Úrskurðir tollgæslustjóra

Úrskurður nr. 1/2003

Krafa um endurgreiðslu á eftirgefnu vörugjaldi af bílaleigubifreið nr. X.

13.1.2003

Með bréfi dags. 15. nóvember kærði lögmannsþjónusta A., f.h. B. ákvörðun tollstjóra þess efnis að fyrirtækinu bæri að endurgreiða eftirgefið vörugjald af bílaleigubifreiðinni X.

Ákvörðun tollstjóra, dags. 21. október 2002, byggði á því að fyrirtækið hefði brotið skilyrði 3. tl. 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 331/2000 með útleigu áðurnefndrar bifreiðar til C. á tímabilinu 8. júní til 24. ágúst árið 2001.

Eftir ítarlega skoðun á fyrirliggjandi gögnum í málinu, þ.e. gögnum úr tölvukerfi fyrirtækisins og leigusamningum, hefur embættið komist að þeirri niðurstöðu að ekki hafi verið brotið gegn áðurnefndu skilyrði 3. tl. 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 331/2000. Samkvæmt gögnum úr tölvukerfi fyrirtækisins þá var bifreiðin leigð út þann 8. júní 2001 til 8. júlí 2001, bifreið var leigð út aftur sama dag og var í útleigu til

24. júlí 2001, fór aftur í útleigu þann 24. júlí 2001 og kom til baka 29. júlí 2001. Hins vegar var bifreiðin ekki leigð aftur út fyrr en 16. ágúst 2001. Leigusamningar sem hafa verið lagðir fram styðja þetta. Þar af leiðandi er ekki að sjá að brotið hafi verið gegn skilyrði 3. tl. 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 331/2000.

Embættið vill þó benda fyrirtækinu á að skv. 6. gr. laga nr. 64/2000 um bílaleigur, með síðari breytingum, skulu leigusamningar vera undirritaðir af báðum aðilum.

Úrskurður:

Embætti tollstjórans í Reykjavík úrskurðar skv. 100. gr. tollalaga nr. 55/1987, með síðari breytingum, að ákvörðun tollstjórans í Reykjavík frá 21. október 2002 standist ekki og er fallið frá kröfu um endurgreiðslu eftirgefins vörugjalds vegna bifreiðar X

Reykjavík 13. janúar 2003.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum