Úrskurðir tollgæslustjóra

Úrskurður 9/2017

Tollflokkun Toyota Hiace bifreiðar

27.6.2017

Reifun

A kærði ákvörðun Tollstjóra um tollflokkun á ökutæki í tollflokk 8703.3229, sem fólksbíl eftir losun koltvísýrings og krafðist þess að ökutækið skyldi tollflokkað sem sendibifreið í tollskrárnúmer 8704.2199.

Í vörulið 8703 flokkast bifreiðar sem eru aðallega gerðar til mannflutninga. Í vörulið 8704 flokkast bifreiðar sem eru til vöruflutninga.

Tollstjóri taldi ljóst af útliti og hönnun ökutækisins sem til umfjöllunar var í málinu væri ætlað til að ferja bæði farþega og varning og því væri nauðsynlegt að meta hvort hlutverkið einkenni helst vöruna. Niðurstaða Tollstjóra var að flokka beri bifreiðina sem ökutæki aðallega gert til mannflutninga í vörulið 8703.

Niðurstaða: Staðfest var ákvörðun embættisins um að flokka beri bifreiðina sem ökutæki aðallega gert til mannflutninga í vörulið 8703, nánar tiltekið í tollskrárnúmer 8703.3239.


Í dag var hjá embætti Tollstjóra kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R

I. Kæra

Með tölvupósti, dags. 2. júní 2017, hefur B f.h. A, kært til úrskurðar skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005 ákvörðun Tollstjóra, dags. 30. maí 2017, um tollflokkun á bifreiðinni Toyota Hiace með forskráningarnúmerið X.

Kærandi mótmælir því að bifreiðin skuli flokkast sem fólksbíll eftir losun koltvísýrings í tollskrárnúmer 8703.3239. Um sé að ræða sendibifreið sem skuli flokkast í tollskrárnúmer 8704.2199.

II. Málsmeðferð

Í maí 2017 flutti kærandi inn til landsins bifreið af gerðinni Toyota Hiace frá Svíþjóð með sendingu með sendingarnúmerinu X.

Samkvæmt aðflutningsskýrslu kæranda innihélt sendingin bifreið sem tollflokkuð var í tollskrárnúmer 8703.3239. Sendingin var afgreidd í samræmi við aðflutningsskýrslu kæranda og tilskilin gjöld lögð á hana.

Þann 22. maí 2017 móttók Tollstjóri leiðréttingarskýrslu kæranda fyrir áðurnefnda sendingu, sbr. 116. gr. tollalaga nr. 88/2005. Leiðrétting fólst í því að bifreiðin yrði færð úr tollskrárnúmeri 8703.3239 í tollskrárnúmer 8704.2199. Tollafgreiðslu leiðréttingarskýrslu kæranda var hafnað þann 30. maí sl. með þeirri athugasemd að fyrri tollafgreiðsla skyldi standa, þ.e. að bifreiðin skyldi tollflokkast í tollskrárnúmer 8703.3239.

Sú ákvörðun Tollstjóra að hafna leiðréttingu aðflutningsskýrslunnar var kærð með tölvupósti til Tollstjóra dags. 2. júní 2017.

III. Meginröksemdir kæranda

Meginröksemdir kæranda eru að ökutækið hafi verið rangt tollflokkað. Í gögnum málsins kemur fram að kærandi telji umrædda bifreið eigi að tollflokka sem sendibifreið en ekki sem fólksbifreið.

Í fylgigögnum kærunnar eru myndir af bifreiðinni og sænskt skráningarskírteini bifreiðarinnar. Í kærunni er vísað til hlekks á heimasíðu Tollstjóra sem inniheldur upplýsingar um vörugjöld af ökutækjum og einnig vísar kærandi til reglugerðar nr. 822/2004 um gerð og búnað ökutækja.

Kærandi telur bifreiðina fullnægja skilyrðum þess að öllu leyti að vera tollflokkuð sem sendibifreið enda sé hún skráð sem sendibifreið hjá Samgöngustofu og bifreiðin skráð sem

„lastbil“ á sænska skráningarskírteininu. Farmrými bílsins sé aðskilið með föstu þili og engar festingar, hliðargluggar, gólfteppi eða annað sem tengist fólksflutningum sé í farmrými.

Af þessum sökum óskar kærandi að Tollstjóri endurskoði ákvörðun sína um að hafna tollflokkun bifreiðarinnar undir tollskrárnúmer 8704.2199.

IV. Niðurstöður

Ágreiningur í máli þessu snýst um tollflokkun bifreiðarinnar Toyota Hiace með fastanúmer X.

Kærandi fer fram á að bifreiðin verði tollflokkuð sem sendibifreið í vörulið 8704, nánar tiltekið í tollskrárnúmer 8704.2199. Kærð ákvörðun Tollstjóra lítur hins vegar að því að um sé að ræða bifreið fyrir 5 manns sem skuli flokka líkt og fólksbíll eftir co2 losun í tollskrárnúmer 8703.3239, sem ökutæki aðallega gert til mannflutninga með vísan í túlkun tollskrár. Við tollflokkun á slíkri bifreið er farið eftir hinu alþjóðlega tollflokkunarkerfi Alþjóðatollastofnunarinnar (WCO).

Þegar grundvöllur fyrir álagningu vörugjalds er skoðaður er nauðsynlegt að líta til laga nr. 29/1993 um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. Samkvæmt 1. gr. laganna ber að greiða vörugjald af ökutækjum sem skráningaskyld eru samkvæmt umferðarlögum nr. 50/1987 og nær gjaldskyldan til allra ökutækja nýrra sem notaðra sem flutt eru til landsins, sbr. 1. mgr. 2. gr. laganna. Álagning vörugjalda á ökutæki fer að meginreglu eftir 3. gr. laganna þar sem hún er miðuð við skráða losun koltvísýrings. Í 4. og 5. gr. laganna er að finna undantekningar frá þessari meginreglu sem kveða almennt á um lægra vörugjald en þyrfti að greiða félli ökutæki undir 3. gr. laganna. Af tollskrá má lesa að ökutæki sem flokkast í tollskrárnúmer 8703.3239 falla undir meginregluna í 3. gr. laga nr. 29/1993 en ökutæki sem flokkast í tollskrárnúmer 8704.2199 falla aftur á móti undir undanþáguákvæði 4. gr. laganna.

Bifreiðin sem til umfjöllunar er í málinu er þannig útbúin að hún getur flutt einn ökumann og fjóra farþega. Einnig er rúmt vöruflutningarými sem er sambyggt farþegarými en aðskilið með skilrúmi fyrir aftan sætisröð sem er fyrir aftan ökumann. Tollstjóri telur ljóst að bifreiðin er ætluð til að ferja bæði farþega og varning. Bifreiðin gæti til að mynda henta vel til að flytja vinnuhópa ásamt verkfærum og farangri þeirra.

Í vörulið 8703 flokkast bifreiðar sem eru aðallega gerðar til mannflutninga. Í vörulið 8704 flokkast bifreiðar sem eru til vöruflutninga. Eins og áður segir getur umrædd bifreið bæði flutt fólk og vörur. Þegar kemur að slíkum bifreiðum er nauðsynlegt að meta hvort hlutverkið einkenni helst vöruna.

Í skýringarbókum Alþjóðatollastofnunarinnar er að finna fimm atriði sem gefa til kynna hvort bifreið sé ætluð til vöruflutninga eða bifreið aðallega gerð til mannflutnings. Þau atriði sem benda til þess að ökutækið eigi að flokka í vörulið 8703, sem fólksflutningabifreið, eru eftirfarandi:

  • Í fyrsta lagi ef í aftara rými, fyrir aftan bílstjóra, er fyrir hendi varanleg sæti fyrir farþega eða varanlegir festipunktar fyrir slík sæti og öryggisbelti. Sætin mega vera losanleg.
  • Í öðru lagi er nefnt hvort til staðar séu gluggar á báðum hliðum ökutækisins í aftara rými.
  • Í þriðja lagi eru nefndar hurðir með gluggum í aftara rými.
  • Í fjórða lagi er nefndur skortur á varanlegu skilrúmi milli ökumannssætisraðarinnar og aftara rýmis.
  • Í fimmta lagi er nefnd tilvist þæginda, búnaður og innra byrði (innréttinga) sem eru oft í farþegarýmum.

Umrædd bifreið uppfyllir öll fimm atriðin. Þannig eru sæti fyrir tvo farþega fyrir aftan bílstjórasætisröðina. Gluggar eru á hliðum bifreiðarinnar, þar er rennihurð með gluggum á hlið bifreiðarinnar, það er ekki skilrúm sem skilur að bílstjórasætisröðina frá restinni af rýminu og rýmið fyrir farþega fyrir aftan ökumann er innréttað. Vert er að athuga að vöruflutningarými slíkra bifreiða er allt rýmið fyrir aftan ökumannssætisröðina.

Hinn vöruliðurinn sem til skoðunar kom er vöruliður 8704 fyrir ökutæki til vöruflutninga. Í skýringarbókum Alþjóðatollastofnunarinnar er að finna fjögur atriði sem benda til þess að ökutækið eigi að flokka í þann vörulið. Þeim svipar mjög til áðurnefndra atriða fyrir vörulið 8703 en með öfugum formerkjum. Þau eru eftirfarandi:

  • Í farangursrými mega vera einfaldir bekkir sem yfirleitt eru samanfellanlegir svo hægt sé að nýta rýmið til fulls sem farangursrými. Í rýminu má hins vegar ekki vera öryggisbúnaður eða festingar sem leyfa öryggisbúnað eins og öryggisbelti.
  • Ekki mega vera gluggar í hliðum bifreiðar fyrir aftan ökumann. Hurðir mega vera til staðar en þær verða að vera án glugga.
  • Varanlegt skilrúm á milli ökumanns og farþega við hlið ökumanns í bifreiðinni annars vegar og farangursrýmis.
  • Ekki mega vera til staðar þægindi, búnaður eða innréttingar í farangursrými sem oft eru í tengslum við og má finna í farþegarýmum.

Ljóst er að bifreiðin sem um ræðir í þessu máli uppfyllir ekkert af þessum atriðum og getur því ekki flokkast í vörulið 8704. Því ber að flokka bifreiðina sem ökutæki aðallega gert til mannflutninga í vörulið 8703.

Varðandi þær röksemdir kæranda að umrædd bifreið sé skráð sem sendibifreið N1 hjá Samgöngustofu og „Lastbil“ á sænska skráningarskírteininu, þykir rétt að benda á að Tollstjóri er bundinn af tollskrá er varðar tollflokkun, sbr. 1. mgr. 5. gr. og 1. mgr. 20. gr. tollalaga nr. 88/2005. Sambærilegar bifreiðar myndu því fá sambærilega tollflokkun hjá Tollstjóra við innflutning til landsins. Tollflokkun vöru byggir á túlkunarreglum tollskrár og skýringabókum WCO ef nauðsyn krefur og ástandi vöru við innflutning. Það að Samgöngustofa skrái umrædda bifreið sem sendibifreið í ökutækjaflokk hjá sér hefur þannig ekki áhrif varðandi hvaða tollskrárnúmer bifreiðin hlýtur við tollflokkun.

Með vísan til alls ofangreinds er niðurstaða embættis Tollstjóra því sú að ákvörðun embættisins, dags. 30. maí 2017, skuli standa óbreytt og flokka beri bifreiðina sem ökutæki aðallega gert til mannflutninga í vörulið 8703, nánar til tekið í tollskrárnúmer 8703.3239.

ÚRSKURÐARORÐ

Embætti Tollstjóra úrskurðar skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005, með síðari breytingum, að ákvörðun Tollstjóra um tollflokkun bifreiðar af tegundinni Toyota Hiace með fastanúmer X í tollskrárnúmer 8703.3239, er staðfest.

Kæruréttur

Úrskurðinum er heimilt að skjóta til yfirskattanefndar, Borgartúni 21, 105 Reykjavík, innan þriggja mánaða frá póstlagningardegi bréfs þessa, sbr. 118. gr. tollalaga nr. 88/2005 og 1. mgr. 5. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd.


Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum