Úrskurðir tollgæslustjóra

Úrskurður nr. 10/2014

Ákvörðun um gjaldskyldu vegna innflutnings sex bifreiða

2.12.2014

Reifun

Kærandi flutti inn sex bifreiðar fyrir fyrirtækið L í Þýskalandi, en L hafði selt ferðamönnum pakkaferðir með reynsluakstri á Íslandi. Var kærandi ósammála gjaldskyldu þar sem bifreiðarnar voru ekki raunverulega á hans vegum heldur hafði hann aðeins útfært umræddar ferðir fyrir L. Þá vildi kærandi meina að jafnræðis væri ekki gætt, þar sem önnur fyrirtæki hefðu áður flutt inn bifreiðar fyrir L og hefði þeim ekki verið gert að greiða aðflutningsgjöld.

Niðurstaða: Tollstjóri vísaði til 3. gr. tollalaga um almenna tollskyldu þess sem flytur inn vöru. Kærandi var skráður innflytjandi samkvæmt aðflutningsskýrslu og flutti bifreiðarnar inn til afhendingar fyrir viðskiptavini L. Staðfesti Tollstjóri því gjaldskyldu kæranda. Þar sem leigusamningar lágu ekki fyrir vegna bifreiðanna voru aðflutningsgjöld reiknuð af áætlaðri leigu sem 1/60 af tollverði þeirra sbr. 6. tl. 7. gr. tollalaga. Tollstjóri áréttaði að lokum að þrátt fyrir að aðrir aðilar hefðu flutt inn bifreiðar en ranglega komist undan greiðslu aðflutningsgjalda réttlætti það ekki samskonar tollmeðferð kæranda.


Í dag var hjá embætti Tollstjóra kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R

I. Kæra

Með tölvupósti dags. 24. október 2014 hefur Í ehf. kært til úrskurðar skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005 ákvörðun Tollstjóra um gjaldskyldu skv. 6. tl. 7. gr. tollalaga vegna sex Land Rover bifreiða sem fluttar voru til landsins á vegum L.

II. Málsmeðferð

Kærandi flutti inn, þann 25. júní 2014, fyrir hönd erlenda fyrirtækisins L, sex bifreiðar með sendingarnúmerunum x, x, x, x, x og x. Var kæranda gert að leggja fram tryggingu fyrir þeim svo leysa mætti þær út með bráðabirgðaafgreiðslu. Var trygging sett fyrir þeim þann 3. júlí 2014 og þær tollafgreiddar sama dag.

Tollstjóra barst með tölvupósti, þann 27. október 2014, krafa kæranda um úrskurð um gjaldskyldu vegna innflutnings bifreiðanna sex. Óskaði Tollstjóri eftir gögnum sem sýnt gætu fram á leigukostnað vegna bifreiðanna eða upplýsingar um verðmæti þeirra. Tollstjóra bárust umbeðin gögn þann 3. nóvember 2014. Leigusamningar voru ekki fyrir hendi fyrir bifreiðarnar en kærandi lagði fram gögn sem sýndu fram á verðmæti bifreiðanna sex. Þann 26. nóvember 2014 tilkynnti Tollstjóri kæranda með tölvupósti að aðflutningsgjöld af áætlaðri leigu bifreiðanna yrðu 1.045.555 kr. Daginn eftir, þann 27. nóvember, hafði kærandi samband við Tollstjóra og óskaði eftir að greiða umrædd gjöld en þó með fyrirvara um réttmæti álagningarinnar.

III. Meginröksemdir kæranda

Í kæru kemur fram að kærandi hafi séð um að útfæra ferðir á Íslandi fyrir ferðaþjónustu L í Þýskalandi, en L hafi flutt inn sex Land Rover bifreiðar til afnota fyrir ferðamenn á þeirra vegum ásamt leiðsögumanni. Hlutverk kæranda hafi verið að taka á móti bílunum hér á landi og veita L ákveðna þjónustu í kringum það. Bifreiðarnar komu til landsins í júní 2014 en voru fluttar aftur út til Þýskalands í ágúst sama ár. Bifreiðarnar voru samkvæmt upplýsingum frá kæranda ekki á neinn annan hátt á vegum kæranda, hann hafi ekki greitt leigu fyrir þær meðan þær voru hér á landi né haft afnot af þeim.

Kærandi byggir mál sitt ennfremur á því að jafnræðis hafi ekki verið gætt við álagningu aðflutningsgjaldanna, þar sem þau fyrirtæki sem áður hefðu séð um samskonar þjónustu fyrir L hafi ekki þurft að greiða umrædd gjöld. Kærandi heldur því fram að þar sem engar breytingar hafi verið gerðar á lögum eða reglugerðum síðan fyrri fyrirtæki sáu um þjónustu fyrir L, ætti kærandi ekki að þurfa að greiða umrædd gjöld.

IV. Niðurstöður

Kærandi byggir mál sitt á því að hann hafi einungis séð um að taka á móti bifreiðunum og veita eiganda þeirra, fyrirtækinu L, tiltekna þjónustu í kringum það. Kærandi byggir á því að bifreiðarnar séu ekki á nokkurn hátt á vegum kæranda. Samkvæmt 3. gr. tollalaga hvílir almenn tollskylda á hverjum þeim sem flytur vöru til landsins til endursölu, afhendingar án endurgjalds eða eigin nota eða verður ábyrgur fyrir greiðslu tolla samkvæmt ákvæðum tollalaga og skal hann greiða toll af hinni innfluttu vöru. Kærandi er skráður innflytjandi á innflutningsskýrslum bifreiðanna sex og flutti hann bifreiðarnar inn til afhendingar fyrir viðskiptavini L. Ber hann því ábyrgð á greiðslu aðflutningsgjalda af þeim.

Í 6. tl. 7. gr. tollalaga er að finna heimild til að lækka toll af stærri tækjum, þ.m.t. ökutækjum til fólksflutninga sem fluttar eru inn tímabundið. Skulu þá aðflutningsgjöld reiknuð af leiguverði fyrir tækið í stað tollverðs. Liggi leiguverð tækis ekki fyrir skal reikna aðflutningsgjöld af áætlaðri leigu sem ákvörðuð skal sem 1/60 hluti tollverðs eins og það er ákveðið skv. V. kafla tollalaga fyrir hvern byrjaðan mánuð frá komu tækis til landsins. Leigusamningar voru ekki gerðir vegna bifreiðanna og lagði kærandi því fram upplýsingar um verðmæti þeirra þess í stað. Var leiga því áætluð sem 1/60 af tollverði bifreiðanna og voru aðflutningsgjöld reiknuð af áætlaðri tveggja mánaða leigu.

Kærandi byggði einnig á því að jafnræðis hefði ekki verið gætt við ákvörðun aðflutningsgjalda þar sem önnur fyrirtæki sem áður hefðu séð um þjónustu fyrir L hefðu ekki þurft að greiða umrædd gjöld. Tollstjóri áréttar að hafi röng framkvæmd verið viðhöfð í sambærilegum málum þá réttlæti það ekki áframhaldandi ranga framkvæmd. Eftir sem áður er um tollskyldan innflutning að ræða sbr. framangreind ákvæði tollalaga og ber kæranda að greiða aðflutningsgjöld samkvæmt því.

ÚRSKURÐARORÐ

Embætti Tollstjóra úrskurðar skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005, með síðari breytingum, að kærandi beri að greiða aðflutningsgjöld af bifreiðunum sex samkvæmt 6. tl. 7. gr. tollalaga.

Kæruréttur

Úrskurðinum er heimilt að skjóta til Ríkistollanefndar, Borgartúni 21, 105 Reykjavík, innan 60 daga frá póstlagningardegi bréfs þessa, sbr. 1. mgr. 118. gr. tollalaga.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum