Úrskurðir tollgæslustjóra

Úrskurður nr. 1/2010

Tollflokkun á hlaupabrautaefni, SporTrack frá Mondo

27.4.2010

Í dag var hjá Tollstjóra kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R

Kæruefni: Tollflokkun á hlaupabrautaefni, SporTrack frá Mondo.

Með bréfi, dags. 28. september 2009, hefur ehf. kt., kært skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005 þá ákvörðun Tollstjóra frá 20. maí 2009 að tollflokka beri sendingu L WIC 17 05 9 NL RTM L524 í tnr. 4008.2101. Kærandi krefst þess að sendingin verði tollflokkuð í tnr. 4008.2109.

II. Málsmeðferð.

Umrædd sending var tollflokkuð af tollmiðlarafyrirtækinu ehf. þann 20. maí

2009. Forsvarsmenn innflytjanda voru ósammála tollflokkun fyrirtækisins sem tollflokkaði sendinguna í tnr. 4008.2101. Innflytjandi hafði því samband við embætti Tollstjóra þann 8. september sl. og óskaði eftir bindandi áliti um tollflokkun vörunnar. Var innflytjanda þá bent á að leggja inn kæru vegna málsins þar sem tollafgreiðsla á vörunni hafði þegar farið fram. Kæran barst embætti Tollstjóra þann 30. september 2009.

III. Meginröksemdir kæranda.

Kærandi lýsir umræddri vöru í kærunni en þar segir að uppistaða sendingarinnar er hlaupabrautarefni (SporTrack frá Mondo) sem sérsniðið er eftir teikningum af Þórsvelli á Akureyri. Hver rúlla er sérsniðin og ætluð á ákveðinn stað á vellinum. Kærandi telur að varan geti engan veginn flokkast undir gólfefni þar sem yfirborð efnisins er mjög gróft og hrjúft og hentar því eingöngu þar sem notaðir eru gaddaskór. Því telur kærandi að tollflokka eigi SporTrack efnið undir tnr. 4008.2109 sem Plötur, blöð, ræmur, stengur og prófílar, úr vúlkaníseruðu gúmmíi, þó ekki harðgúmmíi: - Úr öðru en holgúmmíi.: -- Plötur blöð og ræmur: --- Annað. Ennfremur benti kærandi á að vörur sem falla í tollflokk 4008.2101 bera 15% vörugjald en ef flutt er inn EPDM (ethylene propylene diene monomer) efni til lagningar á hlaupabrautum þá bera vörur sem falla í tollflokk 4002.7000, Etylen-própylen-ótengtdíen gúmmí (EPDM), ekki 15% vörugjald. Kærandi telur að um mismunun sé að ræða þar sem SporTrack efnið frá Mondo er mun dýrara í innkaupum en EPDM og því ekki samkeppnishæft vegna verðmunar. Nánari lýsing á efni og eiginleikum SporTrack fylgdu með kæru, ásamt sýnishorni vörunnar.

IV. Niðurstöður

Sendingin var tollafgreidd þann 20. maí 2009. Samkvæmt 117. gr. tollalaga þá er kærufrestur 60 dagar frá tollafgreiðsludegi og var því kærufrestur liðinn þegar kæran barst Tollstjóra þann

30. september 2009. Innflytjandi hafði samband við embætti Tollstjóra þann 8. september 2009 og óskaði eftir bindandi áliti um tollflokkun vörunnar. Var innflytjanda þá bent á að leggja inn kæru vegna málsins þar sem tollafgreiðsla á vörunni hefði þegar farið fram. Í 2. mgr. 142. gr. eldri tollalaga nr. 55/1987 kom fram að Tollstjóra væri ekki skylt að verða við beiðni um bindandi tollflokkun ef varan hefði þegar verið tollafgreidd. Í 21. gr. tollalaga nr. 88/2005 sem kveður á um bindandi álit um tollflokkun er ekki að finna sambærilegt ákvæði. Af þessum sökum hefði Tollstjóri átt að veita kæranda bindandi álit þrátt fyrir að tollafgreiðsla vörunnar hefði þegar farið fram. Þar sem kærandi fékk rangar leiðbeiningar og með hliðsjón af því að afgreiðsla erindis þessa hefur dregist hjá embættinu hefur embætti Tollstjóra ákveðið að taka umrædda kæru til úrskurðar þrátt fyrir að kærufrestur samkvæmt 117. gr. tollalaga er liðinn.

Ágreiningur í þessu máli snýst um tollflokkun vörunnar gólfefni í sendingu L WIC 17 05 9 NL RTM L524. Efnið sem um ræðir er úr tveimur lögum af vulcaniseruðu gúmmí, samkvæmt upplýsingum framleiðanda og með hliðsjón af sýnishorni sem liggur fyrir.

Yfirborðið er með grófri áferð til að varna því að íþróttamenn hrasi síður. Undirlagið er mynstrað með djúpu reglulegu mynstri til að skapa mýkt og sveigjanleika.

Lögbundið er að færa skal vöru til tollflokks samkvæmt almennum reglum um túlkun tollskrárinnar en tollskráin er birt í viðauka I við tollalög nr. 88/2005 og er gerð í samræmi við vörunúmeraskrá Alþjóða tollstofnunarinnar. Reglur um túlkun skrárinnar eru birtar fremst í skránni. Meginreglan er sú að tollflokkun skal byggð á orðalagi vöruliða og athugasemda við viðeigandi kafla og flokka skv. túlkunarregla 1. Einnig skal flokkun vara í undirliði einstakra vöruliða byggð á orðalagi undirliða og sérhverri tilheyrandi athugasemd við undirliði skv. túlkunarreglu 6.

Í athugasemd nr. 9 við kafla 40 er lýst þeim vörum sem m.a. geta fallið í vörulið 4008. Þar segir að: ,,Sem plötur, blöð og ræmur í nr. 4001, 4002, 4003, 4005 og 4008 teljast einungis plötur, blöð og ræmur og blokkir reglulegt að lögun, óskorið eða aðeins skorið í rétthyrnda lögun (þar með talið ferningslaga), einnig að gerð sem tilbúnar vörur og einnig áprentað eða yfirborðsunnið á annan hátt, en ekki skorið í aðra lögun eða frekar unnið“.

Eins og fram kemur hjá kæranda og í öðrum gögnum málsins er efnið tilsniðið eftir máli fyrir hlaupabrautina á Þórsvelli á Akureyri, auk annarrar aðstöðu s.s. atrennur fyrir stökkgreinar. Af þessum ástæðum álítur embættið að varan standist ekki athugasemd nr. 9 við kafla 40. Undirlagið er augljóslega unnið umfram það sem gert er ráð fyrir í athugasemdinni. Með hliðsjón af ofangreindu kemur hvorki til greina að tollflokka vöruna í tnr. 4008.2109, eins og kærandi krefst, né í tnr. 4008.2101 eins og varan var flokkuð við tollafgreiðslu.

Íþróttavöllur telst til mannvirkis og því er það niðurstaðan embættisins, með hliðsjón af túlkunarreglum 1, 2.a, og 6 að varan tollflokkist í tnr. 4016.9918 sem ,,Aðrar vörur úr vúlkaníseruðu gúmmíi, þó ekki harðgúmmíi: - Aðrar --Annars: --- Plötur, ræmur, stengur, prófílar, leiðslur, hlutar o.þ.h., tilsniðið til notkunar í mannvirki.“ Túlkunarregla 2a felur m.a. í sér að þegar talað er um tilteknar vörur í vörulið tekur það einnig til ófullgerðra vara svo sem hér um ræðir.

Með vísan til ofangreinds er ákvörðun Tollstjóra þann 30. september 2009 um að tollflokka vöruna gólfdúkur í sendingu L WIC 17 05 9 NL RTM L524 í tnr. 4008.2101 felld úr gildi og úrskurðað að flokka beri vöruna í tnr. 4016.9918 á grundvelli túlkunarreglna tollskrárinnar. Enginn gjaldamunur er á tollskrárnúmerum 4008.2101 og 4016.9918 þar sem vörur úr báðum tollskrárnúmerum bera 15% vörugjald. Ákvörðunin leiðir því ekki til breytinga á aðflutningsgjöldum.

Samlíking kæranda við EPDM á ekki við í þessu samhengi en það er fyrst og fremst ætlað til að þétta þök. EPDM er ekki vulkaniserað efni og flokkast því í vörulið 4002.

Ekki er hægt að taka til greina þær kröfur kæranda að gjaldamunur sé á þeim tollflokki sem EPDM efni til lagningar á hlaupabrautum flokkast í og á þeim tollflokki sem hlaupabrautarefnið SporTrack frá Mondo flokkast í. Tollyfirvöldum ber skylda til þess að tollflokka vörur í tollskrárnúmer í samræmi við texta tollskrár og túlkunarreglna tollskrár, óháð því hvaða gjöld leggjast á vörur í hverjum tollflokki.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Embætti Tollstjóra úrskurðar skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005, með síðari breytingum, að ákvörðun Tollstjóra þann 30. september 2009 er felld úr gildi. Tollflokka ber vöruna gólfdúkur í sendingunni LWIC 17 05 9 NL RTM L524 í tnr. 4016.9918 á grundvelli túlkunarreglna 1., 2.a og 6. almennu túlkunarreglna tollskrár.

Kæruréttur

Úrskurðinum er heimilt að skjóta til Ríkistollanefndar, Skúlagötu 57, Reykjavík, innan 60 daga frá póstlagningardegi bréfs þessa, sbr. 1. mgr. 118. gr. tollalaga.

Virðingarfyllst,

f.h. Tollstjóra

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum