Úrskurðir tollgæslustjóra

Úrskurður nr. 11/2004

Tollflokkun á plastgrindum

28.5.2004

Vísað er til bréfa L, dags. 17., febrúar og 16. apríl sl., þar sem kærð er ákvörðun embættisins að hafna beiðni um leiðréttingu á tollflokkun á plastgrindum. Varan var flutt til landsins með sendingu númer E. Ákvörðunin er kærð á grundvelli 100. gr. tollalaga nr. 55/1987, með síðari breytingum.

I.

Innflytjandi lagði fram við tollafgreiðslu aðflutningsskýrslu þar sem plastgrindurnar voru tollflokkaðar í tollskrárnúmer 3926.9029. Skýrslan var afgreidd þann 7. janúar sl. án athugasemda. Daginn eftir, þann 8. janúar, leggur innflytjandi inn leiðréttingu á tollflokkun vörunnar þar sem hún er tollflokkuð í tnr. 3926.9015. Starfsmenn tollstjóra töldu vöruna rétt flokkaða við fyrstu afgreiðslu og tóku leiðréttinguna ekki til greina. Innflytjandi hefur ekki fyrr en nú farið fram á skriflegan rökstuðning tollstjóra fyrir niðurstöðunni.

II.

Ágreiningurinn er um tollflokkun í tollskrárnúmer innan vöruliðar 3926, annarsvegar tnr. 3926.9015 – Vörur sem almennt eru notaðar í vélbúnaði eða verksmiðjum, og hinsvegar tnr. 3926.9029 – Annars.

Sérfræðingar embættisins í tollflokkun hafa farið yfir málið og kynnt sér þau gögn sem lögð hafa verið fram. Varan er kynnt sem plastgrindur til vinnslu á fiskafurðum, s.s. þurrkun, reykingu, lausfrystingu og vinnslu á saltfiski. Þær eru sagðar sérhannaðar inn í vinnslulínu fiskvinnslufyrirtækja og koma í tveimur stærðum með möguleika á þrem tegundum af útskiptanlegum fótum undir þær.

Eftir ítarlega skoðun er það mat embættisins að plastgrindurnar, jafnvel þó þær geti nýst annarsstaðar en í verksmiðjum eða vélbúnaði, séu vissulega til nota í verksmiðjum eins og framlögð gögn bera með sér og því sé ekki hægt að líta fram hjá texta tnr. 3926.9015, „[v]örur sem almennt eru notaðar í vélbúnaði eða verksmiðjum“, við flokkun þeirra. Varan er því rétt flokkuð hjá innflytjanda í tnr. 3926.9015 sbr. almennar túlkunarreglur tollskrár nr 1 og 6 og sbr. texta tollskrárnúmersins.

III.

Það skal tekið fram að haft var samband við innflytjandann, dags. 4. maí sl. og honum kynnt efnisleg niðurstaða málsins. Beðist er velvirðingar á því að formleg afgreiðsla máls þessa hefur tafist vegna anna embættisins. Innflytjandi er hvattur til að leggja fram að nýju leiðréttingu á aðflutningsskýrslu og mun þá endurgreiddur ofgreiddur tollur að upphæð 251.866 krónur ásamt inneignarvöxtum.

Úrskurður:

Embætti tollstjórans í Reykjavík úrskurðar, skv. 100. gr. tollalaga nr. 55/1987, með síðari breytingum, að plastgrindur til vinnslu á fiskafurðum, sem fluttar voru til landsins í sendingu númer E, skuli flokkast í tollskrárnúmer 3926.9015 á grundvelli 1. og 6. almennu túlkunarreglna tollskrár.

Úrskurði þessum er heimilt að skjóta til Ríkistollanefndar, Skúlagötu 57, 150 Reykjavík og er kærufrestur 60 dagar talið frá póstlagningardegi bréfs þessa, sbr. 1. mgr. 101. gr. tollalaga nr 55/1987, með síðari breytingum.

Reykjavík, 28. maí 2004.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum