Úrskurðir tollgæslustjóra

Úrskurður nr. 1/2019

20.2.2019

Reifun

A kærði ákvörðun Tollstjóra um tollflokkun tveggja bifreiða af gerðinni ISUZU D MAX í tollskrárnúmer 8704.2138, með skráða koltvísýringslosun á bilinu 201-225 g/km, og beri 55% vörugjald. A krafðist þess að bifreiðarnar yrðu flokkaðar sem grindarbílar sem búið sé að bæta við vöruflutningsrými í tollskrárnúmer 8704.2199, og beri 13% vörugjald.

Niðurstaða

Ákvörðun Tollstjóra dags. 17. desember 2018 um tollflokkun tveggja bifreiða af tegundinni ISUZU D MAX í tollskrárnúmer 8704.2138 var felld úr gildi. Fallist var á kröfu kæranda um að flokka skuli bifreiðarnar í tollskrárnúmer 8704.2199 , sem grindarbíla sem búið er að bæta við vöruflutningsrými með 13% vörugjaldi, í samræmi við h-lið 2. tl. 4. gr. vörugjaldslaga nr. 29/1993.

Í dag var hjá embætti Tollstjóra kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R

Kæruefni: Tollflokkun tveggja bifreiða af gerðinni ISUZU D MAX.

I. Kæra

Með bréfi, dags. 4. janúar 2019, hafa B fyrir hönd A, kært til úrskurðar skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005 ákvörðun Tollstjóra, dags. 20. desember 2018, um tollflokkun á tveimur bifreiðum af gerðinni ISUZU D MAX með skráningarnúmerið Z og Y.

Kærandi mótmælir ákvörðun Tollstjóra um að bifreiðirnar skuli flokkast í tollskrárnúmer 8704.2138, sem bifreið með skráða koltvísýringslosun á bilinu 201-225 g/km, og beri 55% vörugjald. Kærandi krefst þess að bifreiðarnar beri 13% vörugjald sem grindarbíll sem búið sé að bæta við vöruflutningsrými, í samræmi við tollskrárnúmer 8704.2199.

II. Málsmeðferð

Þann 7. desember 2018 flutti kærandi inn til landsins tvær bifreiðar af gerðinni ISUZU D MAX frá Þýskalandi, bifreið með fastanúmerið Y sem kom á sendingarnúmeri P og bifreið með fastanúmerið Z sem kom á sendingarnúmeri W. Aðflutningsskýrslum vegna sendinganna var skilað inn af tollmiðlara til Tollstjóra þann 7. desember 2018 og í skýrslunum voru bifreiðirnar settar í tollflokk 8704.2199, sem grindarbíll sem búið er að bæta við vöruflutningsrými. Þann 17. desember 2018 gerði starfsmaður Tollstjóra athugasemd við þá tollflokkun og taldi bifreiðarnar tvær eiga að vera í tollskrárnúmeri 8704.2138, sem ökutæki til vöruflutninga, og með skráða koltvísýringslosun á bilinu 201-225 g/km og bera 55% vörugjald í samræmi við 1. mgr. 3. gr. laga nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. Kærandi leiðrétti skýrsluna samdægurs, í samræmi við athugasemdir Tollstjóra,

og hlaut sendingin tollafgreiðslu. Hinn 19. desember 2018 óskaði kærandi eftir upplýsingum um ástæður þess að 55% vörugjald hafi verið lagt á bifreiðarnar þar sem kærandi hefði flutt inn samskonar bifreiðar síðastliðið sumar á 13% vörugjaldi. Embætti Tollstjóra svaraði fyrirspurn kæranda þann 20. desember 2018 en þar kom fram að bifreiðar kæranda sem til umfjöllunar eru í þessu máli hafi verið stoppaðar og skoðaðar sérstaklega en slík skoðun hafi ekki farið fram í tilfelli bifreiða kæranda sem hann flutti inn sl. sumar.

Tollflokkun bifreiðanna var kærð skv. 117. gr. tollalaga með tölvupósti dags. 4. janúar sl. Kærunni fylgdu gögn, s.s. tölvupóstar og mynd af bifreiðum kæranda.

Við meðferð málsins var haft samband við kæranda sem heimilaði vöruskoðun bifreiðanna og skoðaði starfsmaður Tollstjóra aðra bifreiðina þann 12. febrúar 2018, að viðstöddum forsvarsmanni kæranda.

III. Meginröksemdir kæranda

Meginröksemdir kæranda eru að ökutækin hafi verið flokkuð í rangan tollflokk.

Kærandi telur ljóst að bifreiðarnar falli undir undanþáguákvæði h-liðar 2. tl. 4. gr. laga nr. 29/1994 um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., og beri þannig 13% vörugjald.

Kærandi bendir á að sjá megi á mynd af bifreiðinni að viðbætt vöruflutningsrými ökutækjanna sé ekki sambyggt ökumannshúsinu og myndi ekki sjónræna heild með því hvað varðar lögun, lit og efni.

IV. Niðurstöður

Ágreiningur í máli þessu snýst um tollflokkun tveggja bifreiða af gerðinni ISUZU D MAX með skráningarnúmerið Z og Y.

Kærandi heldur því fram að um grindarbíl sem búið sé að bæta við vöruflutningsrými sé að ræða sem beri 13% vörugjald og eigi að flokkast í vörulið 8704 sem ökutæki til vöruflutninga, nánar tiltekið í tollskrárnúmer 8704.2199. Í tollskrárnúmer 8704.2199 flokkast bifreið til vöruflutninga að heildarþyngd 5 tonn eða minna með vörurými.

Kærð ákvörðun Tollstjóra lýtur hins vegar að því að um sé að ræða ökutæki sem beri 55% vörugjald eftir losun koltvísýrings, líkt og fólksbílar í tollskrárnúmeri 8704.2138. Í tollskrárnúmer 8704.2138 flokkast bifreið til vöruflutninga að heildarþyngd 5 tonn eða minna með vörupalli og með skráða koltvísýringslosun á bilinu 201-225 g/km.

Þegar grundvöllur fyrir álagningu vörugjalds er skoðaður er nauðsynlegt að líta til laga nr. 29/1993 um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. Samkvæmt 1. gr. laganna ber að greiða vörugjald af ökutækjum sem skráningaskyld eru samkvæmt umferðarlögum nr. 50/1987 og nær gjaldskyldan til allra ökutækja, nýrra sem notaðra, sem flutt eru til landsins, sbr. 1. mgr.

2. gr. laganna. Álagning vörugjalda á ökutæki fer að meginreglu eftir 3. gr. laganna en hún miðar við skráða losun koltvísýrings. Í 4. og 5. gr. laganna er að finna undantekningar frá þessari meginreglu sem kveða almennt á um lægra vörugjald en þyrfti að greiða félli ökutæki undir 3. gr. laganna. Af tollskrá má lesa að ökutæki sem flokkast í tollskrárnúmer 8704.2138 falla undir meginregluna í 3. gr. laga nr. 29/1993 en ökutæki sem flokkast í tollskrárnúmer 8704.2199 falla aftur á móti undir undanþáguákvæði h-liðar 2. tölul. 4. gr. sömu laga.

Þann 18. janúar 2017 úrskurðaði yfirskattanefnd í málum nr. 8/2017 og 9/2017. Um er að ræða niðurstöðu í sambærilegum ágreiningsmálum og því sem hér er til úrskurðar. Í málunum var deilt um tollflokkun bifreiða af gerðinni Ford Transit og Mercedes-Benz Sprinter 313 CDI. Niðurstaða yfirskattanefndar var að tollflokka skyldi bifreiðarnar í tollskrárnúmer 8704.2199 með vísun til undanþáguákvæðis h-liðar 2. tl. 4. gr. vörugjaldslaga, enda teldust þær grindur með hreyfli og ökumannshúsi sem búið væri að bæta við vöruflutningarými. Yfirskattanefnd felldi þar með úr gildi ákvörðun Tollstjóra um að fella skyldi bifreiðarnar undir meginreglu 3. gr. laga nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

Verður sá skilningur lagður í forsendur framangreindra úrskurða yfirskattanefndar að bifreiðar útbúnar vörupalli (nefndir pallbílar í daglegur tali) beri, samkvæmt meginreglu, vörugjald miðað við skráða losun koltvísýrings nema þær megi fella undir undantekningarákvæði h-liðar 2. tl. 4. gr. vörugjaldslaga. Við þá ákvörðun skal framkvæma heildarmat á útliti og útbúnaði bifreiðar við framvísun til tollmeðferðar en í vafatilvikum er heimilt að líta til þess hvort almennt séu bifreiðar af viðkomandi tegund, eða eftir atvikum undirtegund, seldar sem grindur frá verksmiðju við innflutning. Þá virðist nefndin telja þann skilsmun á milli pallbíla, sem bera vörugjald miðað við koltvísýringslosun, og grindarbíla með viðbættu vöruflutningarými, sem bera 13% vörugjald, að hinir síðarnefndu hafi einkenni svokallaðra vinnuflokkabifreiða, svo sem vegna þess að vörupallur þeirra er við innflutning útbúinn niðurfellanlegum skjólborðum.

Í kjölfar úrskurða yfirskattanefndar í ofangreindum málum var skilgreiningu h-liðar 2. tl 4. gr. vörugjaldslaga breytt en h-liðurinn tekur til svokallaðra grindarbíla. Hugtakið vöruflutningarými var skilgreint nánar til að einfalda greinarmun milli svokallaðra grindarbíla og pallbíla en í frumvarpi til laga nr. 59/2017 kemur fram að pallbílar teljast til mannskapsbifreiða og beri vörugjald samkvæmt meginreglu 3. gr. laganna. Í frumvarpinu í umfjöllun um svokallaða grindarbíla er notast við orðalagið „viðbætt vöruflutningarými“ en með því er átt við að vöruflutningarýminu hafi verið bætt á ökutækið sérstaklega og það sé því ekki órjúfanlegur hluti ökumannshúss eins og á t.d. við í tilviki sendibíla en í sendibílum er vöruflutningsrými bifreiðarinnar sambyggt ökumannshúsinu. Í umræddu frumvarpi eru frekari skilyrði talin upp svo að bifreið geti talist vera grindarbíll en þar segir „að eins og leiða má af gildandi lögum er með vöruflutningarými átt við vörukassa eða vörupall. Til þess að gera enn skýrara að rýmið verði að teljast viðbætt er sérstaklega kveðið á um að það megi ekki vera sambyggt ökumannshúsi. Þá er að auki áskilið að vöruflutningarýmið megi ekki hvað varðar lögun, lit eða efni eiga sjónræna samstöðu með ökumannshúsinu sem á grindinni er.“

Vöruflutningsrými bifreiðar þeirra sem hér er til umfjöllunar er pallur sem hvorki er sambyggður ökumannshúsinu né myndar hann sjónræna heild með því hvað varðar lögun, lit eða efni. Pallinum er augljóslega bætt á bifreiðina eftirá og jafnframt eru skjólborð pallsins niðurfellanleg. Þykir það að mati Tollstjóra benda til þess að flokka beri hana í tollskrárnúmer 8704.2199 sem grind með hreyfli og ökumannshúsi, að viðbættu vörurými sbr. ákvæði h-liðar 2. tl. 4. gr. vörugjaldslaga. .

Með vísan til ofangreinds fellst Tollstjóri á kröfur kæranda um að bifreiðar af gerðinni ISUZU D MAX með skráningarnúmerið Z og Y skuli tollflokka í tollskrárnúmer 8704.2199 og bera 13% vörugjald, í samræmi við h-lið 2. tl. 4. gr. vörugjaldslaga.

Álagt vörugjald skv. hinni kærðu ákvörðun Tollstjóra var kr. X vegna bifreiðar kæranda með fastanúmer Z og kr. X vegna bifreiðar kæranda með fastanúmer Y eða samtals að fjárhæð X kr. fyrir báðar bifreiðarnar, sem kærandi greiddi þann 17. desember 2018. Með vísan til ofangreinds skal vörugjald réttilega vera að fjárhæð X kr. fyrir báðar bifreiðarnar. Samtals mismunur til endurgreiðslu vegna ofgreiddra vörugjalda fyrir báðar bifreiðarnar er því að fjárhæð X kr. auk vaxta skv. 2. mgr. 125. gr. tollalaga frá 17. desember 2018.


ÚRSKURÐARORÐ

Embætti Tollstjóra úrskurðar skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005, með síðari breytingum, að ákvörðun Tollstjóra, dags. 17. desember 2018, um tollflokkun tveggja bifreiða af tegundinni ISUZU D MAX með fastanúmer Z og Y í tollskrárnúmer 8704.2138 sem bifreið með skráða koltvísýringslosun á bilinu 201-225 g/km, og beri 55% vörugjald, skuli felld úr gildi. Fallist er á kröfu um að flokka skuli bifreiðarnar í tollskrárnúmer 8704.2199, sem grindarbíla sem búið er að bæta við vöruflutningsrými með 13% vörugjaldi, í samræmi við h-lið 2. tl. 4. gr. vörugjaldslaga nr. 29/1993. Skal mismunur að fjárhæð kr. X , auk vaxta skv. 2. mgr. 125. gr. tollalaga frá 17. desember 2018, endurgreiddur kæranda.

Kæruréttur

Úrskurðinum er heimilt að skjóta til yfirskattanefndar, Borgartúni 21, 105 Reykjavík, innan þriggja mánaða frá dagsetningu ákvörðunar þessarar, sbr. 118. gr. tollalaga nr. 88/2005 og 1. mgr. 5. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd.

Virðingarfyllst,

f.h. Tollstjóra

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum