Úrskurðir tollgæslustjóra

Úrskurður 6/2004

Tollflokkun á bifreið að gerðinni Cadillac Escalade EXT

27.2.2004

Vísað er til bréfs A, dags. 20., janúar sl., þar sem kærð er tollflokkun embættisins á bifreið af gerðinni Cadillac Escalade EXT með fastnúmer C. Bifreiðin var flutt til landsins með sendingunni D. Ákvörðunin er kærð á grundvelli 100. gr. tollalaga nr. 55/1987, með síðari breytingum.

I.

Innflytjandi lagði fram við tollafgreiðslu aðflutningsskýrslu þar sem bifreiðin var tollflokkuð í tollskrárnúmer 8704.2129 - notuð ökutæki til vöruflutninga (dísil) að heildarþyngd 5 tonn eða minna með vörupalli. Starfsmenn tollstjóra gerðu athugasemd við þessa flokkun og töldu að bifreiðin væri rétt flokkuð í tollskrárnúmer 8703.2499 - notuð ökutæki aðallega gerð til mannflutninga, með bensínhreyfil með meira en 3000 rúmsentimetra sprengirými. Sendingin var þannig afgreidd þann 26. nóvember 2003.

II.

Með kærunni er gerð sú krafa að tollflokkun þessari verði breytt og bifreiðin verði tollflokkuð í tollskrárnúmer 8704.3129 sem nær til notaðra ökutækja til vöruflutninga með bensínhreyfli, vörupalli og minna en 5 tonna heildarþyngd.

Ágreiningurinn er því um tollflokkun í vöruliði tollskrár. Því er haldið fram í kæru að bifreiðin skuli flokkast í vörulið 8704 – ökutæki til vöruflutninga, en tollstjóri heldur því fram að vöruliður 8703 – bifreiðar og önnur vélknúin ökutæki aðallega gerð til mannflutninga (þó ekki ökutæki í nr. 8702), þar með taldir skutbílar og kappakstursbílar, eigi betur við.

III.

Bifreið sú sem hér um ræðir er af gerðinni Cadillac Escalade EXT. Þessi gerð er ein útfærslan af Cadillac Escalade jeppanum sem einnig fæst í lengri útgáfu, Cadillac Escalade ESV. Þær tvær gerðir eru eins og aðrir jeppar með einni lokaðri yfirbyggingu sem rúmar bæði farþega og farangur í einu sameiginlegu rými. Þessi útfærsla er, eins og hinar tvær, með einni óskiptri yfirbyggingu á grind sem er með sætum fyrir 5 manns í farþegarými og farmrými þar aftan við en ekkert þak er yfir farmrýminu. Bifreiðin er því í fljótu bragði útlits svipuð og pallbílar með tvöföldu húsi (double cab). Hún er þó frábrugðin þeim bifreiðum á þann veg að hún er með einni óskiptri yfirbyggingu á grind en ekki aðskildum palli, eins og til að mynda Musso Sport sem nefndur er í kærunni sem sambærileg bifreið. Að auki er farmrýmið aðskilið frá farþegarými með losanlegu milliþili, svokölluðu miðjuhliði "Midgate TM" þannig að þar fyrir aftan myndast opinn pallur. Þetta hlið er auðvelt að fjarlægja með því að taka afturrúðuna úr og smella henni við hliðið og fella síðan niður aftursætin og hliðið. Þá myndast samfellt opið rými frá framsætum aftur að afturhlera, svipað og í skutbílum.

Gerðarlýsing skoðunarstofu á þessu ökutæki gefur heildarþyngd 3175 kg, 2580 kg eiginþyngd og burðargetu 595 kg.

IV.

Ísland er aðili að alþjóðlegum samningi um samræmda vörulýsingar- og vöruheitaskrá, samræmd tollskrá. Alþjóðatollastofnunin (World Customs Organization (WCO)) hefur umsjón með samningnum og framkvæmd hans og hefur í því skyni m.a. gefið út skýringarbækur um túlkun hans (Explanatory Notes). Samningurinn um samræmdu tollskrána var undirritaður fyrir Íslands hönd hinn 10. janúar 1985, sbr. auglýsingu nr. 25/1987 í C-deild Stjórnartíðinda. Með lögum nr. 96/1987, um breyting á tollalögum nr. 55/1987, voru tollflokkunarreglur samræmdu skrárinnar teknar í notkun hér á landi við tollafgreiðslu á vörum 1. janúar 1988, en tollskráin og túlkunarreglur hennar er birt sem viðauki I við lögin.

Við flokkun vöru í tollskrá ber að fara eftir túlkunarreglum hennar og þá fyrst og fremst þeirri fyrstu sem hljóðar svo: „Fyrirsagnir á flokkum, köflum og undirköflum eru einungis til leiðbeiningar. Í lagalegu tilliti skal tollflokkun byggð á orðalagi vöruliða, athugasemda við tilheyrandi flokka og kafla og brjóti það ekki í bága við orðalag vöruliða eða athugasemda skal fylgt eftirfarandi reglum:”.

Þegar kemur að flokkun vöru í undirliði, kemur til kasta 6. túlkunarreglunnar sem hljóðar svo: „Í lagalegu tilliti skal flokkun vara í undirliði einstakra vöruliða byggð á orðalagi undirliðanna og sérhverri tilheyrandi athugasemda við undirliði og, að breyttu breytanda, framangreindum reglum, með því fororði að aðeins jafnsettir undirliðir verða bornir saman. Viðkomandi athugasemdir við flokka og kafla gilda einnig með tilliti til þessarar reglu, nema annað leiði af orðalagi.”

Við mat á því hvor vöruliðurinn sem hér er um deilt eigi við verður því fyrst og fremst að líta til orðalags þeirra, annarsvegar orðalags vöruliðar 8703 „Bifreiðar og önnur vélknúin ökutæki aðallega gerð til mannflutninga (þó ekki ökutæki í nr. 8702), þar með taldir skutbílar og kappakstursbílar”, og hins vegar orðalags vöruliðar 8704 „Ökutæki til vöruflutninga”. Orðalagið „aðallega gerð til mannflutninga” útilokar ekki ökutæki sem einnig eru til vöruflutninga. Við mat á því hvort ökutæki sé aðallega gert til mann- eða vöruflutninga verður að líta til margra þátta og bera saman þá þætti sem einkenna vöruflutninga annarsvegar á móti þeim þáttum sem einkenna mannflutninga hinsvegar. Til að mynda verður að líta til burðargetu farms á móti farþegum, stærð flutningarýmis á móti farþegarými, hentugleika til að flytja farm, t.d. hvort það er opið eða aðskilið frá ökumanni og farþegum.

Alþjóðatollastofnunin hefur ákvarðað tollflokkun nokkurra ökutækja í vörulið 8703 og 8704 (sjá meðfylgjandi fylgiskjöl). Þau ökutæki sem ákvörðuð hafa verið í vörulið 8704, og eru með palli og ætluð eru bæði til að flytja fólk og varning, eru öll með tvískipta yfirbyggingu, þ.e. vörupallurinn er aðskilinn frá yfirbyggingu fyrir fólk. Önnur ökutæki, sem bæði flytja fólk og vörur, hafa verið ákvörðuð í vörulið 8703, sum hver jafnvel þó þau hafi verið með skilrúmi milli farangurs og farþegarýmis.

Með allt þetta að leiðarljósi verður ekki séð að umrætt ökutæki sé til vöruflutninga. Það er fyrst og fremst ætlað til mannflutninga en vegna hönnunar sem líkist að miklu leyti hönnun venjulegra skutbíla getur það einnig flutt takmarkað magn af farmi.

V.

Bent er á í kærunni að bifreið þessi sé sambærileg við tvær tilteknar bifreiðar, sem framleiddar eru af sama framleiðanda og hafa verið fluttar til landsins og tollafgreiddar í vörulið 8704. Bifreiðar þessar eru af gerðinni Chevrolet Avalance. Tollstjóri er sammála því að bifreiðar þessar séu sambærilegar enda byggðar upp á sama hátt, þ.e. með farþega- og farmrými í einni yfirbyggingu sem aðskilin eru með færanlegu þili.

Úrskurður:

Embætti tollstjórans í Reykjavík úrskurðar, skv. 100. gr. tollalaga nr. 55/1987, með síðari breytingum, að bifreið af gerðinni Cadillac Escalade EXT, með fast númer C, sem flutt var til landsins í sendingunni D, skuli flokkast í tollskrárnúmer 8703.2499 á grundvelli 1. og 6. almennu túlkunarreglna tollskrár.

Úrskurði þessum er heimilt að skjóta til Ríkistollanefndar, Skúlagötu 57, 150 Reykjavík og er kærufrestur 60 dagar talið frá póstlagningardegi bréfs þessa, sbr. 1. mgr. 101. gr. tollalaga nr 55/1987, með síðari breytingum.

Reykjavík, 27. febrúar 2004.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum