Úrskurðir tollgæslustjóra

Úrskurður nr. 1/2004

Niðurfelling á aðflutningsgjöldum af tækjabúnaði og miðlum í fyrir starfsemi kvikmynda- og myndbandavinnustofur

7.1.2004

Með bréfi kæranda dags. 1. desember 2003, var kærð ákvörðun tollstjórans í Reykjavík frá 2. október 2003 þar sem hafnað var niðurfellingu aðflutningsgjalda af aðföngum til atvinnustarfsemi.

Í 12. tl. 6. gr. tollalaga nr. 55/1987 segir að tollur skuli lækka, falla niður eða endurgreiðast af tækjabúnaði og miðlum sem kvikmynda- og myndbandavinnustofur og hljóðver nýta til starfsemi sinnar. Nánari skilyrði um framkvæmd ofangreindrar reglu er að finna í reglugerð nr. 719/2000, um undanþágu aðflutningsgjalda af aðföngum til ýmissar atvinnustarfsemi. Í 3. tl. 1. gr. reglugerðarinnar segir að tollstjóri skuli fella niður eða endurgreiða toll og vörugjald, eftir því sem kveðið er á um í reglugerðinni, af aðföngum sem notuð eru við atvinnustarfsemi við kvikmyndagerð, framleiðslu myndbanda og starfsemi hljóðvera. Í 2. gr. reglugerðarinnar er að finna almenn skilyrði fyrir undanþágu gjalda samkvæmt reglugerðinni. Í 9. gr. reglugerðar nr. 719/2000 er kveðið á um að tollur og vörugjald skuli falla niður eða endurgreiddur af tækjabúnaði og miðlum til kvikmyndagerðar myndbandaframleiðslu og annarrar mynd- og hljóðvinnslu. Í greininni eru síðan talin upp þau aðföng sem undanþága gjalda skal ná yfir.

Í kærunni kemur fram að A. reki tvær sjónvarpsstöðvar og að fyrirtækið framleiði umtalsvert af íslensku sjónvarpsefni. Í kærunni segir að framleiðslan fari fram með þeim hætti að starfsmenn fyrirtækisins taki upp hljóð og mynd á myndband og setji það síðan inn á tölvu og klippi það til. Að því loknu er sjónvarpsþættinum spilað úr tölvunni yfir á myndband og myndefnið þannig gert tilbúið til sýningar, hvort sem er á myndbandi, í sjónvarpi eða í bíó. Kærandi telur að öll þau tæki sem fyrirtækið hefur sótt um heimild til niðurfellingar aðflutningsgjalda á séu notuð til framleiðslu á íslensku sjónvarpsefni og til skoðunar og sýningar á því.

Kærandi telur að með vísan til 9. gr. reglugerðar nr. 719/2000, um undanþágu aðflutningsgjalda af aðföngum til ýmissar atvinnustarfsemi, þá beri embættinu að fallast á niðurfellingu aðflutningsgjalda á þeim tækum sem sótt var um. Kærandi telur óumdeilt að tækin falli undir ákvæði 9. gr. enda segir í ákvæðinu að tollur og vörugjald skuli felld niður eða endurgreidd af tækjabúnaði og miðlum til kvikmyndagerðar, myndbandaframleiðslu og annarrar mynd- eða hljóðvinnslu. Innflytjandi telur sig hafa sýnt nægilega fram á það að tæki þau sem sótt var um niðurfellingu aðflutningsgjalda á falli undir ákvæðið. Í kærunni er tilgreint að tæki þau sem sótt er um niðurfellingu aðflutningsgjalda á, séu að öllu leyti ætluð til almennrar kvikmyndagerðar og reksturs sjónvarpsstöðva, og falli því alfarið undir ákvæði reglugerðar nr. 719/2000, sbr. einkum 1, 2., og 9. gr. reglugerðarinnar.

Í úrskurði fjármálaráðuneytisins frá 23. janúar 2003, kemur fram að í tíð auglýsingar 617/1989 var útvarpsfyrirtækjum, sem jafnframt framleiddu myndbönd til endursölu, veittar niðurfellingar tolls og vörugjalds af aðföngum og tækjum til myndbandaframleiðslunnar. Niðurfellingar náðu samkvæmt efni sínu ekki til aðfanga eða tækja til annarrar starfsemi þessara fyrirtækja, sbr. 1., 3. og 9. gr. auglýsingarinnar. Með vísan til þessara ákvæða eldri auglýsingar var ekki heimilt að veita undanþágu frá greiðslu aðflutningsgjalda af aðföngum til hljóðvera sem sendu út dagskrá í útvarpi og sjónvarpi. Undanþágan tók til vara til þeirrar starfsemi útvarpsfyrirtækja sem laut eingöngu að framleiðslu á myndböndum eins og áður sagði. Með lögum nr. 104/2000, um álagningu gjalda á vörur, var tollalögum breytt þannig að sérstaklega var mælt fyrir um niðurfellingu, lækkun eða endurgreiðslu tolls af tækjabúnaði og miðlum sem kvikmynda- og myndbandavinnustofur og hljóðver nýta til starfsemi sinnar, sbr. 10. tölul. 6. gr. tollalaga nr. 55/1987 sbr. núgildandi 12. tl. 6. gr. laganna. Í athugasemdum greinargerðar með breytingarlögum kom fram að slík niðurfelling hafi tíðkast um árabil með vísan til ákvæðis 13. tölul. 1. mgr. 6. gr. þágildandi tollalaga. Æskilegt þótti að renna tryggari stoðum undir niðurfellinguna og vegna þess var breytingin lögð til. Auglýsing nr. 617/1989 var felld úr gildi með reglugerð nr. 719/2000. Í nýju reglugerðinni er ekki gerður samsvarandi fyrirvari um að hinar innfluttu vörur skuli ætlaðar til framleiðslu á iðnaðarvörum. Þá eru ákvæði reglugerðarinnar heldur ekki bundin við samkeppnisiðnað samkvæmt sérstakri skilgreiningu.

Fjármálaráðuneytið vísar svo til þess, í úrskurði sínum, að tilgangur hinnar nýju lagagreinar hafi verið sá að renna stoðum undir þá framkvæmd sem var viðhöfð, sbr. ofangreinda athugasemd í greinargerð. Þess vegna er mat ráðuneytisins að orðið “hljóðvinnsla” í 1. mgr. 9. gr. reglugerðarinnar beri að skýra á þann veg með hliðsjón af athugasemdum í greinargerð með lögum nr. 104/2000, að með orðinu sé átt við þá hljóðvinnslu sem fer fram við framleiðslu á áþreifanlegri vöru til endursölu, s.s. myndböndum og geisladiskum.

Embættið telur með vísan til þessa beri að skýra orðið “myndvinnsla” á sambærilegan hátt og orðið “hljóðvinnsla”, þ.e. á þann veg að með orðinu sé átt við þá myndvinnslu sem fer fram við framleiðslu á áþreifanlegri vöru til endursölu s.s. myndböndum og geisladiskum.

Það er mat embættisins, með vísan til framangreinds og upplýsinga sem fram koma um starfsemi, aðvinnslu og aðföng A. í umsóknargögnum og kærunni, að ekki sé um að ræða eiginlega framleiðslu á áþreifanlegri vöru sem ætluð er til endursölu. Ákvörðun tollstjóra byggir á því að með umsókn kæranda um niðurfellingu aðflutningsgjalda, sé ekki óskað niðurfellingar á neinum búnaði til vinnslu mynda, sbr. 9. gr. reglugerðar nr. 719/2000, um undanþágu aðflutningsgjalda af aðföngum til ýmissar atvinnustarfsemi. Því verður ekki fallist á að vörur þær sem tilgreindar eru í umsókn A. teljist til tækjabúnaðar eða miðils til kvikmyndagerðar, myndbandaframleiðslu og annarrar mynd- og hljóðvinnslu og falla því ekki undir aðföng sem njóta undanþágu gjalda skv. 1. mgr. 9. gr. reglugerðar nr. 719/2000.

Beðist er velvirðingar á því að afgreiðsla erindisins hefur tafist nokkuð.

Úrskurður:

Embætti tollstjórans í Reykjavík úrskurðar skv. 16. gr. reglugerðar nr. 719/2000, með síðari breytingum, að ákvörðun tollstjóra um að hafna umsókn kæranda um niðurfellingu aðflutningsgjalda af aðföngum til atvinnustarfsemi frá 2. október 2003, skuli standa óbreytt.

Úrskurði þessum er heimilt að skjóta til fjármálaráðuneytisins, Arnarhvoli, 150 Reykjavík og er kærufrestur 60 dagar taldir frá póstlagningardegi bréfs þessa, sbr. 2. mgr. 16. gr. reglugerðar nr. 719/2000, með síðari breytingum.

Reykjavík, 7. janúar 2004.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum