Úrskurðir tollgæslustjóra

Úrskurður nr. 10/2017

Tollflokkun á bifreið af gerðinni Opel Mavano, með palli

21.7.2017

Reifun

K kærði til úrskurðar ákvörðun Tollstjóra um tollflokkun á bifreið af gerðinni Opel Mavano, með palli. Kærandi mótmælir ákvörðun Tollstjóra um að bifreiðin skuli bera 60% vörugjald sem ökutæki til vöruflutninga miðað við skráða losun koltvísýrings, í tollskrárnúmeri 8704.2129. Kærandi krefst þess að bifreiðin beri 13% vörugjald í samræmi við tollskrárnúmer 8704.2199.

Niðurstaða: Litið er til fordæmandi úrskurða Yfirskattanefndar í málum nr. 8/2107 og 9/2017. Forsendur framangreindra úrskurða yfirskattanefndar eru að bifreiðar útbúnar vörupalli (nefndar pallbílar í daglegu tali) beri, samkvæmt meginreglu, vörugjald miðað við skráða losun koltvísýrings nema þær megi fella undir undantekningarákvæði q-liðar 1. tl. og h-liðar

2. tl. 4. gr. vörugjaldslaga. Við tollflokkun slíkra bifreiða þarf að horfa til þess hvort þær geti talist grindur í skilningi framangreindra undantekningarákvæða. Við þá ákvörðun þarf að framkvæma heildarmat á útliti og útbúnaði bifreiðanna við framvísun til tollmeðferðar en í vafatilvikum má líta til þess hvort almennt séu bifreiðar af viðkomandi tegund, eða eftir atvikum undirtegund, seldar sem grindur frá verksmiðju við innflutning. Þá virðist nefndin telja þann skilsmun á milli pallbíla, sem bera vörugjald miðað við koltvísýringslosun, og grindarbíla með viðbættu vöruflutningarými, sem bera 13% vörugjald, að hinir síðarnefndu hafi einkenni svokallaðra vinnuflokkabifreiða, svo sem vegna þess að vörupallur þeirra er við innflutning útbúinn niðurfellanlegum skjólborðum.

Að mati Tollstjóra uppfyllir umrædd bifreið kæranda ofangreindar forsendur sem koma fram í nefndum úrskurðum Yfirskattanefndar sem leiða til þess að bifreiðin getur fallið undir ákvæði h-liðar 2. tl. 4. gr. vörugjaldslaga. Fellst Tollstjóri því á kröfur kæranda um að bifreiðin beri 13% vörugjald.


Í dag var hjá embætti Tollstjóra kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R

I. Kæra

Með tölvupósti dags. 17. ágúst 2016, hefur K, f.h. B, kært til úrskurðar skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005 ákvörðun Tollstjóra dags. 22. júní 2016 um hækkun vörugjalda á bifreið af gerðinni Opel Mavano með skráningarnúmerið X, í kjölfarið á aðvinnslu hennar

Kærandi mótmælir ákvörðun Tollstjóra um að bifreiðin skuli bera 60% vörugjald sem ökutæki til vöruflutninga, að heildarþyngd 5 tonn eða minna, með palli og skráða koltvísýringslosun á bilinu 226-250 g/km, í samræmi við tollskrárnúmer 8704.2129. Kærandi krefst þess að bifreiðin beri 13% vörugjald sem grindarbíll sem búið sé að bæta við vöruflutningarými, í samræmi við tollskrárnúmer 8704.2199.

II. Málsmeðferð

Þann 2. febrúar 2016 flutti kærandi inn bifreið af gerðinni Opel Mavano, fastanúmer X, með sendingu sem bar sendingarnúmerið Y. Aðflutningsskýrslu vegna sendingarinnar var skilað inn til Tollstjóra þann 15. febrúar sama ár og fékkst afhendingarheimild í kjölfarið, eða þann

17. febrúar. Bifreiðin var við innflutning tollflokkuð í tollskrárnúmer 8704.2111, sem grindarbíll með engu vörurými, og bar 0% vörugjald í samræmi við q-lið 1. tl. 1. mgr. 4. gr. laga nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.. Eftir tollafgreiðslu var palli bætt aftan á grind bílsins. Við þessa aðvinnslu þurfti kærandi að greiða viðbótarvörugjald í samræmi við 9. gr. laga um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., nr. 29/1993. Þann 22. júní 2016 ákvarðaði Tollstjóri að bifreiðin skyldi bera 60% vörugjald sem ökutæki til vöruflutninga, með vörupalli, í samræmi við tollskrárnúmer 8704.2129.

Þann 15. júlí 2016 sendi kærandi Tollstjóra tölvupóst þar sem fram kemur að hann mótmæli ofangreindri ákvörðun. Einnig kemur fram í pósti kæranda að honum sé ljóst að til meðferðar séu sambærileg mál hjá yfirskattanefnd sem séu fordæmisgefandi. Kærandi óskaði eftir því að bíða eftir úrskurðum í þeim málum. Tollstjóri leiðbeindi kæranda þann 20. júlí sama ár um kærurétt skv. 117. gr. tollalaga. Kærandi kærði ákvörðunina með tölvupósti dags. 17. ágúst 2016. Tollstjóri tilkynnti kæranda um móttöku kærunnar sama dag og kom þar einnig fram að búast mætti við drætti á úrskurði í máli kæranda þar til niðurstöður yfirskattanefndar myndu liggja fyrir.

III. Meginröksemdir kæranda

Kærandi kveður bifreið þá sem hér um ræðir hafa upphaflega komið hingað til lands sem grindarbíll á 0% vörugjaldi. Þegar pallur hafi verið settur á grind bílsins hafi þurft að greiða viðbótarvörugjald vegna aðvinnslunnar og sú ákvörðun verið tekin hjá Tollstjóra að bifreiðin bæri 60% vörugjald, sem pallbíll. Kærandi telur aftur á móti að pallur sé í eðli sínu vöruflutningarými og af þeim sökum beri að líta á umrædda bifreið sem grindarbíl með vöruflutningarými í stað ökutækis til vöruflutninga. Grindarbílar með vöruflutningarými bera 13% vörugjald. Ákvörðun Tollstjóra feli það í sér að álagning vörugjalds hafi tekið mið af losun koltvísýrings líkt og um fólksbifreið hafi verið að ræða. Í þessu tilviki hafi 60% vörugjald verið lagt á bifreiðina. Telur kærandi að þessi niðurstaða stangist á við túlkun Frumherja sem telur umrædda bifreið vera sendibíl og telur kærandi að bifreiðin eigi að bera vörugjald sem slíkur.

Að mati kæranda eru lög nr. 29/1993 um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. skýr varðandi þetta atriði, þar sem kveðið er á um að grindarbíll sem búið sé að bæta við vöruflutningarými eigi að bera 13% vörugjald. Telur kærandi að pallur geti ekki verið neitt annað en vöruflutningarými.

IV. Niðurstöður

Ágreiningur í máli þessu snýr að hækkun gjalda á bifreið af gerðinni Opel Mavano. Kærandi heldur því fram að um grindarbíl með vöruflutningarými sé að ræða sem beri 13% vörugjald og eigi að flokkast í tollskrárnúmer 8704.2199. Kærð ákvörðun Tollstjóra lítur hins vegar að því að um sé að ræða pallbifreið sem beri 60% vörugjald eftir losun koltvísýrings, líkt og fólksbílar í tollskrárnúmeri 8704.2129.

Umrædd bifreið er svokallaður grindarbíll og við innflutning var ástand bifreiðarinnar þannig að hún var útbúin ökumannshúsi, en ekki var áfast vöruflutningarými aftan á grind bílsins. Eftir innflutning var vörupalli bætt aftan á grind bifreiðarinnar sem leiddi til þess að greiða þurfti viðbótarvörugjald, sbr. 9. gr. laga nr. 29/1993.

Þann 18. janúar sl. úrskurðaði yfirskattanefnd í málum nr. 8/2017 og 9/2017. Um er að ræða fordæmisgefandi niðurstöðu í sambærilegum ágreiningsmálum og því sem hér er til úrskurðar. Í málunum var deilt um tollflokkun bifreiða af gerðinni Ford Transit og Mercedes- Benz Sprinter 313 CDI. Tollstjóri hélt því m.a. fram að h-liður 2. tl. 4. gr. vörugjaldslaga væri undanþága frá meginreglu um að ökutæki skyldu bera gjöld eftir útblæstri og sem slík bæri að túlka hana þröngt. Innflytjendur bifreiðanna voru þeirrar skoðunar að umræddar bifreiðar skyldu teljast Grindur með hreyfli og ökumannshúsi sem búið er að bæta við vöruflutningarými og og á þær skyldi því leggja 13% vörugjald í samræmi við undanþáguákvæði h-liðar 2. tl. 4. gr. vörugjaldslaga og tollflokk 8704.2199. Yfirskattanefnd féllst á röksemdir kærenda og felldi þar með úr gildi ákvörðun Tollstjóra um að fella skyldi bifreiðarnar undir meginreglu 3. gr. laga nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

Verður sá skilningur lagður í forsendur framangreindra úrskurða yfirskattanefndar að bifreiðar útbúnar vörupalli (nefndar pallbílar í daglegu tali) beri, samkvæmt meginreglu, vörugjald miðað við skráða losun koltvísýrings nema þær megi fella undir undantekningarákvæði q-liðar 1. tl. og h-liðar 2. tl. 4. gr. vörugjaldslaga. Við tollflokkun slíkra bifreiða þarf að horfa til þess hvort þær geti talist grindur í skilningi framangreindra undantekningarákvæða. Við þá ákvörðun þarf að framkvæma heildarmat á útliti og útbúnaði bifreiðanna við framvísun til tollmeðferðar en í vafatilvikum má líta til þess hvort almennt séu bifreiðar af viðkomandi tegund, eða eftir atvikum undirtegund, seldar sem grindur frá verksmiðju við innflutning. Þá virðist nefndin telja þann skilsmun á milli pallbíla, sem bera vörugjald miðað við koltvísýringslosun, og grindarbíla með viðbættu vöruflutningarými, sem bera 13% vörugjald, að hinir síðarnefndu hafi einkenni svokallaðra vinnuflokkabifreiða, svo sem vegna þess að vörupallur þeirra er við innflutning útbúinn niðurfellanlegum skjólborðum.

Að mati Tollstjóra uppfyllir umrædd bifreið kæranda ofangreindar forsendur sem koma fram í nefndum úrskurðum yfirskattanefndar sem leiða til þess að bifreiðin getur fallið undir ákvæði h-liðar 2. tl. 4. gr. vörugjaldslaga. Vöruflutningarými var bætt við ökutækið eftir innflutning en vöruflutningarými í þeim skilningi getur verið bæði pallur eða kassi. Á það ber að líta að bifreiðin var, fyrir aðvinnslu, flokkuð sem grind með hreyfli og viðbætt vöruflutningarými bifreiðarinnar er með niðurfellanlegum skjólborðum. Í úrskurði yfirskattanefndar kemur fram að við ákvörðun um tollflokkun í svona málum þurfi að framkvæma heildarmat á útliti og útbúnaði bifreiðanna. Vöruflutningarými bifreiðar þeirrar sem hér er til umfjöllunar er hvorki sambyggt ökumannshúsinu né myndar það sjónræna heild með því og þykir það að mati Tollstjóra enn fremur benda til þess að flokka beri hana sem grind með hreyfli og ökumannshúsi, að viðbættu vörurými.

Með vísan til ofangreinds fellst Tollstjóri á kröfur kæranda um að bifreið af gerðinni Opel Mavano með skráningarnúmerið X skuli bera 13% vörugjald, í samræmi við h-lið 2. tl. 4. gr. vörugjaldslaga.

Álagt vörugjald skv. hinni kærðu ákvörðun Tollstjóra var að fjárhæð 1.743.576 kr. sem kærandi greiddi þann 31. ágúst 2016. Með vísan til ofangreinds skal vörugjald réttilega vera að fjárhæð 313.438 kr. Mismunur til endurgreiðslu er því að fjárhæð 1.430.138 auk vaxta skv. 2. mgr. 125. gr. tollalaga frá 31. ágúst 2016.

ÚRSKURÐARORÐ

Embætti Tollstjóra úrskurðar skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005, með síðari breytingum, að bifreið af gerðinni Opel Mavano með skráningarnúmerið X skuli bera 13% vörugjald, í samræmi við h-lið 2. tl. 4. gr. vörugjaldslaga nr. 29/1993. Skal mismunur að fjárhæð kr. 1.430.138, auk vaxta skv. 2. mgr. 125. gr. tollalaga frá 31. ágúst 2016, endurgreiddur kæranda.

Kæruréttur

Úrskurðinum er heimilt að skjóta til Yfirskattanefndar, Borgartúni 21, 105 Reykjavík, innan 3 mánaða frá póstlagningardegi bréfs þessa, sbr. 1. mgr. 5. gr. laga um yfirskattanefnd nr. 30/1992.


Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum