Úrskurður nr. 1/ 2008
Ákvörðun tollverðs bifreiðar
Embætti tollstjórans í Reykjavík hefur móttekið bréf
innflytjanda, A, dags. 28.11.2007,
þar sem kærð er sú ákvörðun
tollstjórans í Reykjavík, dags. 23.11.2007, að hafna framlögðum vörureikningi
innflytjanda og ákvarða tollverð
bifreiðar með fastanúmer X á grundvelli reglugerðar nr. 1100/2006. Bifreiðin
var flutt til landsins með sendingu nr.
E GOD 06 11 7 NL RTM U906.
Málavextir eru þeir að þann 07.11.2007 flutti innflytjandi til landsins ofangreinda bifreið frá Bandaríkjunum. Aðflutningsskýrsla ásamt fylgigögnum barst embættinu þann sama dag. Samkvæmt fylgigögnum er kaupverð bifreiðarinnar tilgreint að fjárhæð USD 12.215,00 og tollverð hennar ISK 873.800. Tollverðir skoðuðu bifreiðina, sem reyndist vel með farin og lýtalaus, fyrir utan það að hluti af lista hafði verið fjarlægður við framanverða hurð farþegamegin. Bifreiðin hafði verið keyrð 25.674 mílur þegar hún var flutt inn.
Með bréfi embættisins, dags. 09.11.2007, var óskað eftir frekari skýringum og gögnum af hálfu innflytjanda til rökstuðnings á kaupverði bifreiðarinnar. Sérstaklega var óskað eftir frumriti vörureiknings, yfirliti yfir gjaldeyrisyfirfærslu vegna kaupa bifreiðarinnar og ljósriti af erlendu skráningarskírteini. Einnig var óskað eftir upplýsingum um á hvaða viðskiptastigi umrædd sala fór fram. Þar sem gögn lágu ekki fyrir hjá innflytjanda á þessu stigi málsins var spurningunum í samráði við starfsmann embættisins beint til seljanda bifreiðarinnar, M frá E. T. Inc, Bandaríkjunum. Svör bárust frá honum með tölvubréfi þann 19.11.2007 þar sem hann hélt því fram að verð bifreiðarinnar væri USD
12.215 og hún væri svona ódýr þar sem að um bílaleigubifreið væri að ræða sem keypt hefði verið á uppboði, bifreiðin hefði að auki lent í minniháttar árekstri og væri mikið keyrð. Hann neitaði hinsvegar að leggja fram gögn um uppboðið og vísaði til viðskiptaleyndar sem ástæðu þess. Gögn um gjaldeyrisyfirfærslu lágu ekki fyrir á þessum tíma, þar sem skv. reikningnum skyldi bifreiðin greiðast þegar hún væri komin í hendur innflytjanda. Með kærunni var svo lagt fram tölvubréf frá G þar sem send var staðfesting á greiðslu á USD 12.215 auk USD 30 fyrir kostnaði o.fl. þann 28.11.2007. Engar upplýsingar voru gefnar um viðskiptastig og var því haldið fram að ekki væri vitað hvort um sölu til einstaklings eða fyrirtækis væri að ræða.
Með bréfi dags. 23.11.2007 var viðskiptaverði hafnað með hliðsjón af ofangreindum skýringum og meðfylgjandi gögnum og fob-verð bifreiðarinnar ákvarðað USD 28.300 með hliðsjón af verði annarrar bifreiðar af tegundinni Chrysler Town & Country við innflutning til landsins. Í ákvörðuninni kemur fram að embættinu hafi ekki borist haldbærar skýringar sem rökstyðja hið lága kaupverð bifreiðarinnar.
Í kjölfar móttöku á kæru innflytjanda sendi embætti tollstjórans í Reykjavík bréf með beiðni um frekari skýringar og gögn, dags. 12.12.2007, þar sem beðið var um frekari gögn og útskýringar á þeim staðhæfingum sem fram höfðu verið bornar, m.a. um kaupsamning, staðfestingu á miklum afslætti sem innflytjandi staðhæfði að bílaleigur veiti við sölu ársgamalla bifreiða (30-50%), greinargerð á skemmdum sem eiga að vera á bifreiðinni o.fl. Í svarbréfi dags. 14.12.2007 kom innflytjandi með þær skýringar að skriflegur viðskiptasamningur væri ekki til, þar sem gagnkvæmt traust ríki milli hans og seljanda. Hann hafi keypt og flutt inn u.þ.b tug ökutækja frá seljanda. Seljandi hafi upplýst að bifreiðin hafi verið keypt á „rental company auction“ og verksmiðjuábyrgð hafi fallið niður af þeim sökum. Eina afturfelgu vanti, bifreiðin komi á varahjólbarða og að hugsanlega væri til staðar frekari skemmd eða galli í hjólabúnaði. Kæruleysislega hafi verið gengið um bifreiðina og að um minniháttar útlitsskemmdir væri að ræða að innan og utan. Til stuðnings framburðar síns um að bílaleigur seldu ársgamla bíla vel undir markaðsverði sendi innflytjandi inn úrklippu úr Fréttablaðinu frá 10.12.2007 þar sem Hertz/Toppbílar auglýstu til sölu bifreiðar u.þ.b. 25% undir viðmiðunarverði.
Í 1. mgr. 14. gr. tollalaga nr. 88/2005 er að finna meginreglu þess efnis að tollverð innfluttrar vöru sé viðskiptaverð hennar, þ.e. það verð, sem raunverulega er greitt eða greiða ber fyrir vöruna við sölu hennar til útflutnings til landsins með þeim leiðréttingum sem leiða má af ákvæðum 15. gr. laganna. Í 1. mgr. 14. gr. tollalaga er jafnframt kveðið á um skilyrði fyrir því að viðskiptaverð vöru sé lagt til grundvallar.
Í reglugerð 1100/2006 um vörslu og tollmeðferð vöru, með síðari breytingum, er nánar fjallað um tollverð vöru.
Í 52. gr. reglugerðarinnar er ofangreind meginregla 1. mgr. 14. gr. tollalaga nánar útfærð, þ.e.a.s. að tollverð vöru sé viðskiptaverð hennar. Í eftirfylgjandi greinum reglugerðarinnar koma fram skilyrði fyrir því að viðskiptaverð vöru sé lagt til grundvallar. Í 56. gr. reglugerðarinnar kemur fram að telji tollstjóri ástæðu til að draga í efa eða staðreyna sannleiksgildi upplýsinga um viðskiptaverð geti hann krafið þann sem ber ábyrgð á viðkomandi upplýsingum um nánari skýringar eða gögn til sönnunar því að viðskiptaverðið sé réttilega tilgreint. Dragi tollstjóri sannleiksgildi upplýsinga um viðskiptaverðið í efa, þrátt fyrir framkomnar skýringar eða gögn eða ef frekari skýringar eða gögn eru ekki látin tollstjóra í té innan hæfilegs frests, verður viðskiptaverð vöru ekki lagt til grundvallar við ákvörðun tollverðs. Tollverð er þá ákvarðað skv. 57.-62. gr. reglugerðarinnar. Í 63. – 70. grein reglugerðarinnar eru svo sérákvæði vegna innflutnings ökutækja. 64. gr. reglugerðarinnar segir til um að safna skuli upplýsingum frá hlutlausum aðilum erlendis um viðmiðunarverð ökutækja og bera saman viðskiptaverð og viðmiðunarverð. Kanna skal hvort viðskiptaverð sé óeðlilega lágt. 3. mgr. 64. greinar vísar svo til 56. gr. þegar réttmæt ástæða er til að draga í efa sannleiksgildi tollskýrslu eða fylgiskjala, og þar með greinar 57.- 62.
Líkt og fram kemur í hinni kærðu ákvörðun bárust embættinu skýringar með tölvubréfi frá seljanda þann 19.11.2007. Í ákvörðun embættisins, dags. 23.11.2007 kom fram að skýringar og framlögð gögn nægja ekki til þess að rökstyðja kaupverð bifreiðarinnar. Hið sama gildir um þær útskýringar sem fengust með bréfi innflytjanda, dags. 14.12.2007.
Með hliðsjón af ofangreindum ákvæðum og með vísan til fyrirliggjandi gagna er það mat embættisins að ekki beri að leggja framlagðan reikning til grundvallar við ákvörðun tollverðs, þar sem skýringar innflytjanda og þau gögn sem hann leggur fram nægja ekki til að skýra hið lága kaupverð bifreiðarinnar. Hvorki liggur fyrir kaupsamningur um bifreiðina né heldur einhver þau gögn sem myndu staðfesta að raunverulega sé um uppboðsbifreið að ræða. Staðfesting seljanda í tölvubréfi á kaupverði og þeirri staðhæfingu að um uppboðsbifreið frá bílaleigu sé að ræða er ekki nægilegt til að sanna að svo hafi verið án frekari gagna því til staðfestingar. Þar fyrir utan voru ekki lagðar til nægjanlegar sönnur þess að bílaleigur selji ársgamlar bifreiðar á allt að 50 % lægra verði en almennt gerist. Úrklippan sem innflytjandi leggur fram sýnir aðeins fram á u.þ.b. 25% lægra verð, sem ber saman við það sem skoðun á tilboðum Hertz bílaleigunnar í Bandaríkjunum leiddi í ljós.
64. gr. reglugerðarinnar kveður á um að tollstjórinn í Reykjavík skuli safna upplýsingum frá hlutlausum aðilum erlendis um viðmiðunarverð ökutækja. 2. mgr. 64. gr. reglugerðarinnar kveður svo á um að þessar upplýsingar skuli notaðar við tollafgreiðslu og bera saman viðskiptaverð bifreiðarinnar og viðmiðunarverð ökutækja af sömu tegund, undirtegund og árgerð í því landi sem ökutækið var keypt. Kanna skal hvort viðskiptaverð sé óeðlilega lágt. Við þennan samanburð hefur tollstjórinn í Reykjavík stuðst við upplýsingar sem fram koma í The Automobile Red Book til viðmiðunar, en rit þetta er gefið út af eftirlitsaðilum bifreiðaiðnaðarins í Bandaríkjunum. Innflutta bifreiðin sem um ræðir í þessu máli er Chrysler Town & Country LMT árgerð 2006. Samkvæmt framlögðum reikningi var kaupverð bifreiðarinnar 12.215,00 USD. Viðmiðunarverð á Chrysler Town & Country LMT árg. 2006 er samkvæmt The Automobile Red Book október 2007 25.400 USD. Samkvæmt framansögðu er viðmiðunarverð í The Automobile Red Book verulega hærra en það kaupverð sem tilgreint er í framlögðum gögnum, en það víkur um u.þ.b. 48% frá því viðmiðunarverði sem fram kemur í The Automobile Red Book. Þar sem frávik eru umtalsverð miðað við meðalverð í The Automobile Red Book þá verða skýringar að vera traustar og haldgóðar ef þær á að leggja til grundvallar, sbr. úrskurður ríkistollanefndar nr. 9/2005. Úrskurðir Ríkistollanefndar eru aðgengilegir hjá nefndinni sjálfri. Einnig má geta þess að rannsökuð voru tilboð á vefnum, m.a. á http://www.ebay.com, þar sem kom í ljós að sambærilegir bílar eru seldir á u.þ.b. 17.500 – 22.000 USD.
Í 56. gr. reglugerðar nr. 1100/2006 um vörslu og tollmeðferð vöru með síðari breytingum er vísað í 57.- 62. gr.; sbr. 64.gr reglugerðarinnar. Þar er mælt fyrir um hvernig tollverð vöru skuli ákveðið þegar viðskiptaverð vöru verður af einhverjum ástæðum ekki lagt til grundvallar. Meginreglan er sú að leggja skuli til grundvallar viðskiptaverð sams konar vöru á sams konar viðskiptastigi, sem seld er eða flutt inn á sama eða svipuðum tíma og varan sem verið er að virða, sbr. 57. grein reglugerðarinnar.
Í samræmi við 2. mgr. 57. gr. reglugerðarinnar hefur embættið, við innflutning notaðra bifreiða, gert könnun á því hvort sambærilegar bifreiðar (bifreiðar sömu tegundar, undirtegundar og árgerðar) hafi verið fluttar inn á sama eða svipuðum tíma, þ.e.a.s. í þeim tilvikum sem embættið telur að ekki sé hægt að styðjast við framlagða reikninga. Við ákvörðun fob-verðs bifreiðarinnar var innflutningur bifreiða af sömu tegund, undirtegund og árgerð kannaður og fannst ein sambærileg bifreið þegar miðað er við árgerð, tegund og undirtegund og fob-verð, hér 28.300 USD, ákvarðað út frá henni. Sú yfirsjón varð við rannsóknina að bifreiðin sem miðað var við var flutt inn í janúar 2006, þá ný, svo hún getur ekki talist sambærileg vegna þess hvenær hún var flutt inn. Eins eru ökutækin ekki sambærileg, þar sem viðmiðunarbifreiðin var ný, en sú sem hér um ræðir hefur verið keyrð rúmar 25.000 mílur. Með þessu hefur ákvæðum 2. mgr. 57 gr. reglugerðarinnar ekki verið fylgt eins og vera skyldi.
Innflutningur hefur þess vegna verið kannaður á tímabilinu ágúst 2007 – nóvember 2007. Engin sambærileg bifreið fannst svo að embætti tollstjórans í Reykjavík telur að í þessu tilviki sé ekki unnt að beita ákvæðum 57. – 62. greinar reglugerðarinnar.
Samkvæmt 65. grein reglugerðarinnar skal við ákvörðun tollverðs skv. 62. gr. reglugerðarinnar, tollverð vera viðmiðunarverð nýs ökutækis af sömu tegund og undirtegund eins og það er tilgreint í bifreiðaskrá ríkisskattstjóra þegar ekki reynist unnt að ákvarða tollverð ökutækis á grundvelli 14. gr. tollalaga eða 57.-
61. gr. reglugerðarinnar. Tegundin Chrysler er þó ekki til í bifreiðaskrá ríkisskattstjóra svo ekki er hægt að ákvarða eftir 65. gr. reglugerðarinnar. Í slíkum tilfellum kveður 68. gr. reglugerðarinnar á um að ákvarða skuli líklegt útsöluverð nýs ökutækis af þeirri tegund sem flutt er inn, og tollverð reiknað út skv.
66. gr. reglugerðarinnar.
Aflað hefur verið verðmats á slíkri bifreið sem hér um ræðir hjá B ehf. Þar var útsöluverð á nýrri bifreið metið á u.þ.b. 3.650.000 – 3.800.000 og fékkst það með eftirfarandi reikningi:
Fob-verð um 25.000 USD x 64 = 1.600.000
Flutningur samtals 250.000,
Tollur 833.000,
Söluþóknun 350.000,
Vsk. 743.000.
Samtals 3.776.000 kr.
Út frá þessu mati var gengið og tollverð svo útreiknað miðað við ákvæði 66. gr. reglugerðarinnar, en skv. henni skal afreiknaður virðisaukaskattur, álagning seljanda sem skal áætluð 12%, vörugjald, svo og áætlaða fjárhæð gjalda þeirra sem innifalin eru í tollverði skv. b-lið 2. mgr. 15. gr. tollalaga. Skv. 2. mgr.
66. gr. var svo útreiknuð fyrning bifreiðarinnar sem er 1,5 % fyrir hvern byrjaðan mánuð í 12 mánuði, 1% fyrir næstu 24 mánuði og 0,5 % fyrir hvern mánuð eftir það þar til náð hefur verið 90% fyrningu sem er hámarksfyrning. Samkvæmt þessum útreikningi reiknast tollverð 1.378.698 ISK.
Embætti tollstjórans í Reykjavík telur að ekki beri að leggja framlagðan reikning til grundvallar við ákvörðun tollverðs með hliðsjón af því að framkomnar skýringar innflytjanda nægja ekki til þess að skýra hið lága kaupverð bifreiðarinnar. Af fyrirliggjandi gögnum er ljóst að reikningsverð bifreiðarinnar er verulega lægra en markaðsverð sambærilegra bifreiða. Við útreikning tollverðs bifreiðarinnar reyndist ekki unnt að beita ákvæðum 57.-61. gr. reglugerðar 1100/2005 af ofangreindum ástæðum. Með hliðsjón af framansögðu er það mat embættisins að tollverð bifreiðarinnar X skuli reiknað eftir ákvæðum 68. og 66. gr. reglugerðarinnar og endurreiknast tollverð hennar 1.378.698 ISK.
Úrskurðarorð:
Embætti tollstjórans í Reykjavík úrskurðar með vísan til þess sem rakið er hér að framan að ákvörðun tollstjórans í Reykjavík um tollverð bifreiðar með fastanúmer X er staðfest að þeim hluta til er varðar að reikningsverð verði ekki lagt til grundvallar við útreikning tollverðs. Tollverð bifreiðarinnar er úrskurðað á 1.378.698 ISK.
Úrskurður þessi er kæranlegur til Ríkistollanefndar, Skúlagötu 57, 150 Reykjavík og er kærufrestur 60 dagar frá póstlagningu úrskurðar, sbr. 1. mgr. 118 gr. tollalaga nr. 88/2005 með síðari breytingum.