Yfirlýsing FATF vegna ósamvinnuþýðra ríkja frá 21. júní 2019
Ríkisskattstjóri vekur athygli á yfirlýsingu Financial Action Task Force (FATF) sem samþykkt var í kjölfar fundar hins alþjóðlega framkvæmdahóps hinn 21. júní sl.
Í
yfirlýsingu FATF kemur fram að ríki, sem eru aðilar að FATF, skuli grípa til
sérstakra fyrirbyggjandi varúðarráðstafana gagnvart Norður-Kóreu, enda steðji
viðvarandi ógn að hinum alþjóðlega fjármálamarkaði vegna aðgerðarleysis
ríkisins gagnvart aðgerðum gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Þá er
því beint til ríkjanna að beitt verði aukinni áreiðanleikakönnun í samræmi við
áhættu gagnvart einstaklingum og lögaðilum frá Íran.
Í kjölfar nefnds fundar FATF var einnig gefin út skýrsla um úrbætur í málefnum tengdum aðgerðum gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka á alþjóðlegum vettvangi. Í skýrslunni er að finna lista yfir ríki sem hafa lýst yfir vilja til að framfylgja aðgerðaáætlun, sem unnin hefur verið í samstarfi við FATF, til að taka á þeim annmörkum sem eru til staðar á þessu sviði.
Þau ríki sem eru talin með alvarlega annmarka eru eftirfarandi:
- Bahamaeyjar
- Botsvana
- Kambódía
- Eþíópía
- Gana
- Jemen
- Pakistan
- Panama
- Sri Lanka
- Sýrland
- Trinidad og Tóbagó
- Túnis
Í samræmi við 6. gr. laga nr. 140/2018, skulu tilkynningarskyldir aðilar gefa aðilum frá nefndum ríkjum sérstakan gaum, m.t.t. aukinnar hættu á peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka og framkvæma aukna áreiðanleikakönnun í samræmi við 13. og 14. gr. laga nr. 140/2018.