Úrskurðir tollgæslustjóra

Úrskurður nr. 1/2014.

Höfnun beiðni um niðurfellingu aðflutningsgjalda af gjöf

5.3.2014

Í dag var hjá Tollstjóra kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R

I. Kæra

Með bréfi, dags. 16. janúar 2014, hefur K kært til úrskurðar skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005 ákvörðun Tollstjóra, dags. 15. janúar 1014, um höfnun niðurfellingar aðflutningsgjalda af vörusendingu nr. CC583096175DK.

Kærandi krefst þess að álögð gjöld verði felld niður þar sem umrædd sending sé undanþegin aðflutningsgjöldum á grundvelli a-liðar 8. tl. 1. mgr. 6. gr. tollalaga.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Þann 14. janúar 2014 barst hingað til lands vörusending nr. CC583096175DKsem innihélt spilið „Small World“. Varan var sett inn á lager fyrir ótollafgreiddar vörur hjá Tollpóstinum, Stórhöfða 32, 110 Reykjavík. Skráður móttakandi vörunnar var K en skráður sendandi var Papskubber frá Danmörku. Tilskilin gjöld vöru lögð á umrædda vöru við komu hingað til lands. Móttakanda var send tilkynning um sendinguna en þar sem hann taldi sig ekki þurfa að greiða álögð gjöld var sendingin færð aftur á lager fyrir ótollafgreiddar vörur, þar sem hún bíður. Ákvörðun Tollstjóra um álagningu aðflutningsgjalda var kærð með bréfi kæranda, dags. 16. janúar 2014

III. Meginröksemdir kæranda

Kærandi telur að um gjaldfrjálsan innflutning hafi verið að ræða þar sem sendingin hafi verið jólagjöf og því hafi honum ekki borið að greiða álögð aðflutningsgjöld af vörusendingunni. Telur kærandi að öll rök hnígi til þess að gjöfin falli undir a-lið 8. mgr. 6. gr. tollalaga og að öll skilyrði þess ákvæðis séu uppfyllt. Gjöfin sé frá áhugamannasamtökunum Papskubber sem séu með aðsetur í Danmörku, gjöfin sé jólagjöf, gjöfin sé ekki í atvinnuskyni þar sem Papskubber séu áhugamannasamtök sem gefi jólagjafir sem þessar í kynningar- og útbreiðsluskyni en selji ekki spil eins og sendingin innihélt og að verðmæti gjafarinnar sé um eða innan við 8000 kr. Krefst kærandi þess að álögð gjöld verði felld niður þar sem umrædd sending sé undanþegin aðflutningsgjöldum á grundvelli a-liðar 8. tl. 1. mgr. 6. gr. tollalaga. Í kæru kemur auk þess fram að á heimasíðu Tollstjóra, www.tollur.is, og í samskiptum kæranda við Tollstjóra hafi komið fram sú túlkun að tengsl í einkalífi þurfi að vera á milli gefanda og þiggjanda. Ekki sé þó hægt að lesa nein slík skilyrði úr a-lið 8. tl. 1. mgr. 6. gr. tollalaga heldur aðeins að gjöfin skuli ekki vera gefin í atvinnuskyni.

IV. Niðurstöður

Í 3. gr. tollalaga er kveðið á um almenna tollskyldu, þ.e. að hver sem flytur vöru til landsins til endursölu, afhendingar án endurgjalds eða eigin nota eða verður ábyrgur fyrir greiðslu tolla samkvæmt ákvæðum tollalaga er tollskyldur og skal greiða toll af hinni innfluttu vöru, nema annað sé tekið fram í tollskrá. Meginreglan er því sú að greiða skal aðflutningsgjöld af öllum vörum sem fluttar eru til landsins.Ágreiningur í máli þessu stendur um það hvort tilgreind sending skuli vera undanþegin aðflutningsgjöldum á þeirri forsendu að um gjöf sé að ræða sem uppfylli skilyrði tollalaga um tollfrelsi.Í a-lið 8. tl. 1. mgr. 6. gr. tollalaga er kveðið á um undanþágu frá almennri tollskyldu þegar um gjafir er að ræða. Undanþágan er nánar útfærð í 32. gr. reglugerðar nr. 630/2008. Til að þessi undanþáguheimild hafi gildi þurfa skilyrði áðurnefndra greina að vera uppfyllt en þau ber að túlka þröngt líkt og aðrar undanþágur frá almennri tollskyldu. Skilyrði ofangreindrar undanþágu er að um gjöf af sérstöku tilefni sé að ræða.Sending þarf að bera það með sér að um sé að ræða gjöf frá aðila búsettum erlendis vegna tilefna sem tengjast einkalífi. Gjafir vegna afmælis, brúðkaups, jóla eða fermingar teljast meðal annars vera gjafir af sérstöku tilefni í þessu samhengi. Þá má verðmæti gjafa ekki vera meira en 13.500 kr. Sé verðmæti gjafar meira en 13.500 kr. skal gjöf þó einungis tollskyld að því marki sem hún er umfram þá fjárhæð að verðmæti.

Allar undantekningar frá almennri toll- og skattskyldu eru háðar þröngri túlkun og ríkar kröfur eru gerðar til þess að skilyrðum þeirra sé ótvírætt fullnægt. Af aðflutningsskjölum og kæru er ljóst að skráður sendandi vörunnar er Papskubber sem er lögaðili. Í framkvæmd hefur a-liður 8. tl. 1. mgr. 6. gr. tollalaga og 32. gr. reglugerðar nr. 630/2008 ávallt verið túlkuð á þann veg að með orðunum „aðili búsettur erlendis“ sé eingöngu átt við einstaklinga. Meðal annars felst það í orðinu „búsettur“ að þar er átt við einstakling enda er búseta ekki notuð um fyrirtæki og lögaðila heldur fremur „aðsetur“.

Með vísan til þess teljast skilyrði til niðurfellingar aðflutningsgjalda, skv. a-lið 1.mgr. 6. gr. tollalaga, sbr. 32. gr. reglugerðar nr. 680/2008, af vöru í sendingu nr. CC583096175DK ekki uppfyllt.


Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Embætti Tollstjóra úrskurðar, skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005, með vísan til þess sem rakið er hér að framan að ákvörðunum höfnun á niðurfellingu aðflutningsgjalda af sendingu nr. CC583096175DK skuli staðfest.

Kæruréttur

Úrskurðinum er heimilt að skjóta til ríkistollanefndar, Skúlagötu 57, Reykjavík, innan 60 daga frá póstlagningardegi bréfs þessa, sbr. 1. mgr. 118. gr. tollalaga.

Virðingarfyllst,

f.h. Tollstjóra


Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum