Úrskurðir tollgæslustjóra

Úrskurður nr. 1/2012.

Höfnun umsóknar um endurgreiðslu vörugjalds vegna breytingar bifreiðar til nýtingar metangass.

26.1.2012

Í dag var hjá Tollstjóra kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R

I. Kæra

Með bréfi, dags. 27. desember 2011, hefur Á, kært til úrskurðar skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005 ákvörðun Tollstjóra, dags. 26. september 2011, um höfnun umsóknar um endurgreiðslu vörugjalds af bifreiðinni X vegna breytingar til nýtingar metangass sem orkugjafa, sbr. 27. gr. laga nr. 29/1993 um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. Breytingin var gerð þann 16. september 2011. Kærandi krefst þess að vörugjald að upphæð kr. 100.000.- verði endurgreitt í samræmi við umsókn þar um.

II. Málsmeðferð

Bifreiðin X af gerðinni Lexus RX300 árgerð 2005 var flutt inn ný frá Japan árið 2005 og nýskráð á Íslandi þann 12. apríl 2005. Kærandi eignaðist bifreiðina þann 11. júní 2010. Þann 16. september 2011 var bifreiðinni breytt þannig að settur var í hana búnaður sem gerir henni kleift að nýta bæði metangas og bensín sem orkugjafa. Með umsókn dags. 23. september 2011 sótti kærandi um endurgreiðslu vörugjalds að fjárhæð kr. 100.000.- vegna þeirrar breytingar sem gerð hafði verið. Með bréfi dags. 26. september 2011 hafnaði embætti Tollstjóra umsókn kæranda um endurgreiðslu. Þessari ákvörðun mótmælti kærandi með kæru, dags. 27. desember 2011.

III. Meginröksemdir kæranda

Kærandi telur skilyrði fyrir endurgreiðslu vera uppfyllt, þar sem bifreiðin sé framleidd árið 2005 og breytingin hafi í raun verið framkvæmd þann 4. apríl 2011 en ekki þann 16. september 2011 líkt og kom fram á framlögðum reikningi sem fylgdi umsókn um endurgreiðslu vörugjalds. Bifreiðin hafi þar með verið yngri en 6 ára við breytingu. Kærandi kvað ástæða þess að umsókn og skráning hjá Umferðarstofu hefði dregist vera þá að metankútur hafi ekki verið rétt staðsettur eftir hans ósk. Þrátt fyrir það hafi búnaðurinn virkað frá og með 4. apríl 2011. Kærandi heldur því fram að ekki skipti máli hvenær breytingin var skráð hjá Umferðarstofu heldur geri lögin ráð fyrir að einungis sé miðað við þá dagsetningu sem breytingin sjálf átti sér stað.

IV. Niðurstaða

Greiða skal í ríkissjóð vörugjald af ökutækjum sem skráningarskyld eru skv. umferðarlögum nr. 50/1987 o.fl. samkvæmt 1. gr. laga nr. 29/1993 um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. Gjaldskyldan nær til allra skráningarskyldra ökutækja, nýrra sem notaðra, sem flutt eru til landsins eða eru framleidd, unnið að eða sett saman hér á landi, sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 29/1993. Vörugjald af innfluttri vöru skal skv. 22. gr. innheimt við tollafgreiðslu, sbr. þó greiðslufrest skv. 23. gr. laganna.

Með lögum nr. 165/2010 var m.a. sett nýtt ákvæði nr. XIII til bráðabirgða í lögum nr. 29/1993. Ákvæðið tók gildi 1. janúar 2011. Fyrrgreint ákvæði veitir Tollstjóra heimild til að endurgreiða vörugjald af ökutækjum sem hefur verið breytt þannig að ökutækið nýtir metan í stað bensíns eða dísilolíu og hefur verið skráð sem slíkt hjá Umferðarstofu, sbr. 1. mgr. ákvæðisins. Í 2. mgr. ákvæðisins er kveðið á um að fjárhæð endurgreiðslu vörugjalds skuli vera 20% af kostnaði við breytinguna samkvæmt reikningi breytingaverkstæðis en þó ekki hærri en kr. 100.000.-. Auk þess skal vörugjald aðeins endurgreitt ef ökutæki er yngra en sex ára við breytingu, miðað við framleiðsluár og útbúið að lágmarki 78 lítra metangeymi.

Endurgreiðsla vörugjalds er einvörðungu heimil ef bifreið uppfyllir ofangreind skilyrði. Bifreiðin var skráð með nýtingu bensíns og metangas hjá Umferðarstofu þann 22. september 2011 og við breytingu var settur í hana metangeymir sem rúmar meira en 78 lítra af metangasi, sbr. upplýsingar frá Umferðarstofu. Þá er það er skilyrði að ökutæki sé yngra en sex ára við breytingu, miðað við framleiðsluár. Bifreiðin var forskráð hjá Umferðarstofu þann

18. febrúar 2005 og nýskráð þann 12. apríl sama ár. Innflutningsástand bifreiðarinnar var samkvæmt skráningu nýtt. Þar sem ekki liggja fyrir gögn sem benda til annars þykir rétt að miða framleiðsluár við árið 2005. Bifreiðin var skoðuð af faggiltum skoðunaraðila þann 22. september 2011 og í kjölfarið var fengin staðfesting frá Umferðarstofu fyrir því bifreiðinni hefði verið breytt til þess að nýta metan gas. Kærandi hefur viðurkennt að ákveðnar breytingar hafi verið nauðsynlegar áður en hægt var að fá vottorð frá Umferðarstofu þar sem metankútur hafi verið rangt staðsettur. Kærandi hefur lagt fram tvo reikninga fyrir metanbreytingu annars vegar frá 4. apríl 2011 og hins vegar 16. september sama ár þegar metankútur var rétt staðsettur. Samkvæmt skýru orðalagi bráðabirgða ákvæðis laga nr. 29/1993 er rétt að miða við dagsetningu vottorðs Umferðarstofu og skoðunar faggilts skoðunaraðila þ.e.a.s. 22. september 2011. Það þýðir að bifreiðin var orðin sex ára þegar endanleg breyting var gerð á henni í september 2011. Eins og fram hefur komið hér að ofan er skilyrði endurgreiðslu að bifreiðin sé yngri en sex ára þegar breyting er gerð. Skilyrði fyrir endurgreiðslu vörugjalds eru því ekki uppfyllt. Engin heimild er til staðar til að fallast á umsókn kæranda um endurgreiðslu skv. XIII. ákvæði til bráðabirgða í lögum nr. 29/1993.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Embætti Tollstjóra úrskurðar skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005, sbr. 27. gr. laga nr. 29/1993 um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., með vísan til þess sem rakið er hér að framan að ákvörðun um höfnun umsóknar um endurgreiðslu vörugjalds af ökutækinu X vegna breytingar til nýtingar metangass, dags. 26. september 2011, er staðfest.

Kæruréttur

Úrskurðinum er heimilt að skjóta til Ríkistollanefndar, Skúlagötu 57, Reykjavík, innan 60 daga frá póstlagningardegi bréfs þessa, sbr. 1. mgr. 118. gr. tollalaga.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum