Úrskurðir tollgæslustjóra

Úrskurður 3/2018

Endurgreiðsla ofgreiddra aðflutningsgjalda

28.3.2018

Reifun

A kærði ákvörðun Tollstjóra um höfnun á beiðni um endurgreiðslu ofgreiddra aðflutningsgjalda.

Meginröksemdir kæranda voru að hann hafi pantað ranga vöru og hafi því skilað vörunum aftur til B. Í kjölfar skila á vörunum til B hafi A fyrir mistök greitt aðflutningsgjöld af vörunum. A krafist í málinu að Tollstjóri endurgreiði sér ofgreidd aðflutningsgjöld af umræddum vörum ásamt vöxtum.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 69. gr. tollalaga kemur fram að heimilt er að geyma ótollafgreiddar vörur á skilgreindum geymslusvæðum, þ. á. m. í tollvörugeymslum. Vörurnar sem um ræðir í málinu voru fluttar ótollafgreiddar hingað til lands. Vörurnar voru svo fluttar milli geymslusvæða en slík tilfærsla er heimil samkvæmt ákvæði 80. gr. tolllaga að fengnu sérstöku leyfi tollstjóra.

Í gögnum málsins liggur fyrir afhendingarheimild þar sem fram kemur að Tollstjóri heimili að sending með sendingarnúmerið G verði afhent til flutnings í tollvörugeymslu K.

Við vinnslu málsins óskaði Tollstjóri eftir frekari upplýsingum frá K varðandi innsetningu á umræddum vörum inn í tollvörugeymslu K

Samkvæmt þeim gögnum sem aflað var á kærustigi og öðrum upplýsingum sem finna má í gögnum málsins taldi Tollstjóri að það lægi fyrir fullnægjandi sönnun fyrir því að umræddar vörur hafi borist í tollvörugeymslu í vöruhótel K.

Ákvörðun Tollstjóra dags. 27. mars. 2017 um synjun á endurgreiðslu aðflutningsgjalda var feld úr gildi. Fallist var á kröfu kæranda um að endurgreiða skuli kæranda aðflutningsgjöld að fjárhæð X auk vaxta skv. 2. mgr. 125. gr. tolllaga.


Í dag var hjá embætti Tollstjóra kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R

I. Kæra

Með tölvupósti, dags. 17. janúar 2018, hafa C fyrir hönd B og A, kært til úrskurðar skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005 ákvörðun Tollstjóra, dags. 27. mars 2017, um synjun á endurgreiðslu aðflutningsgjalda.

Kærandi krefst þess að aðflutningsgjöld sem félagið hefur greitt verði endurgreidd ásamt vöxtum samkvæmt 2. gr. laga nr. 29/1995 frá dagsetningu tölvupósts fjármálastjóra A til starfsmanns Tollstjóra, dags. 27. mars 2017.

Þann 23. mars 2018 sendi starfsmaður lögfræðistofunnar C tölvupóst á Tollstjóra þar sem fram kemur að kærandi B dregur kæru sína til baka og er A því kærandi í málinu.

II. Málsmeðferð

Þann 17. febrúar 2017 skilaði A vörum úr fríhafnarsvæði Keflavíkurflugvallar til B. Tollstjóri gaf út sama dag afhendingarheimild vegna endursendingarinnar og heimilaði að varan yrði afhent til flutnings í tollvörugeymslu K. Hinn 20. mars. 2017 greiddi A aðflutningsgjöld að fjárhæð X vegna þeirra vara sem til umfjöllunar eru í málinu. Hinn 27. mars 2017 sendi starfsmaður A tölvupóst til starfsmanns Tollstjóra þar sem gerð var krafa um að A fengi gjöldin endurgreidd. Starfsmaður Tollstjóra svaraði síðar sama dag og synjaði um endurgreiðslu aðflutningsgjalda af þeirri ástæðu að gögn málsins bæru ekki með sér að vörurnar hefðu verið teknar inn í tollvörugeymslu í vöruhús K. Starfsmaður A sendi starfsmanni Tollstjóra í framhaldinu afhendingarheimild Tollstjóra sem gefin hafði verið út vegna endursendingarinnar. Af því tilefni spurði starfsmaður Tollstjóra hvort til væri stimplað eintak af sömu heimild af starfsmönnum Tollstjóra sem myndi staðfesta að vörurnar hefðu verið mótteknar í vöruhótel K. Í síðari tölvupóstsamskiptum kom í ljós að slík staðfesting hafði ekki fengist þegar vörurnar voru teknar inn í tollvörugeymslu í vöruhótel K.

Þann 30. mars 2017 sendi starfsmaður K tölvupóst á starfsmann Tollstjóra þar sem staðfest var að vörurnar hefðu borist í tollvörugeymslu K. Þann 4. maí 2017 sendi starfsmaður Tollstjóra tölvupóst á starfsmann K þar sem veittar voru leiðbeiningar um að kæra mætti málið til Tollstjóra.

Með tölvupósti dags. 17. janúar 2018 var ákvörðun Tollstjóra dags. 27. mars 2017, um synjun á endurgreiðslu aðflutningsgjalda kærð en þá var 60 daga kærufrestur liðin skv. 1. mgr. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005. Þar sem nokkuð skorti á kæruleiðbeiningar embættisins um kærufrest þykir rétt að taka málið til efnislegrar meðferðar þrátt fyrir að kærufrestur hafi verið liðinn þegar kæra barst.

III. Meginröksemdir kæranda

Kærandi kvað ástæðu vöruskilanna vera þá að A hafi fyrir mistök pantað ranga vöru og hafi því skilað vörunum aftur til B. Meginröksemdir kæranda eru að A hafi í kjölfar skila á vörunum greitt aðflutningsgjöld fyrir mistök og embætti Tollstjóra sé skylt að endurgreiða A ofgreidd aðflutningsgjöld ásamt vöxtum samkvæmt 2. gr. laga nr. 29/1995.

Í kærunni kemur fram að afhendingarheimild Tollstjóra hafi ekki verið stimpluð af starfsmönnum Tollstjóra þegar vörurnar voru teknar inn í tollvörugeymslu í vöruhótel K og bendir kærandi á að verklag hafi ekki verið með þeim hætti. Í kærunni kemur sömuleiðis fram að sambærilegar færslur birgða af frísvæði inn í tollvörugeymslu K sem séu ítrekað gerðar með sama hætti og gert var í máli því sem nú er til umfjöllunar. Kærandi bendir sömuleiðis á í kæru sinni að starfsmaður hjá K hefði staðfest að vörurnar hefðu borist í tollvörugeymslu K. Sami starfsmaður hafi jafnframt lýst því að venjulega væri ekki kallað á tollgæslu í sambærilegum tilvikum, þ.e. að sami háttur hafi verið hafður á og venjulega, heimild hafi verið fengin frá Tollstjóra og vörurnar sóttar á þeim grundvelli.

Í kærunni er vísað til 1. mgr. 69. gr. tollalaga en þar kemur fram að heimilt er að geyma ótollafgreiddar vörur á skilgreindum geymslusvæðum, þ. á. m. í tollvörugeymslum og tollfrjálsum verslunum og birgðageymslum þeirra. Kærandi bendir á að vörurnar sem um ræðir í málinu hafi ekki verið tollafgreiddar við komu þeirra hingað til lands með vísun til þeirrar heimildar sem 1. mgr. 69. gr. hefur að geyma. Kærandi bendir sömuleiðis á að um flutning ótollafgreiddar vöru milli geymslusvæða fer samkvæmt ákvæði 80. gr. tolllaga. Í 2. mgr. 80. gr. segir að óheimilt sé að flytja vöru úr tollfrjálsri forðageymslu eða tollfrjálsri verslun á önnur geymslusvæði fyrir ótollafgreiddar vörur nema að fengnu sérstöku leyfi tollstjóra.

Í kærunni kemur fram að þegar A afréð að skila umræddum vörum til B stóð ekki annað til en að vörurnar héldust ótollafgreiddar og yrðu því fluttar í tollvörugeymslu K. Kærandi hafi í því skyni aflað heimildar Tollstjóra til að afhenda vöruna í tollvörugeymslu, sbr. fylgiskjal 2 með kæru. Kærandi segir að aðilar máls hefðu átt að vera í góðri trú um að slík heimild uppfyllti skilyrði þess að teljast „sérstakt leyfi tollstjóra“ í skilningi 2. mgr. 80. gr. tolllaga.

Kærandi tekur fram að hann hafi greitt aðflutningsgjöldin fyrir mistök og þau hafi verið að sama skapi oftekin af Tollstjóra, í skilningi laga nr. 29/1995 um endurgreiðslu oftekinn skatta og gjalda. Kærandi bendi á að í þeim lögum segir í 1. mgr. 1. gr. að stjórnvöld sem innheimta gjöld skuli endurgreiða það sem ofgreitt reynist ásamt vöxtum. Kærandi bendir ennfremur á að í 2. mgr. 1. gr. segir að stjórnvöld skuli sjálf hafa frumkvæði að slíkum endurgreiðslum þegar þeim verður ljóst að ofgreitt hafi verið og vextir skuli vera í samræmi við ákvæði 2. gr. sömu laga.

Að mati kæranda sé ljóst að embætti Tollstjóra sé skylt að endurgreiða A án frekari tafa ofgreidd aðflutningsgjöld ásamt vöxtum samkvæmt 2. gr. laga nr. 29/1995 frá dagsetningu tölvupósts fjármálastjóra A til starfsmanns Tollstjóra, dags. 27. mars. 2017.

IV. Niðurstöður

Ágreiningur í máli þessu snýst um endurgreiðslu aðflutningsgjalda.

Kærandi fer fram á að aðflutningsgjöld sem félagið hefur greitt verði endurgreidd ásamt vöxtum samkvæmt 2. gr. laga nr. 29/1995, þar sem kærandi hafi skilað vörunum sem um ræðir. Kærandi framvísar í málinu afhendingarheimild útgefinni af Tollstjóra þar sem kæranda er heimilað að vörurnar verði afhentar til flutnings í tollvörugeymslu K.

Kærð ákvörðun Tollstjóra lítur hins vegar að því að gögn málsins beri ekki með sér að vörurnar hafi verið teknar inn í tollvörugeymslu í vöruhús K. Í ákvörðun Tollstjóra um synjun endurgreiðslu aðflutningsgjalda bendir Tollstjóri á að ekki liggi fyrir fullnægjandi staðfesting á því að vörurnar hafi verið fluttar í tollvörugeymslu K þar sem afhendingarheimild Tollstjóra sé ekki stimpluð af starfsmönnum Tollstjóra.

Í 1. mgr. 69. gr. tollalaga kemur fram að heimilt er að geyma ótollafgreiddar vörur á skilgreindum geymslusvæðum, þ. á. m. í tollvörugeymslum og tollfrjálsum verslunum og tollfrjálsum birgðageymslum þeirra. Vörurnar sem um ræðir í málinu voru fluttar ótollafgreiddar hingað til lands. Vörurnar voru svo fluttar milli geymslusvæða en slík tilfærsla er heimil samkvæmt ákvæði 80. gr. tolllaga að fengnu sérstöku leyfi tollstjóra.

Í gögnum málsins liggur fyrir afhendingarheimild útgefin dags. 17. febrúar 2017 þar sem fram kemur að Tollstjóri heimili að sending með sendingarnúmerið G verði afhent til flutnings í tollvörugeymslu K.

Hinn 20. mars. 2017 greiddi A aðflutningsgjöld að fjárhæð X vegna þeirra vara sem til umfjöllunar eru í málinu. Hinn 27. mars. 2017 sendi starfsmaður A tölvupóst til starfsmanns Tollstjóra þar sem farið var fram á að A fengi gjöldin endurgreidd. Í tölvupósti dags. 30. mars. 2017 staðfesti starfsmaður K í samskiptum við starfsmann Tollstjóra að vörurnar hefðu borist í tollvörugeymslu K.

Við vinnslu málsins dags. 15. mars. 2018, óskaði Tollstjóri eftir frekari upplýsingum frá K varðandi innsetningu á umræddum vörum inn í tollvörugeymslu K. Hinn 16. mars. 2018 barst Tollstjóra í tölvupósti yfirlit frá K yfir innsetningu varanna sem til umfjöllunar eru í málinu og núllskýrslu yfirlit fyrir úttektir þeirra vara. Í núllskýrslu yfirlitinu má sjá að vörurnar, samtals 143 einingar, komu inn í vöruhótel K hinn 17. febrúar 2017. Einnig má lesa úr yfirlitinu að fimm úttektir voru framkvæmdar af B dags. 23.02.2017, 28.02.2017, 02.02.2017, 06.03.2017 og 09.03.17, samtals úttekt 143 einingar.

Samkvæmt þeim gögnum sem aflað hefur verið á kærustigi og öðrum upplýsingum sem finna má í gögnum málsins telur Tollstjóri að það liggi fyrir fullnægjandi sönnun fyrir því að umræddar vörur hafi borist í tollvörugeymslu í vöruhótel K.

Með vísan í ofangreint er niðurstaða embættis Tollstjóra sú að fallast beri á kröfu kæranda um endurgreiðslu á aðflutningsgjöldum sem félagið hefur greitt vegna vara á sendingarnúmeri G.

Kærandi fer fram á endurgreiðslu aðflutningsgjalda ásamt vöxtum samkvæmt 2. gr. laga nr. 29/1995 frá dagsetningu tölvupósts fjármálastjóra A til starfsmanns Tollstjóra, dags. 27. mars. 2017. Tollstjóri telur ekki rétt að miða við 2. gr. laga nr. 29/1995 varðandi vaxtagreiðslur heldur eigi að fara eftir 2. mgr. 125 gr. tollalaga, þegar reikna skal vexti af ofgreiðslu aðflutningsgjalda. Tollstjóri bendir á að um sérlög er að ræða sem ganga framar hvað vexti af aðflutningsgjöldum varðar. Í 2. mgr. 125. gr. kemur fram að sé ljóst að greitt hafi verið meira í aðflutningsgjöld en sem nemur endanlegum álögðum aðflutningsgjöldum þá skuli endurgreiða það sem ofgreitt er ásamt vöxtum fyrir það tímabil sem féð var í vörslum ríkissjóðs. Tollstjóri telur ljóst með vísun til 2. mgr. 125 gr. að embætti Tollstjóra skuli greiða vexti frá greiðsludegi ofgreiddra aðflutningsgjalda eða þann 20. mars. 2017, en þá var greiðslan móttekin hjá Tollstjóra. Tollstjóri bendir á að ekki eru greiddir dráttarvextir af ofgreiddum aðflutningsgjöldum kæranda þar sem ekki er kveðið á um greiðslu dráttarvaxta í 2. mgr. 125. gr. tolllaga nr. 88/2005.

Með vísan til alls ofangreinds er niðurstaða embættis Tollstjóra því sú að ákvörðun embættisins, dags. 27. mars 2017, skuli felld úr gildi og endurgreiða skuli kæranda aðflutningsgjöld að fjárhæð X kr. vegna varanna sem til umfjöllunar er í málinu auk vaxta skv. 2. mgr. 125. gr. tollalaga frá 20. mars 2017.

ÚRSKURÐARORÐ

Embætti Tollstjóra úrskurðar skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005, með síðari breytingum, að ákvörðun Tollstjóra dags. 27. mars. 2017 skuli felld úr gildi. Fallist er á kröfu kæranda um endurgreiðslu aðflutningsgjalda vegna þeirra vara sem til umfjöllunar er í málinu samtals að fjárhæð X kr. auk vaxta skv. 2. mgr. 125. gr. tollalaga frá 20. mars 2017.

Kæruréttur

Úrskurðinum er heimilt að skjóta til yfirskattanefndar, Borgartúni 21, 105 Reykjavík, innan þriggja mánaða frá póstlagningardegi bréfs þessa, sbr. 118. gr. tollalaga nr. 88/2005 og 1. mgr. 5. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd.

Virðingarfyllst,

f.h. Tollstjóra


Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum