Úrskurðir tollgæslustjóra

Úrskurður nr. 10/2018

Vörugjald á húsbíl

14.7.2018

Reifun

A kærði ákvörðun Tollstjóra um að leggja vörugjald á ökutæki kæranda ásamt þeim búnaði sem væri í ökutækinu og krafðist þess að vörugjald yrði eingöngu reiknað af þeirri upphæð sem teldist verðmæti bifreiðarinnar. Ákvörðun Tollstjóra byggðist á því að kærandi hefði flutt inn húsbíl í einu lagi og þar af leiðandi bæri að greiða aðflutningsgjöld af húsbílnum einum.

Litið var til þess að kærandi hefði flutt inn fullbúinn húsbíl en ekki sendiferðabifreið með varahlutum og samkvæmt því bæri honum að greiða aðflutningsgjöld, þ.m.t. vörugjald af heildarverði bílsins skv. framlögðum vörureikningi. Þá var bent á þau jafnræðissjónarmið að innflytjendur skyldu greiða viðbótaraðflutningsgjöld, þ.m.t. vörugjald, vegna breytinga á ökutækjum, bæði af ökutækjum sem flutt væru úr landi til aðvinnslu, sbr. 8. gr. tollalaga nr. 88/2005, og af ökutækjum sem breytt væri hér á landi, sbr. 8. og 9. gr. laga um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. nr. 29/1993.

Af þeim sökum var hin kærða ákvörðun Tollstjóra staðfest.


Í dag var hjá embætti Tollstjóra kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R

I. Kæra

Með bréfi dags. 11. júlí sl. hefur A kært til úrskurðar skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005, ákvörðun Tollstjóra, dags. 28. júní 2018, um að leggja vörugjald á ökutæki kæranda ásamt þeim búnaði sem í ökutækinu er.

II. Málsmeðferð

Þann 5. júní 2018 flutti kærandi inn til landsins ökutæki af gerðinni Mercedes-Benz Sprinter, með sendingu sem bar sendingarnúmerið X. Aðflutningsskýrslu var skilað rafrænt til Tollstjóra þann

25. júní 2018 og á aðflutningsskýrslunni voru tilgreind annars vegar sendibifreið í vörulið 8704 og hins vegar bifreiðavarahlutir í vörulið 8708. Bifreiðin var skoðuð af Tollstjóra og þegar í ljós kom að um fullbúinn húsbíl var að ræða gerði Tollstjóri athugasemd við aðflutningsskýrslu kæranda þann 28. júní 2018 þess efnis að ökutækið og innréttingin skyldi samtollast í tollskrárnúmer 8703.3229. Umrætt ökutæki var tollafgreitt þann 28. júní 2018 og álagt vörugjald á ökutækið var 6.132.346. Ákvörðun er kærð með bréfi dags. 11. júlí 2018.

III. Meginröksemdir kæranda

Málavextir eru þeir að kærandi gerði samning við fyrirtækið C í Þýskalandi um kaup á nýjum Mercedes-Benz Sprinter sendibifreið frá verksmiðju og að fyrirtækið myndi útbúa hann sem ferðabíl með því að setja í hann innréttingar og ýmsan viðlegubúnað. Í kærunni er vísað til þess að á heimasíðu Tollstjóra komi fram að greiða þurfi sérstakt losunargjald CO2 þegar bifreiðar eru fluttar inn til landsins. Þar sem innrétting og viðlegubúnaður var ekki hluti af búnaði bifreiðarinnar frá verksmiðju og ekki CO2 mengandi hafi verið eðlilegt að draga þá ályktun að slíkar vörur yrðu ekki flokkaðar í sama tollskrárnúmeri og bifreiðin.

Í kærunni segir að greiða hafi þurft 60% losunargjald af bifreiðinni þar sem hún flokkist sem húsbíll sem losar 230 gr. af CO2 í blönduðum akstri. Mótmælt er hins vegar að þurfa að greiða losunargjald af sólarsellu, salerni, eldhúsinnréttingu, rúmdýnum, kæliskáp, almennum innréttingum og viðlegubúnaði sem sett var í bifreiðina áður en hún var flutt inn til landsins.

Telur kærandi að verði þetta niðurstaðan sé verið að mismuna kæranda miðað við aðra þá sem kaupa og láta innrétta sambærilega bifreið en velja aðra leið en kærandi taldi eðlilegasta.

Kærandi nefnir dæmi um hvernig mismunandi álagning getur átt sér stað eftir því hvort að bifreið er keypt án innréttinga og sett í eftir innflutning eða flutt út á ný og innréttuð erlendis. Í fyrrnefnda tilvikinu er einungis greiddur virðisaukaskattur af efni og vinnu en í því síðara vörugjöld og virðisaukaskattur samkvæmt viðeigandi tollskrárnúmerum vegna innréttinga og húsbúnaðar.

Telur kærandi að hér sé um augljóst brot á jafnræði að ræða auk þess að vera í hæsta máta óeðlilegt að krefjast CO2 losunargjalds af vörum sem ekkert hafa með losun CO2 að gera og draga jafnvel úr slíkri losun, svo sem gastæki og sólarsellur.

Ólíklegt teljist að þessi aðferðafræði við tollafgreiðslu sé í samræmi við ætlaðan tilgang laganna um losun efna sem geta valdið gróðurhúsaáhrifum.

Farið er fram á að fallist verði á þá kröfu kæranda að losunargjaldið verið aðeins reiknað af þeirri upphæð sem tilgreind er á reikningi sem innflutningsverðmæti umræddrar bifreiðar frá verksmiðju en ekki þeim innréttingum sem settar voru í bifreiðina síðar.

IV. Niðurstöður

Samkvæmt 3. gr. tollalaga, nr. 88/2005, skal hver sá sem flytur vörur til landsins vera ábyrgur fyrir greiðslu tolla samkvæmt ákvæðum tollalaga. Í 5. gr. sömu laga er kveðið á um að tollur skuli lagður sem verðtollur á tollverð vörunnar eins og það er ákveðið samkvæmt ákvæðum 14. – 16. gr. laganna. Í 1. mgr. 14. gr. segir að tollverð innfluttrar vöru sé viðskiptaverðið, þ.e. það verð sem raunverulega er greitt eða greiða ber fyrir vöruna við sölu þeirra til útflutnings til landsins. Í því verði telst innkaupsverð, flutningskostnaður og flutningstryggingar vörunnar.

Við innflutning á ökutækjum ber að líta til laga nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. Í þeim lögum er kveðið á um með hvaða hætti leggja skal vörugjald á ökutæki sem flutt eru til landsins, ný eða notuð, framleidd, unnin eða samsett hér á landi. Í 3. gr. þeirra laga segir að leggja skuli vörugjald á ökutæki samkvæmt þeim gjaldbilum sem fram koma í ákvæðinu, miðað við skráða losun koltvísýrings viðkomandi ökutækis, mælt í grömmum á hvern kílómetra.

Í tilviki kæranda er um að ræða húsbíl sem hefur skráða losun upp á 230 grömm á hvern kílómetra. Í því felst að ökutækið fellur í gjaldbil I, sem ber 60% vörugjald. Eins og áður segir ber að leggja gjaldið á við innflutning, eins og varan er samsett við innflutning, á það sem raunverulega er greitt fyrir vöruna. Við innflutning var um að ræða húsbíl, óháð því hvernig samsetning ökutækisins var áður en til innflutnings kom og hverju var bætt við áður. Tollstjóra ber að leggja á gjöld á vöruna eins og hún kemur til innflutnings, en ekki hvernig hún var áður.

Í kærunni er talað um losunargjald á ökutækið. Tollstjóri vill taka fram að ekkert slíkt gjald er til staðar, né heldur að finna upplýsingar á heimasíðu Tollstjóra um slíkt gjald. Einungis er um að ræða leið löggjafans til að leggja á vörugjald í samræmi við útblástur ökutækja. Álagningin er því óháð samsetningu ökutækisins, einungis útblæstri.

Það sem flutt var inn til landsins var húsbíll, en ekki lausamunir. Tollstjóri tekur undir að hefði kærandi flutt inn aukatækin sér, hefði ekki verið á það lagt vörugjald, heldur einungis virðisaukaskattur og tollur, þar sem það á við. Það hins vegar er ekki andstætt jafnræðissjónarmiðum, enda grundvallarregla að aðflutningsgjöld leggjast á þá vöru sem flutt er inn, sem í þessu tilviki er fullbúinn húsbíll. Þar að auki skulu innflytjendur greiða viðbótaraðflutningsgjöld, þ.m.t. vörugjald, vegna breytinga á ökutækjum, bæði af ökutækjum sem flutt eru úr landi til aðvinnslu, sbr. 8. gr. tollalaga nr. 88/2005, og af ökutækjum sem breytt er hér á landi, sbr. 8. og 9. gr. laga um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. nr. 29/1993.

ÚRSKURÐARORÐ

Embætti Tollstjóra úrskurðar skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005, með síðari breytingum að beiðni kæranda, um að losunargjald verði aðeins reiknað af þeirri upphæð sem tilgreind er á reikningi sem innflutningsverðmæti umræddrar bifreiðar frá verksmiðju en ekki þeim innréttingum sem settar voru í bifreiðina síðar, er hafnað.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum