Úrskurðir tollgæslustjóra

Úrskurður nr. 11/2010

Tollflokkun á Kindle

26.10.2010

Í dag var hjá Tollstjóra kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R

I. Kæra

Með bréfi, dags. 20. febrúar 2010, hefur M kært skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005 þá ákvörðun Tollstjóra frá 23. desember 2009 að tollflokka vöruna Kindle, sem flutt var inn með sendingu nr. D 810 14 12 9 DE CGN I121, í tollskrárnúmer 8527.9109.

Kærandi krefst þess að varan verði tollflokkuð í annað tollskrárnúmer (tnr.) og að embættið endurgreiði ofgreidd aðflutningsgjöld vegna rangrar tollflokkunar.

II. Málsmeðferð

Þann 23. desember sl. flutti kærandi inn vöruna Kindle með sendingu nr. D 810 14 12 9 DE CGN I121. Varan var keypt í vefversluninni www.amazon.com. Kæranda var tjáð af embættinu að varan ætti að tollflokkast í tnr. 8527.9109. Varan var tollafgreidd þann 13. desember 2009. Kærandi sendi inn kæru máls, dags. 10. febrúar 2010, sem barst embættinu þann 12. febrúar sl.

III. Meginröksemdir kæranda

Kærandi fjallar um að varan hafi upphaflega verið tollflokkuð í tnr. 8527.9029 af tollmiðlarafyrirtækinu UPS á Íslandi (Express ehf) en það tollskrárnúmer er ekki til í tollskránni. Kærandi telur að tækið geti ekki tollflokkast í tnr. 8527.9109 en telur nær lagi að flokka tækið til dæmis í tollskrárnúmer 8471.3009, sama tollskrárnúmer og fartölvur og lófatölvur eru venjulegar tollflokkaðar í. Kærandi byggir á því að Kindle hafi að geyma skjá og lyklaborð og að í tækinu sé 532mhz örgjörvi, 256mb innra minni og 2 GB harður diskur. Það sé með Linux stýrikerfi og mögulegt sé að komast á alnetið í gegnum farsímasamband til þess að sækja bækur keyptar á amazon.com. Tækið sé einnig hægt að tengja við tölvu til þess að flytja bækur inn á það og til að hlaða tækið. Kærandi lagði fram útprentun af tæknilýsingu vörunnar af vef amazon.com.

Kærandi krefst þess að tollflokkun vörunnar Kindle sé leiðrétt og krefst endurgreiðslu ofgreiddra aðflutningsgjalda.

IV. Niðurstöður

Um er að ræða raftæki en meginnotkun þess er lestur bóka á rafrænu formi. Textinn birtist á sérstökum svarthvítum lesskjá, sem getur einnig skilað myndum. Tækið er um 20,32 sentimetra hátt, 13,46 sentimetra breitt og 0,91 sentimetra þykkt. Tækið tengist Amazon vefsíðunni í gegnum farsímanet og getur sótt þangað bækur gegn gjaldi. Auk bóka getur tækið sótt PDF skrár, dagblöð og tímarit. Einnig er hægt að hlaða efni frá tölvu inn í tækið í gegnum USB snúru. Innra minni tækisins er 2 GB og ætti því að geta innihaldið um 1500 bækur.

Auk þessara þátta getur tækið lesið texta upphátt og hægt er að hlaða inn og spila hljóðbækur. Möguleiki er að skoða vefsíðuna wikipedia.org og auk þess er hægt að skoða fleiri einfaldar vefsíður í Bandaríkjunum en ekki er boðið upp á þá þjónustu á Íslandi, enn sem komið er. Orðabókin „The New Oxford American Dictionary“ er innbyggð í tækið.

Kærandi telur að rangt sé að tollflokka tækið í tnr. 8521.9029 og bendir á að varan ætti frekar að tollflokkast í tnr. 8471.3009.

Við tollflokkun vara samkvæmt tollskránni skal fylgja almennum reglum um túlkun tollskrárinnar. Samkvæmt 1. túlkunarreglu tollskrárinnar skulu fyrirsagnir á flokkum, köflum og undirköflum vera einungis til leiðbeiningar. Í lagalegu tilliti skal tollflokkun byggð á orðalagi vöruliða, athugasemda við tilheyrandi flokka eða kafla. Við vörulið 8471 segir:

„Sjálfvirkar gagnavinnsluvélar og einingar til þeirra; lesarar fyrir segulletur eða ritletur, vélar til að umskrá gögn á gagnamiðla á táknmáli og vélar til að vinna úr slíkum gögnum, ót.a.“

Í athugasemd 5. A við 84. kafla er talið upp hvað vélar þurfa að geta til að teljast sjálfvirkar gagnavinnsluvélar. Samkvæmt 2. tölul. athugasemdarinnar verða vélar að vera auðveldlega forritaðar í samræmi við óskir notandans. Samkvæmt 3. tölul. athugasemdarinnar verða vélar að geta framkvæmt talnaútreikning samkvæmt ákvörðun notandans. Umrætt tæki uppfyllir ekki þessi skilyrði samkvæmt ofangreindri lýsingu. Af þessu leiðir að útilokað er að flokka umrætt tæki í 8471.3009.

Til greina kemur að flokka umrætt tæki í tvö tollskrárnúmer. Annars vegar tnr. 8521.9029 og hins vegar tnr. 8543.7001. Við vörulið 8521 stendur að þar eigi að flokka myndupptökutæki eða myndflutningstæki (video). Í þann vörulið eru flakkarar flokkaðir, hvort sem þeir eru með innbyggðum skjá eða ekki. Umrætt tæki getur ekki skilað hreyfimyndum en það getur skilað kyrrmyndum. Ekki er unnt að telja að sá eiginleiki tækisins sé einn af aðaleiginleikum þess. Fyrst og fremst er tækið ætlað til að lesa texta af. Öfugt við flakkara getur tækið ekki geymt allar tölvuskrár. Í vörulýsingu þess eru taldar upp þau skráarform sem tækið getur geymt sem eru eftirfarandi texta- og hljóðskrár: azw, txt, pdf, aa, aax, mp3, mobi, doc og prc. Einnig getur tækið geymt eftirfarandi vef- og myndskrár, ef þeim er umbreytt: html, jpeg, gif, png og bmp. Í orðalagi vöruliðarins er lögð áhersla á hreyfimyndir (video). Samkvæmt vörulýsingu getur tækið ekki geymt slíkar tegundir af skrám. Af þessu leiðir að tækið getur ekki verið tollflokkað í þennan vörulið.

Eftir stendur vöruliður 8543 en við þann lið stendur að í hann flokkist „rafmagnsvélar og - tækjabúnaður, til sérstakra nota, ót.a. í þessum kafla. Tollskrárnúmer 8543.7001 er fyrir heimilistæki. Samkvæmt 6. túlkunarreglu tollskrár skal flokkun vara í undirliði einstakra vöruliða byggð á orðalagi undirliðanna. Umrætt tæki er heimilistæki. Ekki verður af öðru ráðið en tollflokka beri vöruna í það tollskrárnúmer.

Samkvæmt úrskurði USITC, (United States International Trade Commission) nr. HQ 964779 frá 27. febrúar 2002, flokkast sambærileg tæki í vörulið 8543. Í sameiginlegri tollskrá Evrópusambandsins er tollskrárnúmerið 8543.7010 fyrir rafmagnstæki með þýðingar- eða orðabókareiginleikum. Umrætt tæki hefur slíka eiginleika. Þess vegna telur embættið að líta megi til þessara úrskurða.

Embætti Tollstjóra úrskurðar, með vísan til þess sem rakið er hér að framan, að varan Kindle sem flutt var inn með sending nr. P 150 21 01 0 IS B01 9655 skuli tollflokkast í tnr. 8543.7001.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Embætti Tollstjóra úrskurðar skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005, með síðari breytingum, að varan Kindle sem flutt var inn með sendingu D 810 14 12 9 DE CGN I121 skal tollflokkast í tollskrárnúmer 8543.7001.

Kæruréttur

Úrskurðinum er heimilt að skjóta til Ríkistollanefndar, Skúlagötu 57, Reykjavík, innan 60 daga frá póstlagningardegi bréfs þessa, sbr. 1. mgr. 118. gr. tollalaga.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum