and tax advisors only to the strict extent that such exemption relates to information that they receive from, or obtain on, one of their clients, in the course of ascertaining the legal position of their client, or performing their task of defending or representing that client in, or concerning, judicial proceedings, including providing advice on instituting or avoiding such proceedings, whether such information is received or obtained before, during or after such proceedings.“

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum