Úrskurðir tollgæslustjóra

Úrskurður nr. 10/2009

Synjun um tollmeðferð sendingar sem búslóð.

30.6.2009

Í dag var hjá embætti tollstjóra kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R

I. Kæra

Með bréfi, dags. 5. maí 2009, hefur I f.h. B kært skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005 synjun tollstjóra um tollmeðferð sendingar nr. E GOD 27 01 9 DK AAR W136 sem búslóð.

Kærandi krefst þess að honum verði heimilað að tollafgreiða sendinguna sem búslóð, þ.e. með undanþágu frá skyldu til greiðslu aðflutningsgjalda.

II. Málsmeðferð

Þann 27. janúar 2009 kom til landsins sending nr. E GOD 27 01 9 DK AAR W136. Kærandi er skráður innflytjandi. Kærandi óskaði eftir að sendingin yrði tollafgreidd sem búslóð og þar með tollfrjáls, þar sem hann hafi verið búsettur erlendis í meira en eitt ár. Hann hafi búið í K og L á tímabilinu 2006 til 2008. Kærandi og eiginkona hans hafa lögheimili skráð á Íslandi og hafa ekki verið með aðsetur skráð erlendis. Meðal þeirra gagna sem lögð voru fram með aðflutningsskýrslu voru vottorð yfirvalda í L, yfirlýsing leigusala í K og yfirlit greiðslna. Athugasemd var sett í tollakerfi þar sem bent var á að staðfesting á búsetu erlendis lægi ekki fyrir og skilyrði fyrir tollmeðferð sem búslóð lægju því ekki fyrir. Með bréfi dags. 11. maí 2009 fór Tollstjóri fram á frekari gögn vegna málsins. Afrit af hluta leigusamnings barst með tölvupósti þann 26. maí 2009.

III. Meginröksemdir kæranda

Kærandi heldur því fram að skilyrði til tollmeðferðar sendingarinnar sem búslóðar séu uppfyllt, þar sem hann og kona hans hafi verið búsett í K og L á tímabilinu 2006 til 2008 og bendir í því samhengi á vottorð yfirvalda sem og afrit af hluta leigusamnings, viðskiptayfirlit og yfirlýsingu leigusala í K.

IV. Niðurstöður

Í 4. tölul. 6. gr. tollalaga nr. 88/2005 er kveðið á um tollfrelsi búslóða, en í 1. ml. segir að búslóð manna sem flytjast búferlum hingað til lands skuli vera tollfrjáls, enda hafi viðkomandi haft fasta búsetu erlendis í a.m.k. eitt ár áður en hann fluttist til landsins. Í 2. mgr. 6. gr. tollalaga kemur fram að ráðherra skal með reglugerð kveða á um nánari skilyrði fyrir tollfrelsi samkvæmt 6. gr. tollalaga. Í 2. kafla reglugerðar nr. 630/2008 um ýmis tollfríðindi er kveðið á um skilyrði fyrir tollfrelsi búslóða. Í 1. tölul. 1. mgr. 16. gr. reglugerðar nr. 630/2008 segir að innflytjandi skuli hafa haft fasta búsetu erlendis a.m.k. samfellt í eitt næstliðið ár fyrir búferlaflutning til landsins. Í 2. tölul. er kveðið á um að innflytjandi og aðrir rétthafar tollfríðindanna, sem taka sér bólfestu hér á landi, verði með skráð lögheimili í landinu í samræmi við lög um lögheimili. Af ofangreindum ákvæðum er ljóst að innflytjandi búslóðar, sem fer fram á tollfrelsi hennar, þarf að hafa haft fasta búsetu erlendis, en ekki á Íslandi, a.m.k. í eitt ár áður en hann flyst til landsins. Tollstjóri getur samkvæmt 2. mgr. 16. gr. reglugerðar nr. 630/2008 áskilið að innflytjandi sýni fram á að hann uppfylli skilyrði 1. mgr. með skjalfestum hætti, t.d. með því að framvísa dvalarleyfi eða starfssamningi.

Kærandi hefur lagt fram vottorð frá yfirvöldum í L, sem dagsett er þann 26. febrúar 2009. Þýðing á skjalinu hefur ekki verið lögð fram. Af skjölunum er ekki ljóst um hvers konar vottorð er að ræða, og þar kemur ekkert fram sem bendir til þess að það skuli sýna fram á frá hvaða tíma kærandi hafði heimili þar. Þar að auki er ekki um frumrit eða vottað afrit að ræða.

Til sönnunar búsetu í K hefur kærandi lagt fram tölvupóst frá 26. febrúar 2009 með yfirlýsingu leigusala þess efnis að hann hafi leigt íbúðina A í K og að samið hafi verið um að leigjandi sæi sjálfur um húsgögn fyrir íbúðina. Þá kemur fram að leigusali viti ekki til að leigjandi hefði undir höndum húsgögn sem tilheyri fyrirtækinu S. Þessi tölvupóstur inniheldur enga staðfestingu þess að kærandi hafi haft fasta búsetu í K, heldur lýsir því einvörðungu yfir að íbúðin hafi verið leigð honum og að sérstakt samkomulag hafi gilt um húsgögn fyrir hana. Því er ekki hægt að líta svo á að hann nægi til að sýna fram á að skilyrði fyrir tollfrelsi sendingarinnar sem búslóðar hafi verið uppfyllt. Einnig var lagt fram afrit af viðskiptayfirliti yfir greiðslur leiguverðs fyrir íbúðina. Viðskiptayfirlitið er unnið í venjulegu tölvuforriti fyrir texta og virðist vera yfirlit sem leigusali heldur yfir greiðslur fyrir íbúðina. Um er að ræða einkaskjal en ekki staðfest yfirlit banka eða skjal af svipuðu tagi, sem hægt væri að líta á sem formlega sönnun fyrir greiðslu leigu. Kærandi lagði þar fyrir utan fram afrit af hluta leigusamnings fyrir fyrrgreinda íbúð, sem sendur hafði verið með faxi frá K þann 26. maí 2009. Frumrit leigusamnings eða leigusamningur í heild hafa ekki verið lögð fram, þrátt fyrir að farið hafi verið fram á það. Samningurinn einn og sér er ekki til þess fallinn að staðfesta fasta búsetu kæranda í K á því tímabili sem um ræðir, auk þess sem hann liggur ekki fyrir í heild sinni. Ekkert búsetuvottorð eða annars konar staðfesting frá stjórnvöldum hefur verið lagt fram.

Í ljósi þess að kærandi hefur haft skráð lögheimili á Íslandi tímabilið 2006 til 2008 er ekki hægt að líta á framlögð gögn sem fullnægjandi staðfestingu þess að kærandi hafi einvörðungu haft búsetu erlendis á því tímabili sem hér um ræðir. Skilyrði fyrir tollfrelsi búslóðar skv. fyrrgreindum ákvæðum eru því ekki uppfyllt.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Embætti Tollstjóra úrskurðar með vísan til þess sem rakið er hér að framan að synjun um tollmeðferð sendingar nr. E GOD 27 01 9 DK AAR W136 sem búslóð er staðfest.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum