Úrskurðir tollgæslustjóra

Úrskurður nr. 1/2013

Tollflokkun á Dolly Fisher Model 11, sem notað er við kvikmyndagerð

15.2.2013

Í dag var hjá embætti Tollstjóra kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R

I. Kæra

Með bréfi, dags. 3. janúar 2013, hefur P, f.h. S hf., kt. 541298-3049, kært til úrskurðar skv.

117. gr. tollalaga nr. 88/2005, tollflokkun Tollstjóra á Dolly Fisher Model 11, sem er tæki notað til kvikmyndagerðar.

Kærandi krefst þess að ákvörðun Tollstjóra, dags. 2. ágúst 2012, verði breytt og ný afgreiðsla gerð þar sem aðflutningsgjöld verða felld niður.

II. Málsmeðferð

Þann 25. júlí 2012 flutti kærandi inn hingað til lands sendingu með sendingarnúmerið E REY 25 07 2 US ORF L568, sem innihélt Dolly Fisher Model 11 tæki sem ætlað er til notkunar við kvikmyndagerð. Sendingin var tollafgreidd þann 2. ágúst 2012 með SMT- tollafgreiðslu og var varan tollflokkuð í tollskrárnúmer 8716.8009 sem tengivagnar annars.

Kærandi kærði ofangreinda ákvörðun Tollstjóra um tollflokkun vörunnar með bréfi dags. 3. janúar 2013, þar sem farið er fram á að varan skuli flokkast í tollskrárnúmer 9007.2009 sem hlutir og fylgihlutir kvikmyndavéla. Tollstjóri sendi kæranda bréf dags. 9. janúar 2013 þar sem kæranda var tilkynnt um móttöku erindisins og óskað var eftir frekari gögnum og upplýsingum um eiginleika tækisins sem um ræðir. Tollstjóra bárust umbeðnar upplýsinar með tölvupósti þann 20. janúar 2013.

Þess ber að geta að þrátt fyrir að kæra hafi borist embættinu að liðnum kærufresti skv. 117. gr. tollalaga mun Tollstjóri engu að síður taka málið til úrskurðar þar sem leiðbeiningar um kæruheimild var ábótavant. Með vísan til 1. tl. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er stjórnvaldi heimilt að taka kæru til meðferðar þegar afsakanlegt verður talið að kæra hafi ekki borist innan kærufrests.

III. Meginröksemdir kæranda

Kærandi heldur því fram að tækið sem um ræðir sé sérútbúið fyrir kvikmyndageirann. Tækið er til að setja undir kvikmyndavélar og keyra þær á braut. Kærandi mótmælir því að tækið hafi verið flokkað í tollskrárnúmer 8716.8009 sem tengivagnar annars og telur að það eigi heima undir tollskrárnúmeri 9007.2009 sem hlutir og fylgihlutir kvikmyndavéla. Óskar kærandi eftir því að tollflokknum verði breytt og gerð verði ný afgreiðsla á sendinguna þar sem kærandi fái niðurfellingu aðflutningsgjalda.

IV. Niðurstöður

Ágreiningur í máli þessu er um tollflokkun á tæki sem nefnist Dolly Fisher Model 11, sem ætlað er að bera kvikmyndavélar við kvikmyndatökur. Tækið er hannað til aksturs á braut, en þó er unnt að aka því á sléttu undirlagi. Þetta er einhvers konar handvagn sem ekið er með handafli. Á vagninum er bóma sem knúin er af glussa lyftibúnaði sem er sérhannaður þannig að festing er á enda bómunnar fyrir kvikmyndavél. Hámarkslyftihæð bómunnar er tæplega 130 sm, í lægstu stöðu er bóman í um 7 sm hæð. Glussakerfið er knúið af innbyggðum rafmótor. Á vagninum er stýribúnaður fyrir bómu og sæti fyrir tökumann og aðstoðarmann ef þörf krefur. Allt myndar þetta eina órjúfanlega heild.

Samkvæmt túlkunarreglu 1 við tollskrá skal tollflokkun byggð á orðalagi vöruliða og athugasemda við tilheyrandi flokka og kafla í tollskránni. Beita má öðrum túlkunarreglum ef það brýtur ekki í bága við orðalag vöruliða og athugasemda. Athugasemd 3 við flokk XVI skýrir hvernig tollflokka skal vörur sem hannaðar eru til að framkvæma tvö eða fleiri verkatriði, saman eða sér. Þá skal flokka tækin eins og eingöngu væri um að ræða þann vélarhluta sem gegnir höfuðhlutverkinu. Við 90. kafla er athugasemd 3 efnislega samhljóðandi og áðurgreind athugasemd.

Embætti Tollstjóra telur það liggja í hlutarins eðli að lyftibúnaður tækisins gegnir meginhlutverki búnaðarins. Handvagninn er eingöngu ætlaður til að flytja búnaðinn úr stað. Í vörulið 8428 er talað um annan búnað til lyftinga, meðhöndlunar og losunar. Embættið telur því að tollflokka beri vöruna með vísan til túlkunarreglu 1 og 6 og með hliðsjón af ofangreindum athugasemdum.

Þá bendir embætti Tollstjóra til tveggja úrskurða frá Þýskalandi, skv. Binding Tarriff Information (BTI), þar sem úrskurðað var að samskonar búnaður (Camera Dollies) er tollflokkaður í vörulið 8428. Nánar tiltekið eru tækin þar flokkuð í HS nr. (e. harmonized system) 8428.90, en íslenska tollskráin byggist á því kerfi samkvæmt alþjóðasamningum þar um. BTI er gagnagrunnur með bindandi álitum ýmissa landa Evrópusambandsins sem ætlað er að aðstoða við rétta tollflokkun.

Með vísan til alls ofangreinds þá telur embætti Tollstjóra að umrætt tæki skuli flokkast í tollskrárnúmer 8428.9009, með vísan í túlkunarreglu 1 og 6 við tollskránna og með hliðsjón af athugasemd 3 við flokk XVI.

ÚRSKURÐARORÐ

Embætti Tollstjóra úrskurðar skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005, með vísan til þess sem rakið er hér að framan að ákvörðun Tollstjóra dags. 2. ágúst 2012, um tollflokkun tækisins Dolly Fisher Model 11 sem barst hingað til lands með sendingu með sendingarnúmerið E REY 25 07 2 US ORF L568 skuli breytt á þann veg að tækið skal flokkast í tollskrárnúmer 8428.9009.

Kæruréttur

Úrskurðinum er heimilt að skjóta til Ríkistollanefndar, Skúlagötu 57, Reykjavík, innan 60 daga frá póstlagningardegi bréfs þessa, sbr. 1. mgr. 118. gr. tollalaga.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum