Úrskurðir tollgæslustjóra

Úrskurður nr. 11/2009

Endurgreiðsla virðisaukaskatts af listaverki

10.7.2009

Í dag var hjá embætti tollstjóra kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R

I. Kæra

Með bréfi, dags. 29. desember 2008, kærði A álagningu virðisaukaskatts vegna sendingar nr. M SEL 20 10 8 DE HAM Y081 til fjármálaráðuneytisins. Kæran var framsend til embættis Tollstjóra skv. 2. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 með bréfi, dags. 30. mars 2009 með vísan til 117. gr. tollalaga nr. 88/2005 .

Kærandi krefst þess að virðisaukaskattur vegna sendingarinnar verði endurgreiddur, þar sem um listaverk hafi verið að ræða.

II. Málsmeðferð

Kærandi ákvað af tilefni afmælis að fá listaverk – steindan glugga - í skipið. Samkeppni var haldin árið 2006 og myndverk listamannsins B valið. Glugginn var unninn hjá fyrirtækinu Oí Þýskalandi. Þann 20. október 2008 kom verkið til landsins sem sending nr. M SEL 20 10 8 DE HAM Y081. Skráður innflytjandi er B. Við innflutning var lagður virðisaukaskattur að upphæð 2.897.555,00 kr. á sendinguna.

III. Meginröksemdir kæranda

Kærandi telur að virðisaukaskatt vegna sendingarinnar beri að fella niður þar sem um listaverk sé að ræða sem undanþegið sé virðisaukaskatti.

IV. Niðurstöður

Í 1. gr. laga nr. 50/1988 er kveðið á um að greiða skuli í ríkissjóð virðisaukaskatt af viðskiptum innan lands á öllum stigum, svo og af innflutningi vöru og þjónustu, eins og nánar er ákveðið í lögunum. Í 4. tölul. 36. gr. virðisaukaskattslaga er hins vegar kveðið á um að listaverk sem falla undir tollskrárnúmer 9701.1000–9703.0000 og listamaðurinn sjálfur flytur inn skulu undanþegnar virðisaukaskatti við innflutning.

Enginn ágreiningur liggur fyrir um að um listaverk er að ræða og rétt er að listamaðurinn sjálfur er skráður innflytjandi verksins, eins og fram kemur að ofan. Hins vegar eru, gagnstætt því sem kærandi heldur fram, ekki öll listaverk undanþegin virðisaukaskatti við innflutning, heldur er einnig skilyrði að verkið falli undir tollskrárnúmer 9701.1000- 9703.0000. Undir tollskrárnúmer 9701 falla „málverk, teikningar og pastelmyndir gerðar í höndum að öllu leyti, þó ekki teikningar í nr. 4906 og handmálaðir eða handskreyttir framleiddir hlutir; klippimyndir og áþekk veggskreytispjöld“. Undir tollskrárnúmer 9702- 0000 falla „frumverk af stungum, þrykki og steinprenti“. Undir tollskrárnúmer 9703-0000 falla „frumverk af höggmyndum og myndastyttum, úr hvers konar efni“. Embætti Tollstjóra telur að ofangreint verk falli ekki undir þessi tollskrárnúmer, heldur sé um að ræða „blýgreypt gler og þess háttar“ eins og kemur fram í orðalagi vöruliðar 7016 í tollskrá. Skv. túlkunarreglu nr. 1 við tollskrá eru fyrirsagnir á flokkum, köflum og undirköflum einungis til leiðbeiningar. Í lagalegu tilliti skal tollflokkun byggð á orðalagi vöruliða og athugasemda við tilheyrandi flokka eða kafla. Það er því álit embættis Tollstjóra að ofangreind sending skuli flokkast í tollskrárnúmer 7016.9001.

Því er ljóst að skilyrði fyrir undanþágu verksins frá virðisaukaskatti við innflutning hafa ekki verið uppfyllt, þar sem ekki er um að ræða verk sem fellur undir þau tollskrárnúmer sem upp eru talin í 4. tölul. 36. gr. virðisaukaskattslaga.

Beðist er velvirðingar á töfum við afgreiðslu málsins.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Embætti Tollstjóra úrskurðar með vísan til þess sem rakið er hér að framan að álagning virðisaukaskatts vegna sendingar nr. M SEL 20 10 8 DE HAM Y081 er staðfest.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum